Málrækt 1989
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þessa ágætu skýrslu hér fram, gefa þingmönnum tækifæri á að kynna sér hana og segja um hana nokkur orð.
    Málræktarátak tel ég í sjálfu sér vera mjög þarft og það var sannarlega tímabært. Til þess hefur verið lögð afar mikil vinna og þá ekki síst sjálfboðavinna allra þeirra mörgu sem að því stóðu. Það hefur líka verið lögð mikil alúð við undirbúning þessa átaks. Þar hafa margir lagt hönd að verki og það er vert að minna á það að áhrif slíks átaks eru ekki síður á þá sem beita sér fyrir því og vinna að því en á þá sem átakinu er beint að. Í þessu tilviki hafa margir uppalendur komið að verki. Þeir verða oft fyrir hugarfarsbreytingu sem þeir miðla síðan áfram í samskiptum sínum við aðra vegna þess að vinna sem þeir hafa lagt af mörkum til átaksins hefur knúið þá til hugsunar og þá oft nýrrar hugsunar.
    Það tókst margt vel að vonum í þessu málræktarátaki en annað miður og hafa menn væntanlega eitthvað af því lært og orðið reynslunni ríkari. Það er rétt að taka á með þessum hætti, að mínu mati, og draga athygli og hugsun fólks að því sem betur má fara í máli manna. Það hlýtur þó að skipta öllu máli hvernig haldið verður áfram í framtíðinni, hvernig málrækt verður stunduð meðal almennings og hverja forustu stjórnvöld vilja veita í þessum efnum. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það að jákvæðni er miklu drýgri hvati til ræktunar og árangursríkrar ræktunar en gagnrýni. Það á jafnt við um málrækt sem aðra rækt. Þess vegna held ég að rétt sé að leggja ríkari áherslu á jákvæðni fremur en gagnrýni.
    Það væri vissulega ástæða til þess að tala hér langt mál og minnast á marga þætti þessarar ágætu skýrslu, en ég ætla hins vegar að takmarka mig við tvö atriði sem ég hef áhyggjur af og beina spurningum um þau til hæstv. ráðherra.
Börnin læra móðurmál sitt ung meðan þau eru enn í umsjá foreldra eða dagvistarheimila. Þau geta talað áður en þau kunna að lesa. Þetta vitum við öll. Við vitum líka að fjölmiðlar skipa æ meiri sess sem afþreying og jafnvel gæsla ungra barna og þess vegna vil ég beina athygli hæstv. ráðherra og þm. að því sem segir á bls. 44 um talsetningu sjónvarpsefnis fyrir yngstu áhorfendurna. Þar hefur barnaefni á enskri tungu verið yfirgnæfandi til nokkuð langs tíma og börnin læra það mál sem fyrir þeim er haft en geta ekki lesið þann texta sem með myndinni er fluttur því að yfirleitt eru myndirnar textaðar á íslensku. Ég tel það vera afar mikilvægt að beina fjármunum og áherslum að því að talsetja íslenskt barnaefni sem er af erlendum uppruna. Best af öllu væri þó og miklu nær að auka innlenda dagskrárgerð, bæði fyrir fullorðna og ekki síður fyrir börn.
    Það hefur komið fram í fyrirspurnum hér á þingi að það er ótrúlega lítill hluti af sýningartíma íslenska sjónvarpsins sem er sérstaklega ætlaður börnum, allt

of lítill tími miðað við það hve börn horfa mikið á sjónvarp. Það hefur verið okkur til stórskammar hversu mikið af þessu efni hefur verið á öðrum tungumálum en íslensku. Þess vegna vil ég beina spurningum sérstaklega til hæstv. ráðherra um leið og ég þakka fyrir þessa skýrslu og samgleðst yfir þeim árangri sem orðið hefur af þessu átaki: Hvað hyggst hæstv. ráðherra fyrir sérstaklega í þessum efnum? Hyggst hann beita sér fyrir því, eða ríkisstjórnin, að lögð verði sérstök áhersla á og þá varið fjármunum til þess að talsetja barnaefni í íslensku sjónvarpi sem ekki er á íslensku og einnig að meiri tíma verði varið til innlendrar dagskrárgerðar fyrir börn?