Málrækt 1989
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. 30. nóv. sl. lauk málræktarátaki því sem ákveðið var að efna til á árinu 1989. Má segja að það hafi með formlegum hætti hafist með sérstöku ávarpi forseta Íslands sem birtist í fjölmiðlum á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1989. Þegar þessi skýrsla lá fyrir skrifaði ég hæstv. forseta Sþ. bréf og óskaði eftir því að hún yrði sett hér á dagskrá þingsins þannig að það gæfist kostur á að fara lauslega yfir hana hér í umræðum í hv. Sþ. Vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa fallist á þá beiðni mína.
    Tilgangurinn með þeirri umræðu sem hér hefst nú er af minni hálfu fyrst og fremst sá að gera grein fyrir málræktarátakinu og að koma þessu undirstöðuatriði íslensks sjálfstæðis og þjóðfrelsis á dagskrá á Alþingi. Ég hygg að þess séu ekki mörg dæmi að Alþingi hafi gefist kostur á að ræða sérstaklega um þróun og framtíðarhorfur þjóðtungunnar með þeim hætti sem hér er skapaður möguleiki á. Og ég held það sé afar mikilvægt og það er afar ánægjulegt að þingið skuli gefa sér tíma til að fara yfir þetta mál frá öllum þeim mikilvægu verkum öðrum sem hv. Alþingi hefur að sinna.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, fara lauslega yfir málræktarátakið og þá skýrslu um málrækt sem dreift hefur verið til hv. alþm. Síðan mun ég fara yfir helstu tillögur sem gerðar eru í skýrslunni en í henni koma fram tillögur um einstök atriði og einstök verkefni í þágu málræktar, samtals tæplega 60 tillögur af ýmsum toga. Ég mun að lokum fara nokkrum orðum um almennan lærdóm af þessu málræktarátaki og reyna að gera grein fyrir því hvernig ég gæti séð fyrir mér ákveðið framhald á átaki sem ætti kannski svipaðar rætur en væri ekki endilega nákvæmlega það sama og það verk sem málræktarátakið beindist að.
    Í áramótaávarpi sínu 1. jan. 1989 hvatti forseti Íslands landsmenn til að hlúa að máli sínu og sýna því ræktarsemi. Má segja að það hafi verið kveikjan að hugmynd okkar í ráðuneytinu um að efna til átaks í málrækt. Í framhaldi af því lagði ég málið fyrir þó nokkurn hóp áhugamanna í janúarmánuði 1989 og lagði síðan fram tillögu í ríkisstjórninni í febrúar 1989 um málræktarátak. Á grundvelli hennar var gefin út fréttatilkynning frá ráðuneytinu 28. mars 1989 þar sem farið var yfir meginatriðin sem við töldum að ættu að liggja til grundvallar málræktarátakinu. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins var komist svo að orði:
    ,,Margir hafa nú vaxandi áhyggjur af íslenskri tungu. Ber þar margt til.
    1. Þjóðfélagshættir sem tungan er svo mjög bundin hafa breyst og ungt fólk í nútímaborgarsamfélagi virðist eiga í erfiðleikum með að tileinka sér hefðbundinn íslenskan orðaforða, orðtök, málshætti, talshætti o.fl.
    2. Æ fleiri sækja menntun til annarra þjóðfélaga og tileinka sér starfsreynslu á erlendum málum og orðaforða þar að lútandi.
    3. Fjölmiðlun eykst að umfangi og hún verður sífellt alþjóðlegri og erlendar stöðvar skjóta rótum.

    4. Mjög einhæfur og sterkur straumur berst frá enskri tungu og menningu.
    5. Móðurmálskennsla virðist ekki skila jafngóðum árangri og vænta mátti.
    6. Starfshættir og viðhorf þeirra sem mest hafa beitt sér í málræktarstarfi virðast ekki eiga greiða leið að ungu fólki.
    Með þessi atriði í huga og það að íslensk tunga er einn helsti grundvöllur menningarstarfsemi í landinu hyggst menntmrn. standa fyrir sérstöku málræktarátaki á þessu ári. Átakið beinist að þremur höfuðþáttum:
