Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 59/1987, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru eftirtaldir hv. þm.: Geir H. Haarde, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Með leyfi hæstv. forseta mun ég nú gera grein fyrir meðfylgjandi grg., en í byrjun er rétt að geta þess að 1. gr. þessa frv. hljóðar svo:
    ,,Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Það skerðir ekki rétt foreldris til greiðslu fæðingarstyrks frá Tryggingastofnun ríkisins skv. 1. mgr. þessarar greinar þótt samið sé við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingarstyrk að hluta til eða að fullu.``
    2. gr. hljóðar svo:
    ,,Við a-lið 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Þeir sem ekki njóta slíks réttar geta samt sem áður samið við launagreiðendur um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingardagpeningum, að hluta til eða að fullu, án þess að skerða rétt sinn til greiðslu fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins.``
    Og 3. gr. hljóðar svo:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði þeirra taka til þeirra foreldra sem eru í fæðingarorlofi 1. febrúar 1990 eða síðar og fá greiðslur skv. 16. og 26. gr. almannatryggingalaga, sbr. lög nr. 59/1987.``
    Lög nr. 59/1987 tóku gildi þann 1. janúar 1988 og fjalla um tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. 1. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 16. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingarstyrks til allra mæðra hvort sem þær eru heimavinnandi eða við störf á almennum vinnumarkaði. Þó segir í 2. mgr. 1. gr.:
    ,,Ákvæði greinar þessarar taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum, þann tíma er óskert laun eru greidd.``
    2. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 26. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingardagpeninga til foreldra í fæðingarorlofi sem verið hafa á vinnumarkaði. A-liður 2. gr. hljóðar svo:
    ,,Foreldrar í fæðingarorlofi, sem lögheimili eiga á Íslandi, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.``
    Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs greiðir Tryggingastofnun fæðingarstyrk ásamt fæðingardagpeningum, það síðarnefnda í samræmi við ákveðinn vinnustundafjölda. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi, t.d. opinberir starfsmenn, eiga þó ekki

rétt á þessum greiðslum frá Tryggingastofnun. Upphæð fæðingarstyrks er ákveðin fjárhæð og hækkar með sama hætti og aðrar bætur lífeyristrygginga. Fæðingardagpeningar eru tvöfaldir sjúkradagpeningar einstaklings eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Þessar greiðslur nema nú samtals um það bil 50 þús. kr. á mánuði, en þá er um hámarksgreiðslu að ræða. Full laun foreldris á hinum almenna vinnumarkaði geta því numið mun hærri fjárhæð. Í slíkum tilvikum er ekki óeðlilegt að einstaklingur semji við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og greiðslum frá Tryggingastofnun, enda hluti af því samningsfrelsi er hér ríkir lögum samkvæmt.
    Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar hefur hins vegar synjað öllum fæðingarorlofsgreiðslum ef viðkomandi umsækjandi hefur hlotið einhverjar viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda. Stofnunin virðist byggja álit sitt á túlkun ákvæða 2. mgr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 59/1987 um ,,óskert laun`` og ,,að leggja niður launuð störf``, í samræmi við túlkun tryggingaráðs á eldri fæðingarorlofslögum og álit lögfræðinga hjá heilbr.- og trmrn. Enn fremur að ætti að breyta þessari túlkun hefði þurft að taka það skýrt fram í fæðingarorlofslögunum og athugasemdum með frv. þar sem hér sé um mjög mikilvæga breytingu að ræða.
