Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér hefur átt sér stað gagnmerk umræða. Hins vegar er hún að því leyti stórhættuleg hæstv. menntmrh. að hann mun hafa mjög strangar skyldur að mæta á ríkisstjórnarfund og það svo strangar að ef ráðherra svíkst um að mæta en er þó í nágrenninu getur hann átt það á hættu að vera vikið úr ráðherrastól. Það er þess vegna mikil spurning og ærið umhugsunarefni fyrir þingheim hvort það verði talin nægileg afsökun fyrir ráðherra að hann geti ekki yfirgefið húsið vegna þess að hér fari fram umræður um þingsköp, ( Menntmrh.: Halldór Blöndal er talin nægileg ástæða.) í ljósi þess að komið hefur fram að umræðum um þingsköp skal beina til forseta. Og það fer ekki á milli mála að hæstv. forseti hefur komið því á framfæri að svo sé. Ekki hefur það heldur verið rengt af hv. 2. þm. Norðurl. e. að umræðum um þingsköp skuli beina til forseta og í sinni gagnrýni hefur hann sett allt sitt traust á forseta. Þess vegna fæ ég ekki séð að hægt sé að gera þá kröfu til menntmrh. að hann hafi hér þingskyldur umfram aðra menn, því nokkuð vantar nú á að allir stólar séu setnir hér í salnum. Því sýnist mér að þó að áhugi sé mikill á íslensku hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., sem ég veit að er, þá mæli öll rök með því að menntmrh. fái fullt ferðafrelsi á fund ríkisstjórnarinnar og held ég að það þurfi ekki að vera deiluefni manna hér í salnum.
    Ég ætla aftur á móti að bæta því við að ég las þá skýrslu eða þau svör sem hér hafa borist skrifleg og mér fannst mikill fróðleikur vera þar á ferðinni. Aftur á móti hefur komið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að hann hefur sannreynt það að Snorra-Edda sé ekki kennd spjaldanna á milli í framhaldsskólum landsins. En í skýrslunni er látið að því liggja að svo geti verið í einstökum skólum.
    Ég verð að segja eins og er að þetta sýnist mér bera vott um að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi kynnt sér þessi mál býsna vel og er það virðingarvert. En
nú er það svo að ég hygg að þeir sem unnu þau svör sem þarna koma fram hafi reynt að gera það eftir bestu getu. Hitt er svo annað mál, og það veit ég að við hv. 2. þm. Norðurl. e. erum sammála um, að auðvitað setja bæði vitsmunir og vandvirkni sitt far á það hver árangur verður, hvort svar sé fullnægjandi. Og nú hefur það komið í ljós að hann metur það svo að svör séu ekki fullnægjandi. Ég tel að ekkert sé óeðlilegt við það þó hann agi sína fsp. betur að þeim atriðum sem hann telur að ekki hafi verið svarað, því að ég vil ekki ætla starfsmönnum menntmrn. að þeir hafi vísvitandi á nokkurn hátt reynt að blekkja með sínu svari. Þegar það hefur komið fram hjá hæstv. forseta að hann telur eðlilegt að ný fsp. komi fram þar sem þetta efni sé afmarkað þá finnst mér að ekki sé hægt að hunsa það alveg án umhugsunar hvort það geti ekki orðið viðunandi lausn á því deilumáli sem hér er um að ræða og láta sjá til hvort þeir sem svara komi nú betur lesnir næst.