Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það dugir ekki að samstarfsvilji sé í eina átt. Nú liggur það fyrir, og hæstv. forseti er bókmenntafróður maður og kann væntanlega íslensku, að þeirri skriflegu fsp. sem ég bar fram hefur ekki verið svarað. Það var skrifleg fsp. sem Alþingi leyfði. Hæstv. menntmrh. hefur sagt af hroka að hann muni ekki svara fsp. Ég hef óskað eftir því að forsetafundur verði haldinn um þetta mál og ef svo fer að forsetafundur synjar þess að hæstv. forseti gegni þeirri embættisskyldu sinni að sjá til þess að þinglega fram bornum fsp. sé svarað af ráðherrum hlýt ég að fara aðrar leiðir. Það gefur auðvitað auga leið. Samstarfsvilji er ekki fólginn í því að hlutirnir séu á einn veg. Samstarfsvilji er fólginn í því að forseti ræki þær skyldur sínar að þingmenn viti að forsetar standi á bak við þá ef þeir bera fram mál með þinglegum hætti. Það er verið að kvarta undan því að við þingmenn tölum stundum utan dagskrár, þá er vísað til þess að við eigum að bera fram fsp. með þinglegum hætti. Ef við gerum það hlýtur náttúrlega að reyna á hvernig brugðist er við.
    Á jólaföstu stóð ég hér í þessum stól. Þá sat hæstv. fjmrh. fyrir svörum, Ólafur Ragnar Grímsson, og svaraði ranglega fsp. sem ég hafði beint til hans með þinglegum hætti og þóttist ekki muna einstök atriði sem voru honum í fullu minni. Þó hafði ég borið mína fsp. fram með þinglegum hætti.
    Það reynir sannarlega á forseta Alþingis þegar við völd er ríkisstjórn eins og sú sem við verðum að una við nú um sinn.