    Það virðist vafasamt að telja aldur lagatúlkunar alfarið mælikvarða á réttmæti hennar í tilfellum sem þessum. Engin bókun tryggingaráðs þar til nú nýverið var til um þetta efni og ekkert skriflegt til að styðjast við, hvorki frá tryggingaráði né ráðuneytinu. Enginn stafur er heldur til um það hvað teljast ,,óskert laun``, en laun þurfa að vera óskert til að útiloka greiðslur frá Tryggingastofnun. Það hefur enn fremur komið í ljós samkvæmt upplýsingum nefndarmanna er sömdu fæðingarorlofsfrumvörpin á sínum tíma að menn voru sammála um að hlutagreiðslur frá vinnuveitanda, til að launþegi héldi óskertum launum, gætu á engan hátt útilokað bótarétt eða greiðslur frá Tryggingastofnun. Þessi skilningur var enn fremur staðfestur í umræðum á Alþingi 9. nóv. sl. með ummælum Ragnhildar Helgadóttur, en hún var í
ráðherratíð sinni flutningsmaður þeirra frv. sem áður er getið. Auk þess hefur það fordæmi skapast að Tryggingastofnun greiðir bankamönnum athugasemdalaust fæðingarorlof þrátt fyrir viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda.
    Samt sem áður hefur Tryggingastofnun haldið þessari lagatúlkun til streitu og nýlega, eða 26. jan. sl., hafnaði meiri hluti tryggingaráðs umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur, þar sem móðir hafði fengið greiddan mismun á fullum launum og fæðingarorlofsgreiðslum, m.a. á þeirri forsendu að ný túlkun laganna yrði ekki síður vafamál en núgildandi túlkun. Slík afgreiðsla, þar sem einum er gert að hlíta slíkri túlkun en öðrum ekki, hlýtur að skapa verulega réttaróvissu og mismunun gagnvart foreldrum.
    Jafnframt má benda á að iðgjöld lífeyristrygginga eru greidd af atvinnurekendum; þeir greiða 2% af reiknuðum launum til lífeyristrygginga og kaupa sér þar með tryggingu. Einnig hlýtur það að teljast

óeðlilegt að Tryggingastofnun eða tryggingaráð séu að hafa afskipti af því hvað um er samið á almennum vinnumarkaði.
    Réttur til fæðingarorlofs er slík grundvallarmannréttindi að ekki verður unað við neina réttaróvissu í þeim efnum. Til þess að taka af allan vafa um réttmæti umræddrar lagatúlkunar er lagabreyting samkvæmt frv. þessu lögð hér til. Lagaákvæði munu þannig taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Ef frv. þetta verður samþykkt þykir rétt og sanngjarnt að gera ráð fyrir því að þeir foreldrar, sem eru í sex mánaða fæðingarorlofi þegar frv. er lagt fram, njóti þess réttar sem það mælir fyrir um.
    Hæstv. forseti. Í grg. er það rakið hvernig greiðslufyrirkomulagi er háttað í fæðingarorlofsgreiðslum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Lög nr. 59/1987 kveða á um bæði greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga, en hvort tveggja er greitt til foreldra á vinnumarkaði sem fara í fæðingarorlof. Reyndar kveður reglugerð laganna einnig á um atvinnuþátttöku maka bænda við landbúnaðarstörf, foreldris sem rekur sjálfstæða atvinnustarfsemi, foreldris sem vinnur launuð störf í heimahúsi og foreldris sem er í námi.
    Fæðingarstyrkur og fæðingarorlof fylgjast að og því er nauðsynlegt að leggja til lagabreytingar með nýjum málsliðum við bæði 1. og 2. gr. laga nr. 59/1987, enda er mælt fyrir um ákveðnar takmarkanir vegna kjarasamninga í báðum þessum lagagreinum þar sem aðilar njóta óskertra launa. Til eru önnur lög um fæðingarorlof, nr. 57/1987, sem kveða almennt á um rétt foreldra til fæðingarorlofs svo sem ég kem að hér síðar.
