Málrækt 1989
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður um skýrsluna og ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum sem fram hafa komið og þá fyrst í sambandi við talsetningu sjónvarpsefnis. Þetta mál hef ég rætt beint við forráðamenn beggja sjónvarpsstöðvanna satt að segja fyrir alllöngu. Ég hygg að nokkur breyting hafi orðið á eins og einu ári eða svo án þess að það sé þessum viðtölum að þakka, en það hefur orðið talsverð breyting, að ég held. Auk þess hefur orðið talsverð aukning á innlendri dagskrárgerð í ríkissjónvarpinu. Í júnímánuði sl. skrifaði ég öllum ljósvakamiðlunum og spurði um stefnu þeirra að því er varðaði barnaefni yfirleitt. Ég fékk lausleg svör frá tveimur þeirra, þ.e. Stöð 2 fyrst og síðan Ríkisútvarpinu og reyndar ítarlegra svar sem mér barst svo frá Ríkisútvarpinu núna alveg nýlega þar sem mótuð er tiltekin stefna í þessu efni sem ég tel að sé mjög í rétta átt, en eins og hv. 6. þm. Reykv. gat um er hér auðvitað fyrst og fremst spurningin um það hvar menn hafa áherslurnar. Og ég held að til að þessir hlutir verði í sæmilegu lagi verðum við að halda áfram þessari umræðu um börn og barnaefni og barnamenningu sem ég kem aðeins að á eftir, en bendi á að mér sýnist að ýmsar deildir sjónvarps og útvarps, Ríkisútvarpsins, hafi tekið sig verulega á í þessu efni að því er varðar börnin alveg sérstaklega, ekki aðeins að því er varðar gerð almenns dagskrárefnis fyrir börn heldur líka að því er varðar gerð fréttaefnis fyrir börn eins og t.d. íþróttaefnis sem ég vænti að einn og einn þm. hafi kannski veitt athygli.
    Varðandi það sem hv. 6. þm. Reykn. sagði er það auðvitað grundvallaratriði að aðstæður foreldranna hafa breyst, aðstæður þeirra til þess að stunda máluppeldi með börnum sínum hafa breyst. Foreldrarnir eru ekki heima, þeir eru að vinna, og tíminn til að sinna börnunum er of lítill og af þeim ástæðum er það sem börnin verða að vera sjálfum sér nóg með ýmsum hætti, hafa félagsskap
hvert af öðru eða af fjölmiðlum sem eru kannski misjafnlega heppilegir uppalendur þó að þeir séu auðvitað ekki alltaf slæmir. Ég held að í þessu sambandi séum við kannski komin að kvikunni í þessu máli, grundvallaratriðinu. Ef við ætlum að tryggja það að málið fái að þróast hér með eðlilegum hætti er það uppeldisumhverfi barnanna sem er meginmálið í þessu, ekki aðeins þeirra barna sem eru inni á skólum og dagvistarstofnunum heldur kannski fyrst og fremst þeirra barna sem ekki eru þar.
    Það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan að grunnurinn er lagður á aldrinum að 6--7 ára aldri. Ef börn verða fyrir verulegu hnjaski á þeim tíma tekur oft mörg ár og tekst jafnvel ekki að leiðrétta það. Og ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að stjórnvöld, Alþingi, og þessi opinbera umræða í þjóðfélaginu hefur ekki snúist um rétt barna til menningarlegs umhverfis. Í rauninni er það þannig að þessi réttur barna hefur ekki verið viðurkenndur

sem skyldi sem er kannski ekki síst ástæða til að segja við þær aðstæður að við erum með hér í forsetasæti rithöfund sem hefur gefið íslenskum börnum góðar bækur, á íslensku nútímamáli --- ég segi gefið, á íslensku nútímamáli --- og það skiptir einmitt mjög miklu að mínu mati að þeir sem tala um málið og þróun þess geri sér grein fyrir að börnum verður ekki gefið lifandi tungumál með því að kasta í þau fornbókmenntum, svo mikilvægar sem þær auðvitað eru. Það þarf að vera lifandi jákvæð þróun í málinu sjálfu frá degi til dags og þess vegna eru góðar barnabækur og góðar barnakvikmyndir í raun og veru ein meginundirstaða þess að börnin fái eðlilegt og gott málumhverfi. Okkur hættir oft til þess að ætla að setja þessa hluti í gamlan farveg, ætlast til þess að börnin upplifi veruleika sinn eins og við gerðum. Það var góð samlíking sem tónlistarmaður nefndi við mig á dögunum. Hann sagði: Þegar við vorum að alast upp í sveitinni var lóan vorboðinn, en fyrir börnin í Reykjavík er það malbikunarvélin. Og þetta segir kannski sína sögu um þann veruleika sem við nú stöndum frammi fyrir og er allt, allt annar en sá sem fólk ólst upp við hér fyrir mörgum áratugum.
    Ég held að það skipti mjög miklu máli að við sköpum þannig þjóðfélag, barnvinsamlegt þjóðfélag, að foreldrarnir hafi tíma til að tala við börnin sín, að vera með börnunum sínum, og ég held að eðlilegt framhald af umræðu af þessu tagi ætti að vera umræða um barnamenningu og rétt barna til menningarlegs umhverfis, rétt barna sem einstaklinga en ekki sem óskilgreindra þúsunda. Við höfum ákveðið að reyna að sinna því máli eins og við getum á þessu ári, m.a. með hliðsjón af þróun íslensks máls og með hliðsjón af þeim mikla áhuga, þeim þjóðlega áhuga sem kom fram í málræktarátakinu sem ég held að sé hægt að virkja á mörgum öðrum sviðum, m.a. til að rækta virðingu barna og þjóðarinnar fyrir landinu og gæðum þess. Ég held í rauninni að besta svarið við þessum mikla áhuga sem birtist á síðasta ári sé það að reyna að snúa sér að barnamenningunni sem slíkri og opna leið til þess að öll íslensk börn eigi rétt á því að alast upp í sæmilega menningarlegu umhverfi.
    Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. og hæstv. forseta fyrir þessar umræður.
    Þannig háttar til, hæstv. forseti, að ég þarf því miður að biðja um
fjarvistarleyfi þar sem ríkisstjórnarfundur hófst núna fyrir 7 mínútum en ég er tilbúinn til að halda umræðunni áfram síðar ef hv. þm. óska eftir því.
( Forseti: Má ég spyrja hv. 2. þm. Norðurl. e. hvort hann óski eftir að fresta máli sínu vegna fjarveru ráðherra eða nýta tímann nú. Forseta er að sjálfsögðu ljúft að fresta umræðunni þangað til ráðherra getur verið viðstaddur.) ( HBl: Ég óska eftir að fresta máli mínu, en fá orðið um þingsköp.)