    1. Að efla þá málræktarstarfsemi sem fyrir er.
    2. Að efna til herferðar í skólum og fjölmiðlum á síðari hluta þessa árs til að auka veg móðurmálsins.
    3. Að standa fyrir lagabreytingum og verkefnum í málrækt.
    Hinn 2. apríl sl. var Guðmundur B. Kristmundsson, lektor við Kennaraháskóla Íslands, ráðinn til að gegna starfi verkefnisstjóra átaksins. Verkefnisstjórn var skipuð og í henni áttu sæti eftirtaldir einstaklingar: Guðrún Halldórsdóttir, skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur, Heimir Pálsson deildarstjóri, Hrönn Hilmarsdóttir, nemi í íslensku og fulltrúi Æskulýðssambands Íslands í verkefnisstjórn, Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri, Kristján Árnason dósent, Margrét Vallý Jóhannsdóttir fóstra, Matthías Johannessen ritstjóri, Ólína Þorvarðardóttir fréttamaður, Ólöf Þorvaldsdóttir auglýsingahönnuður, Sigurður Konráðsson dósent, Steingrímur Þórðarson framhaldsskólakennari, Þórdís Mósesdóttir grunnskólakennari og Þórunn Blöndal framhaldsskólakennari.
    Ég vil nota þetta tækifæri hér, virðulegi forseti, til að flytja þessu fólki öllu úr þessum stól sérstakar þakkir fyrir mikil og vel unnin störf að málræktarátakinu á sl. ári.
    Það má segja að í raun og veru sé dregin upp nokkuð dökk mynd af íslensku máli og stöðu þess og þróun í fréttatilkynningu menntmrn. frá 28. mars sl. Verður að játa það að sem betur fer komumst við að allt annarri niðurstöðu en þar birtist. Niðurstaða okkar er sú að eftir að hafa farið yfir þessi mál í skólum, menningarstofnunum, fjölmiðlum og víðar sé engin ástæða til að mála
myndina jafndökkum litum og gert er í fréttatilkynningu ráðuneytisins varðandi þróun og þróunarhorfur íslensks máls. Ég mun nú rekja það nokkuð nánar og rökstyðja en verkefnin sem verkefnisstjórnin tók að sér voru aðallega þríþætt:
    1. Alls konar hvatningar og tilmæli í fjölmiðlum og víðar.
    2. Margs konar fræðsla.
    3. Áhersla á rannsóknir og fræðistörf.
    Þegar við fjölluðum um upphaf þessa átaks veltum við því mikið fyrir okkur hvort við ættum að nota orðið ,,málrækt`` eða ,,málvernd`` eða ,,málvöndun.`` Niðurstaða okkar varð sú að nota orðið ,,málrækt`` sem er víðtækast af þeim hugtökum sem oft eru notuð í þessu sambandi og um leið óljósast að mörgu leyti. Það er hins vegar mjög jákvætt hugtak og við vildum

leggja á það áherslu að þessi umræða færi af stað og færi fram undir jákvæðum formerkjum. Hljómur orðsins málrækt er jákvæður. Það bendir til vaxtar og þroska. Aðstandendur átaksins gerðu sér grein fyrir þessu grundvallaratriði og kostuðu kapps um að stefna umræðu um íslenskt mál og málrækt inn á jákvæðar brautir og leituðust við að vekja áhuga þjóðarinnar á máli sínu og hlutverki þess. Það eru þrjú grundvallaratriði varðandi málrækt og málþróun sem verkefnisstjórnin hafði í huga.
    1. Málið er menningararfur sem hverjum Íslendingi ber að afhenda í sem bestu ástandi þeirri kynslóð sem tekur við. Það á að vera hverjum manni metnaðarmál að sá arfur hafi vel ávaxtast í umsjá hans og sé ekki rýrari en þegar hann tók við honum. Hann á einnig að gera sér grein fyrir því að þessi menningararfur íslensks máls, að við erum alin upp í íslenskri menningu og íslenskri hugsun, á stærstan þátt í því að við teljum okkur Íslendinga. Þess vegna er málið kjarni íslenskrar þjóðartilveru, sem ég leyfi mér að orða svo á kannski ofurlítið hátíðlegu máli.
    2. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að málið er miðill og tæki til samskipta. Með því geta menn fræðst af öðrum, frætt aðra, skipst á skoðunum, deilt og tjáð tilfinningar sínar.