    Í frv. sem hér er til umræðu og í grg. er rætt um foreldra vegna þess að feður geta einnig nýtt sér rétt til fæðingarorlofs. Í framkvæmdinni eru það hins vegar nær alfarið mæður sem fara í fæðingarorlof. Þessi staðreynd blasir við og er staðfest í upplýsingum hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hluti af svari hans við fsp. á hinu háa Alþingi þann 9. nóv. sl. Þar segir m.a.:
    ,,Árið 1986 eru engar greiðslur bókaðar til feðra og ekki heldur árið 1987, en árið 1988 hafa 38 feður fengið fulla fæðingardagpeninga og þrír fengið hálfa fæðingardagpeninga. Árið 1989 á þessu umrædda tímabili 1. jan. til 30. sept. hafa 40 feður fengið fulla fæðingardagpeninga en aðeins einn hálfa fæðingardagpeninga.`` Sambærilegar tölur um mæður eru að 1988 fá 4603 fæðingarstyrk. Af þeim fá 3820 fulla fæðingardagpeninga og 333 hálfa. Árið 1989, 1. jan. til 30. sept., eru tölurnar þær að fæðingarstyrki hafa fengið 3897, fulla fæðingardagpeninga 3199 og hálfa fæðingardagpeninga 256. Þessar tölur koma fram í Alþingistíðindum, dálki 813, í umræðum frá 9. nóv. sl.
    Enda þótt sumum þætti e.t.v. ákjósanlegt að hlutur feðra væri stærri blasir þessi staðreynd engu að síður við og því er ljóst að hér er um að ræða mjög mikið réttlætismál sem snertir konur.

    En börnin mega heldur ekki gleymast í þessari umræðu. Þau eiga einnig rétt til umönnunar foreldra sinna. Lagaákvæði um fæðingarstyrk og/eða fæðingarorlof hafa verið í gildi allt frá árinu 1937 eða frá því að lög um alþýðutryggingar voru sett. Lagaþróunin hefur verið í nokkru samræmi við þjóðfélagsþróun og hefur réttarstaða foreldra tekið miklum breytingum til batnaðar í kjölfarið. Svavar Gestsson, núv. hæstv. menntmrh., mælti t.d. fyrir frv. sem varð að lögum nr. 97/1980, um fæðingarorlof, og sagði m.a. við það tækifæri:
    ,,Frv. það sem hér er flutt gerir ráð fyrir að nú verði lögfestur lágmarksréttur fæðingarorlofs til allra foreldra á hinum almenna vinnumarkaði auk þeirra sem eru heimavinnandi.``
    Fleiri þmfrv. komu fram sem treysta áttu enn betur réttarstöðu foreldra en árið 1987 lagði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, þáv. heilbr.- og trmrh., fram frv. um fæðingarorlof, sbr. lög nr. 57/1988, og um greiðslutilhögun, lög nr. 59/1988, og má tvímælalaust telja að þau feli í sér miklar réttarbætur, m.a. lengingu fæðingarorlofs sem er nú sex mánuðir frá 1. jan. sl. að telja.
    Það hlýtur að teljast harla ótrúlegt að þessum lögum hafi á nokkurn hátt verið ætlað að skerða rétt foreldra, sbr. lögin frá 1980 sem tala um lágmarksbætur, enda vísa ég í grg. til þess og það kemur einnig fram í greinargerð lögfræðings tryggingaráðs að það hafi aldrei verið ætlun nefndarmanna sem sömdu frumvörpin á sínum tíma árið 1987 að skertur yrði
réttur þeirra foreldra sem fengju viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi, þó þannig að samanlagðar greiðslur frá Tryggingastofnun og atvinnurekanda færu ekki fram yfir full laun. Í frv. því sem hér er til umræðu er einnig talað um greiðslu mismunar að fullu eða öllu og er rétt að undirstrika það atriði.
    Ragnhildur Helgadóttir staðfesti enn fremur þennan skilning nefndarmanna í umræðum þeim er urðu um fsp. á Alþingi þann 9. nóv. sl. eins og ég skýrði frá hér fyrr og getið er í grg. Hún taldi það fyllilega heimilt og að vinnuveitanda og launþega væri ætíð frjálst að semja um það sem á vantaði fullar greiðslur svo að heildartekjur næmu hinu sama og full laun viðkomanda hefðu verið. Rétt er að geta þess að fulltrúar heilbr.- og trmrn. virðast ekki telja þessar upplýsingar eða umræður veigamikil lögskýringargögn og hafa haldið fast við hina túlkunina. Ragnhildur Helgadóttir minntist einnig í þessum umræðum á lögin sem samþykkt voru 1975. Hún sagði að lögin hefðu átt að greiða fyrir því að mæður gætu haldið fullum launum í fæðingarorlofi því að það gæti orðið fyrirtækjum ofviða að greiða alla upphæðina.
