Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. sem hér hafa talað fyrir stuðningi við þetta frv. og ég þakka einnig hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir ræðu hans og að vera hér viðstaddur. Mig langar þó til að koma hér að nokkrum athugasemdum.
    Ég ítreka að lagabreytingar, sem lagðar eru til með þessu frv., munu á engan hátt skarast á við það nefndarstarf sem hæstv. ráðherra ræddi hér um áðan. Þvert á móti ættu þessar lagabreytingar að auðvelda störf nefndarmanna þar sem þeir þurfa þá ekki að velkjast í vafa um vilja löggjafans. Hann verður skýr.
    Hæstv. ráðherra sagði einnig hér áðan að markmið fæðingarorlofslaganna væri m.a. að jafna rétt kvenna. Ég geri ekki lítið úr því markmiði en þetta er ekki alls kostar rétt. Tryggingastofnun stuðlar einmitt að mismunun með afgreiðslu sinni. Það atriði að sumar konur geti náð fram betri rétti en aðrar liggur í hlutarins eðli vegna lögmála vinnumarkaðarins. En þó er það ekki síður markmið þessa frv. að gera konur, foreldra og atvinnurekendur betur meðvitaða um rétt sinn. Það gæti þannig ýtt undir gerð slíkra frjálsra samninga.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að markmið fæðingarorlofslaganna er að bæta tekjutap. Því er nú einu sinni þannig varið að launþegar eru ekki allir jafnt settir tekjulega. En menn hljóta að þurfa að gera áætlanir um útgjöld í samræmi við tekjur. Ef tekjur lækka skyndilega getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Hvers vegna á alltaf að setja konur á sama pallinn vegna þess að þær geta fætt af sér börn?
    Það var einnig nefnt hér áðan að þessi ákvæði hefðu þurft að koma skýrt í ljós við setningu núgildandi fæðingarorlofslaga. Ég tel að ástæða þess sé vafalaust sú að nefndarmenn og þeir sem fluttu frv. á sínum tíma hafi ekki verið í neinum vafa um að sá réttur yrði virtur og þess vegna þyrfti ekki að taka það fram. En með þessu frv. er lagt til að tekin séu af öll tvímæli í þessum efnum.
    Maður hlýtur að velta því fyrir sér hver sé staða hv. þm. eða löggjafans ef menn þurfa að sæta því að nefndir framkvæmdarvaldsins láti fyrst sitt álit í ljós áður en afstaða er tekin til lagafrv. Eiga hv. þm. að þurfa að bíða langan tíma, e.t.v. í mörg ár, eftir því að ná fram réttarbótum í þessu landi? Hæstv. heilbr.- og trmrh. þótti þó rétt að frv. þetta fengi eðlilega afgreiðslu í þinginu og fagna ég því. Ég vek einnig athygli á því að einn meðflm. er Jón Sæmundur Sigurjónsson, en hann er einmitt formaður hv. heilbr.- og trn. í þessari deild. Reyndar sitja fleiri meðflm. þessa frv. í þeirri nefnd. Ég leyfi mér því að vona að afgreiðsla þessa máls gangi fljótt og eðlilega fyrir sig.
    Að lokum, hæstv. forseti, ítreka ég þakkir mínar fyrir stuðning hv. þm. og legg á það áherslu að réttur til fæðingarorlofs er slík grundvallarmannréttindi að ekki verður unað við neina réttaróvissu í þeim efnum. Til þess að taka af allan vafa um réttmæti umræddrar lagatúlkunar er því lagabreyting samkvæmt frv. þessu lögð hér til.