Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. var að tala hér um málræktarátak áðan en fer vitlaust með íslenska tungu í næstu ræðu á eftir. Það er rangt að hér sé gerð grein fyrir hvaða bókmenntaverk voru og verða sett fyrir í grunnskóla og einstökum framhaldsskólum skólaárin 1988--1989 og 1989--1990. Þetta er röng notkun á íslensku máli. Og það sem verra er, svarið ber með sér í einstökum atriðum að þar er ekki rétt með farið. Það er t.d. fullkomlega rangt að Snorra-Edda, eins og hún leggur sig, sé lesin í einhverjum bekk í grunnskólum eða framhaldsskólum hér á landi eins og stendur í þessari skýrslu hér.
    Nú reynir á hvort einhvern tilgang hafi fyrir einstaka þingmenn að bera fram fsp. á Alþingi. Ég geri mér að vísu grein fyrir að einstakir ráðherrar geta með dónaskap skotist undan að svara fyrirspurnum sem Alþingi hefur samþykkt og með þeim hætti sýnt þá virðingu sem þeir bera fyrir þessari stofnun. Meðan hæstv. menntmrh. var ritstjóri talaði hann um Alþingi götunnar sem ætti að taka völdin af þjóðkjörnu Alþingi Íslendinga og sú sama tilfinning er ofarlega í hans huga enn. Nú vill svo til að þingmenn hafa fleiri ráð en þinglega fsp. til þess að knýja fram upplýsingar. Hitt er ljóst að ef forsetar þingsins ekki sjá til þess að virðing Alþingis standi að því leyti til að ráðherrar skuli svara þeim fyrirspurnum sem fram eru bornar með þinglegum hætti og Alþingi hefur samþykkt, ef hæstv. forsetar láta það yfir sig ganga, þá er illa komið fyrir þessari stofnun og auðvitað óhjákvæmilegt að taka þetta mál upp á miklu víðari grundvelli en ég hafði ætlað. Ég hafði gert hæstv. menntmrh. grein fyrir því sem ég sagði hér áður en ég tók til máls. Það er auðvitað til í tölvum menntmrn. hvaða bókmenntaverk eru lesin í grunnskólum landsins. Ef það er ekki til í tölvunum held ég að hæstv. menntmrh. ætti að reyna að koma tölvunum í lag og fá þá hjálp til þess einhvers staðar frá því að auðvitað hlýtur það að liggja fyrir í menntmrn., hjá námsstjórum í íslensku, hvaða
bókmenntaverk eru lesin í grunnskólum landsins. Og auðvitað er það ekki mikið verk fyrir hæstv. menntmrh. að láta safna saman hvaða bókmenntaverk voru sett fyrir í framhaldsskólum landsins á sl. vetri og verða sett fyrir á þessum vetri.
    Það á svo eftir að koma í ljós hver verða viðbrögð hæstv. forseta og ég spyr hann úr ræðustól hvort hann ætli að sjá til þess, beita áhrifum Alþingis og forsetavalds til þess að knýja hæstv. menntmrh. til þess að svara þeirri fsp. sem þinglega er fram lögð. Eða eigum við að sætta okkur við það að það sé sami oflátungshátturinn, sami ráðherraslátturinn í þessu máli og í svo ótal mörgum málum öðrum að hún skipti engu máli þessi stjórnarandstaða, það skipti engu máli hvort það eru efnahagsmál eða eitthvað annað, að sami maður geti komið hér upp og talað um málræktarátak en neitað að gefa Alþingi skýrslu um kennslu í þeim bókmenntum sem kenndar eru í íslenskum grunnskólum og íslenskum

framhaldsskólum? Það væri til að kóróna skömmina.