    Þegar lög um fæðingarorlof voru í endurskoðun var talið eðlilegt að kljúfa ákvæðin upp eftir eðli, þ.e. hvort þau tilheyrðu vinnurétti eða almannatryggingum. Lögin um fæðingarorlof lúta að vinnuréttinum. Engu að síður tvinnast ákvæðin saman og mynda heild. Ekkert kemur fram sem bendir til að þrengja hafi átt rétt, þ.e. að koma í veg fyrir að unnt sé að fá

greiðslur frá Tryggingastofnun og mismun frá launagreiðanda.
    Í lögum nr. 57/1987, um fæðingarorlof, þ.e. þeim lögum sem kveða almennt á um þennan rétt, segir í 1. gr.:
    ,,Fæðingarorlof samkvæmt lögum þessum merkir leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar.``
    Í 2. gr. laganna segir:
    ,,Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fjögurra mánaða fæðingarorlofi ...`` Það hefur síðan lengst upp í sex mánuði. En hvað merkir ,,orlof`` í þessum lögum? Launþegar hljóta að eiga rétt á launum í orlofi. Hefðbundin skilgreining á lagahugtakinu ,,orlof`` er leyfi frá launuðum störfum, sbr. 1. gr. laga um orlof, nr. 87/1971, en þar segir að allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eigi rétt á orlofi ásamt orlofsfé eða launum. Atvinnurekendur greiða 2% af reiknuðum launum til lífeyristrygginga. Atvinnurekandi hlýtur því að eiga rétt á því að starfsmaður hans fái notið þeirra bóta sem hann þannig kaupir. Eða getur starfsmaður e.t.v. farið fram á þessar greiðslur beint til sín?
    Almennt má segja að forsendur greiðslna fæðingarstyrks og fæðingarorlofs í gegnum tíðina séu eftirfarandi:
    1. Að bæta kostnað vegna sérfræðihjálpar við fæðingu.
    2. Tillit til heilsu móður og barns.
    3. Að bæta tekjumissi vegna fæðingar.
    4. Sjónarmið varðandi jafnrétti karla og kvenna. a. Bæta félagslega og fjárhagslega stöðu kvenna. b. Tryggja atvinnuþátttöku kvenna og atvinnuréttindi þeirra. c. Tryggja feðrum aðstöðu til að annast börn sín.
    5. Sjónarmið er varða jafnrétti kvenna innbyrðis, þ.e. útivinnandi og heimavinnandi.
    Þetta frv. er einmitt flutt með þessi markmið í huga.
    Núgildandi fæðingarorlofslögum er ætlað að tryggja það að foreldrar geti verið heima við umönnun barna sinna. Ætlunin er enn fremur að bæta útivinnandi foreldrum það tekjutap er þeir verða fyrir. Nái launþegi að semja í einstaklingsbundnum samningum við atvinnurekanda um betri rétt en greiðslur frá Tryggingastofnun gera ráð fyrir má alls ekki koma í veg fyrir slíkt. Afleiðingin gæti orðið sú að foreldri treysti sér ekki í sex mánaða fæðingarorlof vegna tekjutaps.
    Hugsum okkur einstæða móður sem missir helming launa sinna við óbreytt lagaákvæði eins og þau hafa verið túlkuð um leið og hún stendur e.t.v. í meiri háttar útgjöldum við að koma sér upp húsnæði. Getur það talist sanngjarnt eða þjóðfélagslega hagkvæmt eða löglegt að skerða þannig samningsrétt hennar að hún sjái sér ekki fært að annast barn sitt heima nema í skamman tíma? Ég er ansi hrædd um að við stuðlum ekki að fjölgun Íslendinga með þessum hætti og ekki

verður hæstv. ríkisstjórn til að stuðla að því þegar litið er til efnahags- og skattastefnu hennar. Það dæmi er ég rakti hér fyrr getur því fullvel átt við hjón eða sambúðarfólk því að í mörgum tilvikum þurfa heimili á tveimur fyrirvinnum að halda.
