Fyrirspurn um atvinnulíf í Rangárvallasýslu
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð að fá að gera hér smáathugasemdir við það upphlaup sem hér hefur orðið vegna ræðu minnar þar sem ég fór yfir þróun mála á árunum 1987 og 1988. Hver er sannleikanum sárreiðastur. Ég gerði þó ekki annað í þessari umræðu en að nefna nafn hæstv. þáv. forsrh., Þorsteins Pálssonar. Ég sagði frá því sem gerst hefði í gengismálum og vaxtamálum á þessu ári miðað við síðasta ár. Ég rakti hér vaxtabreytinguna. Ef hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur ekki verið vaknaður þá gerði ég það hér, en hann spurði eftir því hér áðan. En ég sagði líka að mér hefði þótt nauðsynlegt að rifja upp hvað þurfti að gera í þágu sjávarútvegsins eftir að því stjórnartímabili lauk til að rétta hann við og lagði áherslu á að samkeppnisþorpin þyrftu því miður á því að halda að fá peninga til að rétta sig við því þau höfðu farið mjög illa á þessu tímabili einnig. Ég hef ekki vitnað í aðra hér en Seðlabanka Íslands í minni röksemdafærslu. ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að hefja hér ekki efnislegar umræður.) Þar með læt ég lokið máli mínu, hæstv. forseti.