Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og þá umfjöllun sem hann gerði þessu máli hér úr ræðustól. Bind ég vissulega vonir við að bæði með almennum aðgerðum takist að snúa vörn í sókn og enn fremur að ríkisstjórnin sjái ástæður til að grípa þarna til sérstakra aðgerða.
    Hv. 3. þm. Suðurl. sagði að ég hefði blandað rangri sagnfræði í málið. Auðvitað gerði ég það ekki. Ég rakti þær ástæður sem léku útflutningsatvinnugreinar og samkeppnisgreinar landsmanna mjög grátt á fast að tveggja ára tímabili. Hann sagði að við hefðum staðið fast saman og stutt ríkisstjórn saman, framsókn og Sjálfstfl. Við skulum auðvitað minnast þess að okkur leið ekki vel, framsóknarmönnum, allan þennan tíma sem lauk nú t.d. með því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði skilið við þá ríkisstjórn. Við vorum jafnan að krefjast aðgerða í þágu atvinnulífsins á þessu tímabili því að við sáum hvert stefndi. Mín sagnfræði var fyrst og fremst upprifjun til að leggja áherslu á það að samkeppnisiðnaðinum blæddi út á þessu tímabili vegna fastgengisstefnunnar og vaxtastefnunnar, hann hefði þurft sams konar aðstoð og útflutningsgreinarnar.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma. Mér þótti þetta nauðsynlegt til að leggja áherslu á mikilvægi málsins. En ég þakka það að nú skuli tvær af þessum þremur skýrslum liggja fyrir tilbúnar og ég vænti þess að forsrh. fylgi því fast eftir að Byggðastofnun ljúki gerð hinnar þriðju skýrslu og þessi mál verði tekin upp af fullum þunga. Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði. Samgöngur hafa breyst en þær hafa líka breyst í báðar áttir þannig að eftir bættar samgöngur eiga þessi héruð okkar þarna austur frá enn meiri möguleika en áður.