    Það kemur fram í grg. með frv. sem hér er til umræðu að lífeyrisdeild Tryggingastofnunar hefur túlkað ákvæði 2. mgr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 59/1987 svo þröngt að frjáls samningsréttur hefur verið skertur. Það er ósköp skiljanlegt og reyndar ofur eðlilegt að þeir sem njóta óskertra launa samkvæmt kjarasamningum, t.d. opinberir starfsmenn, geti ekki fengið greiðslur jafnframt frá Tryggingastofnun eins og kveðið er á um í lögunum. En þessir foreldrar verða ekki fyrir tekjutapi. Það er út af fyrir sig gott mál. En
þarna er þegar komin fram mikil mismunun gagnvart foreldrum eftir því hvar þeir starfa. Hvers vegna ætti launafólk á hinum almenna vinnumarkaði að þurfa að þola slíka skerðingu? Er það yfirleitt mál almannatrygginga að skipta sér af og neita greiðslum ef vinnuveitendur gera vel við sína launþega samkvæmt samningum eða umfram skyldu?
    Eins og fram kemur í grg. er engin bókun tryggingaráðs til um þetta efni og ekkert skriflegt var til að styðjast við frá heilbr.- og trmrn., aðeins að tryggingaráð hefur vitað um framkvæmdina og látið hana óátalda.
    Í þessu sambandi má geta dóms bæjarþings Reykjavíkur 17. okt. 1984 þar sem kona nokkur stefndi fjármálaráðherra. Konan, sem átti von á barni, þurfti að hætta vinnu sem hjúkrunarkona nokkurn tíma fyrir áætlaða fæðingu, eða tæpum tveim mánuðum fyrr, sökum lasleika. Ríkið greiddi henni ekki veikindalaun allan þann tíma heldur skerti fæðingarorlof hennar sem nam hálfum mánuði fyrir fæðingu. Fjmrn. hafði sett sér þetta sem verklagsreglu og hafði hún verið við lýði um langan tíma. Dómarinn var ekki sammála þessari reglu og taldi enga heimild til að skerða þennan rétt konu til launa hvorki síðasta hálfa mánuðinn fyrir barnsburð né á öðru tímabili. Af dómi þessum má draga þá ályktun efnislega, enda þótt forsendur séu e.t.v. nokkuð aðrar, að ákveðin lagatúlkun lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar um árabil, e.t.v. nokkurs konar verklagsregla, hafi ekki þurft að binda hendur tryggingaráðs er það tók í fyrsta sinn, eða þann 26. jan. sl., með formlegum hætti á umsókn konu um fæðingarorlof sem hlotið hafði viðbótargreiðslu frá atvinnurekanda sínum eins og getið er um í greinargerð. Umsækjandi segir m.a. í lok greinargerðar sinnar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þótt svo að deildarlögfræðingur Tryggingastofnunar bendi á að ef túlkun laganna verði breytt sé um mjög mikilvæga breytingu að ræða þykir mér rétt að geta þess að Tryggingastofnun hefur engar upplýsingar um það hversu mörgum hefur verið synjað um greiðslu fæðingarorlofs á þeim grundvelli að atvinnurekandi bjóðist til að greiða upp launatap. Tryggingastofnun hefur ekki haldið saman slíkum

upplýsingum. Svo sem ég gat um í umsókn minni er ekki einu sinni spurt um greiðslur frá atvinnurekanda í fæðingarorlofi á umsóknareyðublaði um fæðingarorlof og bendir það til þess að áhyggjuefni stofnunarinnar sé ekki stórt vegna þessa atriðis. Ekki er mér ljóst hver skaði Tryggingastofnunar kann að verða við það að heimila konum að semja um viðbótargreiðslu við fæðingarorlof frá sínum vinnuveitendum. Hefði ég talið að útgjaldaaukinn væri allur atvinnurekandans. Í reynd veldur núverandi ástand því að þeir atvinnurekendur sem sjá eftir að hafa fallist á viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi í ráðningarsamningi eða vinnustaðasamningum geta vísað til þess að þeim sé óheimilt að greiða viðbótina. Tryggingastofnun banni slíkt.``