    3. Lögð er á það áhersla af verkefnisstjórninni að líta þannig á að málið hjálpi einstaklingnum til að koma skipan á hugsun sína, gera honum grein fyrir því sem hann kann og hvað hann kann ekki og hvers hann þarfnast. Því betur sem einstaklingurinn ræktar mál sitt og verður færari um að beita því, þeim mun skýrari verður hann í allri hugsun og framsetningu hugsunarinnar. Þessi þrjú grundvallaratriði, varðandi menningararfinn í fyrsta lagi, málið sem miðil í öðru lagi og að málið er mikilvægt tæki til að koma skipan á hugsun mannanna, hafði verkefnisstjórnin í huga.
    Í málræktarskýrslunni sem birt hefur verið hv. Alþingi og telur samtals um 60 síður var farið yfir einstök verkefni á árinu 1989. Þar eru fyrst í 2. kafla rakin helstu viðfangsefni. Þar er minnt á hvatningarorð þau sem birtust reglulega í fjölmiðlum. Þar er minnt á ávarp forseta Íslands, bæði um áramót og á þjóðhátíðardag. Þar er minnt á tilmæli til bæjar- og sveitarstjórna sem voru send út, tilmæli til starfsfólks skóla og dagvista. Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til að nefna það sérstaklega hve vel var unnið í þessu málræktarátaki einmitt á dagvistarstofnunum, leikskólum í þessu landi sem ég vona að einhverjir hv. þm. hafi séð þegar þeir hafa heimsótt dagvistarstofnanir á undanförnum mánuðum. Við sendum frá okkur tilmæli til fræðslustjóra og fundir voru haldnir með öllum fræðslustjórum og í öllum fræðsluumdæmum. Við studdum það að ákveðin fyrirtæki komu fyrir hvatningarorðum um íslenskt mál á umbúðum og það er ánægjulegt að geta vitnað um það hér að fjöldi fyrirtækja hafði frumkvæði að því að hafa samband við verkefnisstjórnina og lýsti áhuga sínum á að tengjast málræktarátakinu. Efnt var til sérstakrar barnabókaviku Félags ísl. bókaútgefenda og Ríkisútvarpsins sem tókst einkar vel. Þar með má

segja að ég hafi tæpt á meginatriðunum varðandi hvatningar og tilmæli.
    Í öðru lagi er fræðsluþátturinn:
    1. Margvíslegar blaðagreinar, m.a. um stofnanir sem sinna íslensku máli.
    2. Útgáfa réttritunarorðabókar sem dreift var gefins til allra 11 ára barna í grunnskólum landsins.
    3. Skipulagðir voru hlustendaþættir í Ríkisútvarpinu.
    4. Efnt var til sérstaks samstarfs við þá merku samtímakonu Bibbu á Brávallagötunni, sem ollu nú nokkrum deilum sem betur fer þannig að menn töluðu um málið dálítinn tíma.
    5. Efnt var til sérstaks móðurmálsátaks meðal kennara. Þar var um að ræða opna viku í Kennaraháskóla Íslands og aðsóknin var geysileg. Hún var margföld á við það sem gert hafði verið ráð fyrir.
    Ég hef nefnt hér barnabókavikuna og síðan vil ég nefna hér sérstaklega móðurmálsviku í skólum og dagvistum sem fór fram á tímabilinu 23.--27. október. Undirtektir þar voru framúrskarandi sem m.a. birtust í kröfugöngum af ýmsu tagi sem efnt var til víðs vegar um landið. Málræktarvikan skildi líka eftir sig margvísleg verkefni sem ég vænti að hv. alþm. hafi átt kost á því að sjá þegar þeir hafa heimsótt skóla að undanförnu, sem ég vona að þeir geri
reglulega.
    Það var einkar athyglisvert að þessum áherslum í skólunum var mjög vel tekið. Það kom t.d. fram í ótrúlegum fjölda góðra texta sem verkefnisstjórninni bárust frá börnum, ótrúlegum fjölda fallegra ritgerða, vel saminna og vel skrifaðra ritgerða og geysilegum fjölda ljóða frá börnum á grunnskólaaldri, alveg frá 6 ára aldri og upp í 15 ára aldur. Ég hygg satt að segja að það yrði fleiri þingmönnum en mér uppgötvun að kynnast þessum fjársjóði. Ég bendi á að þingmenn geta fengið aðgang að þessum textum í menntmrn. þar sem þessum gögnum hefur verið haldið saman. Og ég hygg að sá sem hefur farið í gegnum allan þennan sjóð verði a.m.k. ívið bjartsýnni á framtíðarhorfur málsins, íslenskrar tungu, en stundum virðist vera þegar fólk er að tala um málið og málrækt hér á landi.
