Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég skil viðbrögðin svo að hæstv. forseti ætli ekki að aðhafast neitt í málinu, er það rétt? ( Forseti: Ég vona að hv. þm. skilji mál mitt. Forseti mun aðhafast það í málinu að greiða mjög fyrir og ýta á að skjótt svar berist við nýrri fsp. með þeim atriðum sem ...) Ég var að spyrja hvort hæstv. forseti ætlaði að gera eitthvað í sambandi við þá fsp. sem ég hef tekið til umræðu og ekki er svarað. ( Forseti: Forseti hefur ekki vald á því að þvinga ráðherra til að svara öðruvísi en hann hefur lýst yfir hér í ræðustól að hann muni svara, sem sagt eins og hann hefur gert. Ég held að forseti geti ekki haft neitt vald á að breyta því svari.) Og hæstv. forseti mun ekki knýja á að menntmrh. svari. Nú er hæstv. menntmrh. að vísu í sama stjórnmálaflokki og hæstv. forseti, eins og stundum hefur borið við hér áður, og nú er það svo og hefur verið hér um þingið að þeir sömu flokkar og eru í ríkisstjórn eru í öllum æðstu trúnaðarstörfum þingsins. ( Forseti: Ég vil áminna hv. þm. um að þetta mál er með öllu óskylt því sem hér hefur verið rætt. Stjórnmálaskoðanir forseta hafa engin áhrif á störf hans annars í þinginu, ekki frekar nú en hingað til.) Nú er það svo að embættismenn þingsins, bæði forsetar og formenn einstakra nefnda, eru úr sömu stjórnmálaflokkum og skipa ríkisstjórn og meiri hlutann hér í þinginu. Það er mikið tillit tekið til þess hvernig einstakir ráðherrar vilja haga starfstíma Alþingis, hvernig þeir vilja haga umræðum hér á Alþingi. Á hinn bóginn kostar oft mikil átök ef einstakir þingmenn fara fram á það að þeir fái eðlilegar upplýsingar um mál þegar þau eru til umræðu. Þetta er allt saman mjög til íhugunar, hæstv. forseti, og sérstaklega þó það atriði að á þeim sama fundi og rætt er um íslenska málrækt kemur fram hjá hæstv. menntmrh. og hæstv. forseta þingsins að ekki skipti máli hvort þingmenn fái svarað þinglegri fsp. um kennslu í íslenskum bókmenntum í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.