    Þessi síðarnefndu rök eru mjög veigamikil eins og ég hef áður rætt um. Lögfræðingur tryggingaráðs taldi hæpið að neita greiðslum þegar laun falla niður að hluta og vinnuveitandi greiðir mismun enda enginn stafur um það sem segir beinlínis hvað séu óskert laun. Meiri hluti tryggingaráðs synjaði þó erindinu á þeim grundvelli að ný túlkun laganna yrði ekki síður vafamál en núgildandi túlkun. Þó var að nokkru gefið í skyn í bókun að óeðlilegt sé að tryggingaráð sé að hafa afskipti af því hvað um er samið á almennum vinnumarkaði. Taldi meiri hlutinn þó að þessi breyting á lagatúlkun yrði til að kalla á viðbrögð aðila vinnumarkaðarins hvernig svo sem þessi tvö atriði koma heim og saman. Enn fremur var vísað til þess að nefnd væri starfandi sem ynni að almennri endurskoðun fæðingarorlofslaganna.
    Í þessu sambandi er rétt að leggja á það áherslu að frv. það sem hér er til umræðu mælir einungis fyrir heimildarákvæðum í samræmi við samningsfrelsi á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki um neina skyldu að ræða og ætti ekki að fela í sér útgjaldaauka fyrir Tryggingastofnun. Einnig er rétt að minna á það að afgreiða verður umsóknir um fæðingarorlof samkvæmt núgildandi lögum en ekki eftir einhverjum reglum sem kannski taka gildi einhvern tíma í framtíðinni, enda gefur reynsla manna hingað til af endurskoðun almannatryggingalaga ekki tilefni til bjartsýni hvað árangur snertir eða skjót vinnubrögð. Enn fremur að afskipti stjórnvalda eða stofnunar, sem rekin er af almannafé, af kjarabaráttu eru með öllu óviðeigandi.
    Að lokum er rétt að geta þess að lagabreyting sú sem frv. leggur til getur ekki skarast á neinn hátt við það nefndarstarf sem nú er hafið. Öllu fremur ætti frv. að greiða götu þessa starfs ef samþykkt verður þar sem löggjafinn hefur þá ótvírætt látið vilja sinn í ljós.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið máli mínu. Hér er um mjög mikið réttlætismál að ræða sem snertir einkum stöðu kvenna og barna. En það má einnig líta á þetta sem rétt atvinnurekandans sem vill gera vel við starfsmann sinn og til þess að halda honum áfram í starfi en missa hann ekki í þjónustu ríkisins eða í annað starf þar sem kjarasamningar tryggja launþeganum óskert laun í fæðingarorlofi. Foreldrum

er auk þess mismunað því fremur þar sem Tryggingastofnun greiðir bankamönnum athugasemdalaust fæðingarorlof þrátt fyrir viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda. Hér er því einnig verið að mismuna
atvinnurekendum. Í raun og veru má leiða líkur að því að konur vilji fremur starfa í þjónustu hins opinbera, a.m.k. framan af starfsævi, vegna þessara réttinda. Meðflutningsmenn mínir eru sammála um að réttur til fæðingarorlofs feli í sér slík grundvallarmannréttindi að ekki verði unað við neina réttaróvissu í þeim efnum. Til þess að taka af allan vafa um réttmæti umræddrar lagatúlkunar er lagabreyting samkvæmt frv. þessu lögð hér til. Lagaákvæði munu þannig taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.