    Ég vil nefna í þessu sambandi bækling um málþroska og máluppeldi barna sem gefinn hefur verið út og vík síðan að rannsóknum og fræðistörfum, nefni þar örfáa þætti sem dæmi.
    1. Útgáfa tíðniorðabókar á vegum Orðabókar Háskóla Íslands.
    2. Unnið hefur verið sérstakt þyngdargreint námsefni handa nemendum í framhaldsskólum, en eins og menn komast að með því að lesa skýrsluna er ljóst að mikill skortur er á námsefni í íslensku fyrir framhaldsskólana. Einmitt þess vegna er hér um mjög lofsvert framtak að ræða sem er unnið af fjórum ungum konum sem hafa sérstaklega helgað sig þessum verkefnum.
    3. Handbók um talmál og máluppeldi.
    4. Rannsókn á töluðu máli og mállýskum sem fór fram fyrir allmörgum árum en úrvinnsla hefur tafist í

mörg ár vegna fjárskorts. Hér er um mjög mikilvægt verkefni að ræða, ekki síst til þess að bera saman við þá rannsókn á töluðu máli og athugunum sem Björn Guðfinnsson vann á sínum tíma og hefur verið undirstöðuþáttur að því er varðar mállýskurannsóknir hér á landi á undanförnum áratugum. Það er löngu orðið brýnt að bera saman hvernig nútímasamfélagið hefur leikið málið. Hvort málinu hefur hrakað eins og yfirleitt er haldið fram, en ég held að sé misskilningur.
    Í þessum kafla um málrækt, helstu viðfangsefni, er rakið samstarf sem verkefnisstjórnin hafði við marga aðila. Það eru Kennaraháskóli Íslands, Námsgagnastofnun, Íslensk málstöð og Æskulýðssamband Íslands. Ég vil sérstaklega geta þess að Æskulýðssamband Íslands átti hugmyndina að kjörorðinu sem oft var notað á málræktarárinu, þ.e. ,,Íslenskan, það er málið``. Og Æskulýðssamband Íslands veitti okkur mjög mikinn stuðning í sambandi við málræktarátakið í heild. Ég vil einnig nefna samstarfið við Fræðsluvarpið. Ég vil nefna sérstaklega samstarf við Félag íslenskra bókaútgefenda, sem var mjög gott. Sömuleiðis samstarf við Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp og einnig við einkastöðvar, t.d. Stöð 2. Og mörg fleiri dæmi mætti nefna um þessa þætti sem hér hafa verið raktir.
    Í 3. kafla þessarar skýrslu er farið yfir málrækt og skólastarf. Þar er gerð grein fyrir ýmsum tillögum af margvíslegu tagi, sem ýmist eru í framkvæmd eða í undirbúningi í menntmrn. Strax og skýrslan var komin saman lét ég taka saman yfirlit yfir allar þær tillögur sem í skýrslunni eru, sem eru tæplega 60 talsins, og hef óskað eftir því við starfsmenn ráðuneytisins að þessum tillögum verði raðað inn á verkefnaáætlun ráðuneytisins á næstu árum.
    Ég hyggst ekki, virðulegur forseti, fara yfir einstakar tillögur varðandi skólastarfið. Ef ég gerði það yrði mál mitt allt of langt. En ég bendi hér á ítarlegar tillögur á bls. 22 í skýrslunni þar sem er rækilega farið yfir grunnskólann og dagvistarmálin sérstaklega. Ég nefni einnig ítarlegar tillögur á bls. 32 þar sem fjallað er sérstaklega um framhaldsskólann í landinu. Í næsta þætti þessa kafla er síðan fjallað um Kennaraháskólann og stöðu móðurmálskennslunnar í Kennaraháskóla Íslands. Þá er fjallað um Háskóla Íslands og skipan íslenskunáms þar. Ég vil í því sambandi víkja að tillögu sem þar kemur fram varðandi nýskipan íslenskunáms á bls. 37 í skýrslunni og kennslu í fjölmiðlun á bls. 38--39.
