Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Það er vegna formálans sem hv. fyrirspyrjandi viðhafði sem mig langar til að fá aðeins meiri upprifjun, mér sýnist hún nauðsynleg. Ég ætla að vita hvort hv. fyrirspyrjandi getur rifjað það upp fyrir sjálfum sér og öðrum hverjir sátu í þessari voðalegu ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og alveg sérstaklega ef fyrirspyrjandi vildi rifja það upp fyrir sjálfum sér og okkur hverjir fóru með landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, af því að sérstaklega var minnst á þá málaflokka. Síðan væri fróðlegt að fá líka upplýst hver hafði með yfirstjórn vaxtamála að gera og hver hefur það nú og hvort einhver veruleg breyting hafi orðið í þeim málaflokki frá því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór frá. Kannski mundi þingmaðurinn upplýsa hver breyting hefur orðið á síðasta ári á raunvöxtum sjávarútvegsins, hvort þeir hafa hækkað eða lækkað. Hvort hann hafi gluggað í skýrslu Seðlabankans frá því í desember. ( GuðnÁ: Ég má ekki tala aftur.) Nú, fyrst þingmaðurinn má ekki tala aftur, sem ég held að sé mjög heppilegt fyrir hann, þá mundi kannski hæstv. forsrh. vilja upplýsa það sem ég hef hér verið að spyrja um.
    Við urðum auðvitað varir við þessa vanlíðan framsóknarmanna í ríkisstjórninni, en það gleður okkur afskaplega hvað þeim líður vel núna. Ég vona að þeim líði áfram vel. Svo vil ég aðeins benda á að um þessar skýrslur, sem hér var vitnað til, bað hæstv. fyrrv. forsrh. Þorsteinn Pálsson.