Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hv. 1. flm., Sólveig Pétursdóttir, hefur nú mælt fyrir er að mínu mati mjög þarft og hef ég raunar þegar lýst því yfir með því að vera meðflm. að því.
    Þetta mál er til komið vegna túlkunar á núgildandi lögum um almannatryggingar, þ.e. þeim hluta þeirra laga er varðar greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Lagabreyting sú sem hér er lögð til er bæði brýn og tímabær. Miðað við núgildandi lög og túlkun þeirra er foreldrum mismunað í greiðslum í fæðingarorlofi eftir því hvar þeir starfa. Þannig fá ríkisstarfsmenn fullar launagreiðslur svo og bankakonur en öðrum er ætlað að láta sér nægja lögboðna greiðslu frá Tryggingastofnun sem oft er lægri en full laun á vinnumarkaði og nemur nú um 50 þús. kr. svo sem fram hefur komið.
    Þótt nokkuð sé á reiki hvernig menn vilja túlka almannatryggingalögin hvað varðar viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi hefur verið mótuð skýr vinnuregla eins og fram kemur í grg. með þessu frv. Tryggingastofnun telur sig aðeins þurfa að inna greiðslur af hendi ef kona fær ekki greiðslur annars staðar. Ég segi kona, því eins og fram kom í máli hv. 1. flm. er hér yfirleitt um konur að ræða. Á þessa túlkun hefur nú þegar reynt og í grein í Pressunni þann 25. jan. sl. rekur ung kona gang eins slíks máls á þennan hátt, með leyfi forseta:
    ,,Ástæða þess að ég hef ekki fengið greiðslu frá Tryggingastofnun er sú að ég gat þess í umsókn minni að vinnuveitandi greiddi viðbótina.`` --- Hér á hún að sjálfsögðu við viðbót upp í full laun. --- ,,Samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins veldur það réttindamissi til fæðingarorlofs ef vinnuveitandi heldur uppi minnstu greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi. Ekkert er fjallað um þetta í lögunum sjálfum. Þar stendur aðeins að skilyrði fyrir greiðslum sé að viðkomandi leggi niður launuð störf í fæðingarorlofi. samkvæmt túlkun stofnunarinnar er fæðingarorlof eins konar tekjutrygging, einungis greidd þeim sem ekkert fá annars staðar. Virðist þá ekki skipta máli hversu háar greiðslur koma frá vinnuveitanda. Konur verða þess vegna að afsala sér öllum viðbótargreiðslum frá atvinnurekanda í fæðingarorlofi.``
    Svona er ástandið í reynd. Í grg. Tryggingastofnunar til tryggingaráðs varðandi fyrirspurn samninganefndar bankanna og Sambands íslenskra bankamanna vegna fæðingarorlofsgreiðslna, dags. í maí 1988, kemur fram eftirfarandi túlkun á nefndu ákvæði laganna um almannatryggingar, með leyfi forseta:
    ,,Lög, reglugerðir, lögskýringargögn og framkvæmd benda til þess að ekki sé ætlunin að konur hafi óskert laun samkvæmt kjarasamningum eða reglugerðum þegar þær fá greiðslur frá Tryggingastofnun í fæðingarorlofi. Mælt er með því að draga skýr mörk milli greiðslna Tryggingastofnunar og launa samkvæmt kjarasamningum og reglugerðum.``

    Það kemur enn fremur fram í þessari grg. að ætlunin sé að tryggja að konur hafi jafnan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi. Því miður er þessi jafni réttur nánast eingöngu á einn veg, réttur til þess að hafa lakari kjör en ella kunna að bjóðast, þegar vinnuveitandi er fús til að greiða mismun greiðslna frá Tryggingastofnun og raunverulegra launa. Slík réttargæsla er sérkennileg og, eins og sjá má af orðalagi, á veikum grunni byggð. En svo sem fram kom í máli hv. 1. flm. hafa bæði lögfræðingur tryggingaráðs og hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. Ragnhildur Helgadóttir túlkað lögin á annan hátt.