    Varðandi nýskipan íslenskunáms vil ég sérstaklega nefna að í undirbúningi er að hér verði skapaðir möguleikar til þess í Háskólanum að taka upp nám til doktorsprófs í íslenskri málfræði og íslenskum bókmenntum. Þetta er í undirbúningi og er komið á talsverðan rekspöl innan Háskólans og ég geri mér vonir um að áður en langur tími líður verði hægt að hefja nám til doktorsprófs í íslenskri málfræði og íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.
    Í annan stað vil ég vekja athygli á því að verkefnisstjórnin, sem er skipuð eins og fram kemur

í skýrslunni, leggur mikla áherslu á það að komið verði af stað kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Og skv. upplýsingum sem ég fékk frá háskólarektor núna áðan hefur verið ákveðið að kennsla í fjölmiðlun hefjist í Háskóla Íslands núna í haust og hefur rektor falið félagsvísindadeild Háskólans undirbúning þess. Það tel ég að sé mjög mikilvægt því að góð menntun fjölmiðlamanna er einmitt ein undirstaða þess að málið nái að þróast með jákvæðum hætti.
    Síðan er í skýrslunni fjallað um fullorðinsfræðslu og birtar tillögur um
aðgerðir í þeim efnum á síðum 41 og 42. Þá er vikið sérstaklega að fjölmiðlum og málfari í næsta kafla þessarar skýrslu þar sem farið er yfir stöðu málsins og þróun í fjölmiðlunum, bæði blöðum og ljósvakamiðlum. Sömuleiðis er vikið að auglýsingum sérstaklega og kynningarefni, en þar hefur verið við ramman reip að draga þar sem hefur viljað brenna við að þeir sem eru að selja vöru eða þeir sem eru að gefa fyrirtækjum nafn vilja gjarnan grípa til erlendra orða til að koma vöru sinni á framfæri. Um það mál er fjallað sérstaklega í þessari skýrslu.
    Í 5. kafla er fjallað um málræktarstofnanirnar, þ.e. Orðabók Háskóla Íslands, Íslenska málstöð og sömuleiðis er þarna sérstaklega vikið að Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar sem málrækarátakið var aðili að með ákveðnum hætti á síðasta ári. Ég tel satt að segja að hún sé eitt mesta afrek í íslenskri bókaútgáfu að því er varðar grunnrannsóknir íslensks máls sem hér hefur sést mjög lengi.
    Loks er hér í 6. kafla skýrslunnar gerð tilraun til þess að meta málræktarátakið. Hvað tókst? Og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að fara lauslega yfir þessa tilraun til mats.
    Framarlega í þessum kafla segir m.a. að þær heimildir sem liggja fyrir um málræktarátakið fái menn til að efast svolítið um þann dökka lista sem birtur er í fréttatilkynningu ráðuneytisins og vitnað er til fremst í skýrslunni og ég rakti áðan. Þjóðin virðist hafa mikinn og einlægan áhuga á máli sínu. Ef mæla má styrk í liðsafla er málið á grænni grein. Þó er ljóst að ýmislegt virðist órætt og ógert í íslenskri málrækt og margt leitar á hugann í lok málræktarátaks.
    Þegar rætt er um nauðsyn málræktar eru rökin oftast neikvæð. Íslensk tunga er talin á heljarþröm, flest er illa sagt á vondu máli. Mál fjölmiðla er vont, segja menn. Mál barna og unglinga er vont. Öllu fer aftur í málfarsefnum. Afar sjaldan er talað um fallegt mál og hvað það sé gaman að komast skemmtilega að orði. Afleiðing þessa er sú að fjöldi fólks telur gott mál einungis koma úr munni fáeinna fræðimanna sem leggja stund á íslenskt mál. Margir virðast ekki treysta sér til að skrifa bréf til stofnana og einstaklinga til að vekja athygli á einhverju málefni eða leita réttar síns. Þessu verður að snúa til jákvæðari áttar og það reyndu aðstandendur Málræktar 1989. Telja verður nauðsynlegt að samtök atvinnulífsins standi fyrir fræðslu um íslenskt mál í ræðu og riti fyrir félaga sína og leggja verður áherslu á fullorðinsfræðslu. Slíkar aðgerðir eru til að treysta lýðræði þessarar

þjóðar.
