Fyrirspurn um atvinnulíf í Rangárvallasýslu
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er býsna kyndugt hvernig talsmenn ríkisstjórnarflokkanna taka hér til máls og með hvaða hætti þeir gera það. Hér hefur talað hv. 2. þm. Vestf., sem sæti á í efnahagsmálanefnd þingflokks framsóknarmanna og er einn af höfuðtalsmönnum flokksins í efnahagsmálum, til þess að gera athugasemdir við það hvernig staðið hefur verið að umræðum. Og hvernig hefur þessi umræða farið fram? Hv. fyrirspyrjandi gerði í inngangi að fyrirspurnum sínum grein fyrir því hvernig efnahagsmál hafa verið að þróast á undanförnum árum frá hans sjónarmiði. Það verður að segja það eins og er að allt var það á ská og skjön við raunveruleikann. Þess vegna var mjög eðlilegt að hv. 2. þm. Reykn. gerði örstutta athugasemd við þær villandi upplýsingar og þá villandi lýsingu. Það var ósköp eðlilegt að hv. 2. þm. Reykn. spyrði að því hverjir hefðu borið ábyrgð á stjórn landbúnaðarmála á þeim tíma sem hér var til umræðu. Öllum er ljóst að það var einmitt samdráttur í landbúnaði sem kom hvað verst niður á atvinnulífi í þeim byggðarlögum sem hér voru til umræðu. Ástæðan fyrir því að þessi höfuðtalsmaður Framsfl. í efnahagsmálum er auðvitað sú að ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki þola að hér séu gerðar athugasemdir eða dregnar fram staðreyndir um þróun mála og hverjir bera stjórnskipulega ábyrgð á einstökum málaflokkum í ríkisstjórn Íslands. Það er svo mikið feimnismál að það þarf að gera um það athugasemdir ef það er upplýst hér á hinu háa Alþingi.