Húsameistari ríkisins
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Í sjálfu sér hef ég ekkert við gerð byggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar að athuga þó ég hafi minnst á hvernig þær framkvæmdir fóru gjörsamlega úr böndunum.
    Hæstv. forsrh. sagði að starfsemi húsameistara ríkisins, hvað einkaþjónustu varðaði, hefði verið yfirmönnum hans ljós um langt skeið. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að annaðhvort séu menn í starfi hjá ríkinu eða þeir séu það ekki. Þess vegna álít ég mikilvægt og treysti forsrh. til að setja um þetta skýrar og afdráttarlausar reglur. Við skulum gera okkur grein fyrir því að margir embættismenn og ekki síst þeir sem fara með forystu á vinnustöðum njóta hárra launa af hendi ríkisins og við verðum að gera til þeirra þá kröfu að þeir séu þar að störfum. Maður veit aldrei hvernig maður sem er að vinna á sjálfs síns vegum einnig ver tíma sínum, hvernig þetta blandast saman o.s.frv.
    Það sem hefur vakið athygli mína er það hversu starfsemi húsameistaraembættisins er illa grundvölluð hvað löggjöf varðar. Það segir nánast ekkert um þetta virðulega embætti í lögum. Hins vegar er sérstök reglugerð um embætti húsameistara. Þar segir að verksvið þess sé tvíþætt. Í fyrsta lagi umsjá, viðhald og breytingar á opinberum byggingum. Í öðru lagi frumathuganir og áætlanagerð varðandi opinberar byggingar, eftir því sem um semst milli embættisins og eignaraðila. Þó falla nokkrar byggingar undir umsjá embættisins. Þar má nefna tvö af þeim húsum sem nú eru dýrust í viðhaldi og hafa, þrátt fyrir skýrt markað hlutverk embættisins, hreinlega grotnað niður. Hér á ég við embættisbústað forseta Íslands og Þjóðleikhúsið. Gott ef ekki er áætlað að viðhald á þessum tveimur byggingum kosti hátt í milljarð. Og skipa varð í báðum tilfellum sérstaka nefnd, sjálfsagt á launum, í úttekt og áætlanagerð um úrbætur.
    Ég nefni þetta hér af því að ég held að miðað við það sem ég sagði í frumræðu minni og miðað við það sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. sé mjög mikilvægt að endurskoða starfsemi þessa embættis, ég tek undir það, og athugandi er að fela öðrum aðilum ýmis þau verkefni sem embættið hefur farið með í gegnum árin.