    Þegar rætt er um það sem að er í máli nefna menn líklega oftast erlendar sléttur og stafsetningarvillur í texta. Vissulega er hvort tveggja hvimleitt og ber að sporna við því. Við þurfum þó að gæta okkar á því að láta ekki þau atriði ein taka alla orku okkar og áhuga til málræktar því þarna eru á ferðinni augljósustu atriðin, þau sem flestir sjá og gera sér grein fyrir og ættu því að geta auðveldlega lagfært í máli sínu. Þar þarf fyrst og fremst leiðbeiningar og hvatningar. Hins vegar er ástæða til að óttast önnur atriði sem dýpra liggja og erfiðara er að koma auga á. Þar er átt við ýmislegt sem snertir framburð, setningaskipan og röklegt samhengi í máli. Það þarf að veita slíkum atriðum meiri eftirtekt en gert hefur verið.
    Oft er klifað á því að margt fari úrskeiðis í máli barna og unglinga. Minna er rætt um það hver annast máluppeldi þessara hópa. Líklega þarf að beina áróðri og fræðslu í vaxandi mæli til fólks á aldrinum 20 til 50 ára. Þetta fólk hefur mest áhrif á börn. Það hefur einnig mest áhrif úti í atvinnulífinu. Það stofnar fyrirtæki sem sum hver hljóta erlend nöfn. Það flytur inn eða skapar nýja þekkingu og tækni sem þarfnast nýrra orða. Þetta er fólkið sem mest er áberandi í fjölmiðlum og er í sviðsljósinu í viðskiptum og þjónustu. Þarna á íslensk málrækt mikið verk fyrir höndum. Telja verður nauðsynlegt að fræða foreldra um mál og máluppeldi. Þá þyrftu félög atvinnurekenda og launþega að sameinast um að gefa fólki sínu færi á að rækta mál sitt með ýmsu móti. Það mun skila sér vel í starfi.
    Fjölmiðlar eru oft sakaðir um að spilla málinu. Sjálfsagt er sumt réttmætt í þessum ásökunum og ekki má gleyma því að fjölmiðlar eru þær stofnanir sem nota málið mest allra stofnana og eru þjóðinni fordæmi í þeim efnum. Ekki verður því á móti mælt að margt er þar vel sagt á góðu íslensku máli. Við verðum að gæta okkar á að nota ekki fjölmiðla sem blóraböggul og firra okkur ábyrgð á málinu. Margt má betur fara í fjölmiðlum og fjölmiðlafólk þarf að vera sér mun betur meðvitað um ábyrgð sína. Fjölmiðlar verða að gera meiri kröfur til sjálfra sín, einkum verða þeir að sinna betur þjálfun starfsfólks en þar er einnig komið til kasta menntakerfisins. Ungt fólk sem hyggur á nám í fjölmiðlun verður að eiga kost á góðu námi á Íslandi. Fólk sem notar fjölmiðla þarf einnig að læra að gera réttmætar og sanngjarnar kröfur til þeirra. Á þann hátt getum það haft áhrif á þá.
    Margir hafa með réttu töluverðar áhyggjur af áhrifum alþjóðlegra fjölmiðla á mál og menningu þjóðarinnar en geta lítið að gert þar sem fjölmiðlun virðir engin landamæri. Ástæða er þó til að dást að hugrekki íslenskra fjölmiðla. Á
mælikvarða heimsins eru fyrirtæki hér svo smá að undrun sætir en metnaður sumra þeirra er hins vegar mikill. Það eina sem við getum gert í flóði alþjóðlegra sjónvarpsstöðva er að gera enn betur en hingað til. Þýða þarf texta og talsetja myndir og síðast en ekki síst þarf að framleiða mun meira af íslensku efni en

gert er. Við vitum að það er ætíð vinsælasta efnið. Þetta kostar fé en ekki má gefast upp á að finna færar leiðir svo að unnt sé að framleiða mikið af góðu íslensku efni.
