Málrækt 1989
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í tilefni þessarar skýrslu um málræktarátak 1989 sem hæstv. menntmrh. hefur hér mælt fyrir. Ég vil eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa talað byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessa skýrslu sem ég tel vera mjög mikilvæga eins og þetta mál allt er í raun og veru.
    Það er oft sagt að við Íslendingar séum á hættubraut, að glata tungu okkar, því að inn í málið hafi komið alls konar erlend tökuorð og slettur eins og það er orðað. Ég held að þetta sé ekki alls kostar rétt. Ég held að íslensk tunga sé minna menguð og hreinni en mörg önnur, t.d. Norðurlandamálin, og ef nokkuð er held ég að við höfum að mörgu leyti hreinsað okkar tungu af ýmsum erlendum lánsorðum eins og var talsvert um hér áður og fyrr eins og margir muna eftir þegar danskan var ansi mikið notuð í íslensku máli. Það þótti nefnilega oft fínt að tala dálítið dönskumengaða íslensku.
    Hitt er alveg rétt að það er ljóst að við þurfum að vera vel á verði og það þarf vissulega að byrja á byrjuninni og leggja rækt við málfar barna eins og hér hefur komið fram. Þar koma auðvitað fyrst til uppalendur, þ.e. foreldrar, og síðan starfsfólk dagvistarstofnana og skóla og eins og hér hefur einnig verið nefnt eru fjölmiðlarnir orðnir mikilvægur þáttur í því að stuðla að góðu málfari og rækta það.
    Hér var minnst á þátt foreldra og mikilvægi þess að þeir tali við börn sín, rækti vel málræktargarðinn ef svo má að orði komast, en eins og við þekkjum hafa aðstæður foreldra breyst mjög í breyttu þjóðfélagi og því er þáttur annarra sem taka við umönnun barna á fyrstu æviskeiðum þeirra, eins og leikskóla, dagheimila og grunnskóla, svo mikilvægur og sú menntun sem þessir uppalendur fá í móðurmálskennslu.
    Ég vildi aðeins taka undir það sem hér hefur verið sagt að það þarf að taka jákvætt á þessum málum. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa skýrslu um málræktarátakið sem auðvitað hlýtur að verða að halda áfram í verki þó að árið 1989 hafi verið helgað því átaki. Og ég endurtek aðeins og ítreka þýðingu þessa máls og þakka hæstv. menntmrh. fyrir ágæta skýrslu.