    Óréttlætið er hins vegar í raun viðurkennt með því að konur í opinberri þjónustu eiga rétt á fullum launum þegar þær eiga sín börn. Minna má á bókun með kjarasamningi verslunarmanna frá 4. maí 1988 þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Samningsaðilar vilja vekja athygli á þeim mismun sem konur búa við varðandi greiðslur í fæðingarorlofi. Hið opinbera mismunar launþegum með því að greiða konum í opinberri þjónustu óskertar tekjur í þrjá mánuði og eftir það full dagvinnulaun í fæðingarorlofi en launþegar á almennum vinnumarkaði fá jafnaðarbætur óháðar tekjum. Beina samningsaðilar þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að skipuð verði nefnd sem hafi það markmið að skoða og útfæra þá stefnumörkun er fram kemur í álitsgerð nefndar þeirrar sem samdi frv. til laga um fæðingarorlof þannig að konur, hvar sem þær eru í starfi, njóti jafnréttis í þessu máli.``
    Svo sem sjá má af málalyktum vegna máls þess er getið var hér að framan og skrifað um í blaði einu, hafa ekki orðið á breytingar til jöfnunar milli starfsstétta hér.
    Sú lagabreyting sem Sólveig Pétursdóttir mælti fyrir hér áðan er brýn til að ná fram réttlæti og taka af öll tvímæli í túlkun. Með frv. þessu er tekin sú sjálfsagða afstaða að tryggja foreldrum í barneignarleyfi besta hugsanlegan kost miðað við þær aðstæður sem við nú höfum. Það ætti að vera hafið yfir alla gagnrýni í samfélagi sem vill í orði a.m.k. búa sem best að fjölskyldum þessa lands.
    Það hefur komið fram að ekki eru allir á eitt sáttir um réttmæti lagatúlkunarinnar sem hratt þessu máli af stað. Þessa óvissu má að vissu leyti
rekja til þeirrar leiðar sem farin var er lög um fæðingarorlof með tilheyrandi breytingum á lögum um almannatryggingar voru samþykkt á Alþingi veturinn 1986--1987. Vissulega voru þau lög mikil bót frá fyrri tilhögun þar sem fæðingarorlof tvöfaldaðist, fór úr þremur mánuðum í sex mánuði. Því studdi Kvennalistinn lengingu orlofsins af heilum hug og sat hjá við afgreiðslu þess þáttar er tók til greiðslutilhögunar til að hindra á engan hátt framgang málsins. Og það raunar þótt undanfarandi þrjá vetur hefði Kvennalistinn lagt fram frv. um breytingar á lögum um fæðingarorlof og almannatryggingar þar sem lagt var til að farin yrði önnur leið að sama marki, leið sem kvennalistakonur töldu betra að fara og nú hefur komið í ljós að hefði verið betra að fara.

    Í frv. Kvennalistans var ótvírætt gert ráð fyrir að foreldrar fengju full laun í fæðingarorlofi með yfirvinnugreiðslum, miðað við meðaltal undangengins árs. Og samkvæmt frv. Kvennalistans átti lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins að greiða þessi fullu laun í sex mánuði. Hefði frv. Kvennalistans verið samþykkt hefði vitanlega aldrei komið til þess misræmis sem nú er verið að taka á og verður vonandi leiðrétt. Og foreldrum hefðu verið tryggð sannanleg laun sín með lagasetningu. Þá hefði ekki þurft að róa þann þunga róður að fá fyrst rétt til að semja um óskert laun við vinnuveitendur, þá vinnuveitendur sem vilja greiða það sem á vantar eftir að Tryggingastofnun hefur borgað sitt.
    Vonandi verður frv. þetta samþykkt svo þessi réttur náist. En þá er auðvitað enn eftir að semja við alla vinnuveitendurna, bæði þá sem þegar hafa sýnt vilja til að borga þennan mismun og hina sem engan áhuga hafa sýnt enn.
    Virðulegi forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu. Oft þarf að vinna að málum skref fyrir skref og það skref sem hér er lagt til að tekið verði er mjög brýnt að taka hið allra fyrsta. Vonandi fylgja fleiri skref á eftir. Það er ekki hægt að sætta sig við minna en að fæðing barns skerði ekki afkomumöguleika fjölskyldna og best væri auðvitað að stíga það skref sem Kvennalistinn lagði til fyrir nokkrum árum í þeim frv. sem lögð voru fram veturna 1983--1986.
    Vonandi verða mannleg gildi meira metin í íslensku samfélagi en nú er þegar fram líða stundir. Það er löggjafans sem annarra að gera það sem í hans valdi stendur til að svo geti orðið.