    Móðurmálskennsla í skólum hefur ekki farið varhluta af umræðum um stöðu íslensks máls og málræktar. Það er oft með ólíkindum hve menn eru ónákvæmir í umfjöllun sinni. Ýmsir halda því blákalt fram að móðurmálskennslu hafi hrakað en hafa þá hvorki nýjar athuganir til að styðjast við né eldri athuganir til samanburðar. Hvað þá að þeir taki mið af ýmsum þjóðfélagsbreytingum sem kunna að hafa áhrif í þessum efnum. Við þyrftum að fara að kanna ástandið í skólum okkar svo unnt sé að svara athugasemdum af þessu tagi og bæta úr þar sem á skortir. Það er nauðsynlegt að fjalla sífellt um kennslu íslensks máls í skólum. Það eiga kennarar, fóstrur, foreldrar og þjóðin öll að gera. En sú umræða verður að vera uppbyggjandi og málefnaleg og jákvæð. Móðurmálskennsla verður aldrei fullkomin frekar en önnur mannanna verk. En það er mikilvægt að stefna alltaf að því að bæta hana. Hún má ekki staðna. Margt vantar til að sinna móðurmálskennslu hér á landi eins og vert væri. Menn verða þó að gera eins og þeir geta á hverjum tíma því börnin bíða ekki eftir betri tíð. Hins vegar verða þeir sem móðurmálskennslu annast að gera sér grein fyrir hvað á skortir svo kennslan geti orðið markviss og láta yfirvöld vita á hverjum tíma. Þeim, þ.e. yfirvöldum, Alþingi og ríkisstjórn, ber hins vegar skylda til að búa þannig að móðurmálskennslunni að hún geti borið sem bestan árangur.
    Hér hef ég, virðulegi forseti, rakið nokkur atriði úr þessari skýrslu um málrækt 1989 og væri út af fyrir sig hægt að fara mörgum fleiri orðum um texta skýrslunnar en ég ætla ekki að gera það að sinni. Í skýrslunni eru fjölmargar tillögur um úrbætur, fjölmargar tillögur um aðgerðir.
    Ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara yfir þær í einstökum atriðum en ég gæti það ef tilefni gefast til í umræðunum hér á eftir. Ég vil þó sérstaklega leyfa mér að taka eitt atriði út úr. Það er sú tillaga sem verkefnisstjórnin gerir varðandi stofnun málræktarsjóðs sem geti hvatt menn til góðra verka og styrkt verkefni sem t.d. falla ekki undir Vísindasjóð.
    Tilefni þess að ég tek þetta verkefni út úr er það að fyrir nokkrum mánuðum heimsótti sænska akademían Ísland. Hvaða verkefni var það á Íslandi sem vakti sérstakan áhuga og athygli sænsku akademíunnar, sem veitir Nóbelsverðlaunin? Það var málræktarátak. Og ákvörðun hennar var sú að leggja fram 1 millj. kr. á þáverandi verðlagi til þess að unnt yrði að stofna hér á landi sérstakan málræktarsjóð. Við höfum að undanförnu verið að fara yfir þetta mál, m.a. með hliðsjón af því hvort unnt væri að kalla fyrirtæki, einstaklinga og samtök til samstarfs um þetta verkefni. Undirtektir við það hafa í raun og veru verið ótrúlega jákvæðar hjá fjöldamörgum fyrirtækjum, einstaklingum og samtökum. Ég held satt að segja að um leið og við ræðum þetta mál hér á hv. Alþingi

þurfum við að velta því fyrir okkur hvað Alþingi vill gera til að treysta þennan undirstöðuþátt íslenskrar menningar sem er íslenskt mál. Hvað vill Alþingi á sig leggja? Með hvaða hætti vilja menn móta framkvæmdarstefnu til lengri tíma þar sem menn gera grein fyrir verkefnum þátt fyrir þátt sem eðlilegt er og nauðsynlegt að grípa til í þessu efni?
    Ég held að í þessum efnum sé mjög brýnt að menn þori að hafa metnað því þá þori menn að reisa merkið býsna hátt. Og það er satt að segja mjög alvarlegt umhugsunarefni fyrir okkur að á sama tíma og það liggur fyrir að þjóðin hefur mikinn og einlægan áhuga á máli sínu þurfi þeir sem vilja stunda rannsóknir á tilteknum sviðum íslenskrar menningar, tungu og sögu iðulega að leita til útlanda til að ná í þau gögn og geta stundað þær rannsóknir sem eru undirstaða í þessu efni. Þvert á móti ætti það auðvitað að vera þannig að útlendingar flykktust hingað til þess að stunda rannsóknir á íslensku og norrænum málum og undirstöðuþáttum þeirra. Þannig hefur það því miður ekki verið og það er alvarlegt umhugsunarefni. Sérstaklega vegna þess að það rímar ekki við þann mikla áhuga sem þjóðin hefur á þessum undirstöðuþætti menningar sinnar.
    Ég hef rakið hér, virðulegi forseti, nokkra meginþætti úr þessari skýrslu. Það sem ég vil leggja áherslu á að lokum af minni hálfu er það hvað undirtektir voru jákvæðar, hvað áhuginn var einlægur alls staðar og það meginatriði að yfirleitt er talað fallegt og gott mál í þessu landi. Málfar fjölmiðla er yfirleitt gott. Málfar stjórnmálamanna er ekki eins slæmt og stundum er haldið fram. Gallinn er sá að ein og ein undantekning sem menn heyra, t.d. í fjölmiðlum, er úthrópuð og talin til marks um það að allt sem sagt er sé slæmt, sé rangt, sé vitlaust og allt sé í raun og veru á niðurleið. Ég held að ef við ætlum að skapa málinu eðlilega þróunarmöguleika á komandi árum gerum við það ekki í þessu neikvæða andrúmslofti sem iðulega hefur skapast í þessum efnum. Við eigum að gera það með því að laða fram og segja frá og viðurkenna það jákvæða sem liggur fyrir á mjög mörgum sviðum. Ég held
satt að segja, og vil leyfa mér að segja það að allra síðustu, virðulegur forseti, að í upphafi þessa átaks og reyndar í mörg ár hef ég velt því fyrir mér hvort það væri þannig að sá neisti sem hér var örugglega til, undirstaða þjóðlegrar menningar, hvort hann væri til enn þá á sama hátt núna árið 1989 eða 1990 og hann var til t.d. á árinu 1944. Ég hef stundum verið að tala um þetta við fólk, ungt fólk og fullorðið fólk, og ég hef tekið eftir því að það er mjög auðvelt að finna þennan neista, þennan eld í því fólki sem upplifði sjálft stærstu tíðindi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti verið að hann sé kannski kulnaður. Að þessi æð sé kannski ekki lengur til sem þarna opnaðist. Það hefur komið í ljós og það er sannað í þessu málræktarátaki að mínu mati að þessi æð er til. Þessi eldur er til með þjóðinni allri. Það er mikilvægt fyrir háttvirta alþm. að gera sér grein fyrir því að það er hægt að sameina þessa þjóð

um grundvallarverðmæti eins og málið, menninguna og forsendur hennar. Ég held að við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við stöndum í raun og veru ekki hér frammi fyrir mjög merkilegum, ánægjulegum tíðindum og hvernig við ætlum að vinna að þessum málum áfram.
    Í þjóðfélagi hagvaxtarins og tæknihyggjunnar þar sem allt er metið í peningum og gróða og arði, í því þjóðfélagi vilja undirstöðuverðmæti af þessu tagi gleymast. Og það er mjög mikilvægt, finnst mér, að Alþingi Íslendinga gefi sér tíma til að ræða þetta, það sem sameinar eða getur sameinað þessa þjóð. Við stöndum núna frammi fyrir mjög miklum breytingum umhverfis okkur og hér á landi líka að því er varðar undirstöðuþætti stjórnmálaumræðunnar. Það er alveg ljóst að hún mun á komandi áratugum þróast talsvert öðruvísi en hún hefur gert á undanförnum áratugum. Ég held að mikilvægast af öllu sé að það takist að treysta á þessum komandi árum og áratugum, í þessum stjórnmálasviptingum, þau undirstöðuatriði sem gera þessa þjóð að þjóð. Og ég segi það stundum, a.m.k. við sjálfan mig, að í rauninni sé það það sem mestu máli skiptir. Allt annað er í mínum huga mikið smærra. Í því felst ekki einangrunarsjónarmið af neinu tagi af minni hálfu heldur hitt að ég tel að besta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar sé traust íslensk menning þar sem tungan og þróun hennar við eðlilegar aðstæður er undirstöðuatriði.
    Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, um leið og ég endurtek þakkir fyrir það að hafa fengið að koma þessu máli hér til umræðu.