Húsameistari ríkisins
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða það sem kom fram í fyrstu ræðu hv. fyrirspyrjanda, en spurningin er: Er embætti húsameistara ríkisins tímaskekkja? Það þarf meiri tíma til að ræða það. Ég vil aðeins segja að vel getur komið til greina að leggja það niður. En þá þurfum við að fela einhverri stofnun fjölmörg verkefni sem það sinnir, eftirliti og viðhaldi og breytingar o.s.frv. í Stjórnarráðinu. Allar teikningar um það liggja hjá skrifstofu húsameistara.
    Ég hef reyndar lagt drög að því að þetta verði skoðað í heild sinni. Hins vegar er alrangt að kenna húsameistara um að viðhald á opinberum byggingum hefur ekki verið eins og það á að vera. Húsameistari hefur hvað eftir annað bent forsrh., bæði mér og öðrum, á að viðhaldi sé ábótavant á ákveðnum stöðum. Því miður hefur ekki tekist að fá fjármagn til að framkvæma sumt það viðhald og við erum að uppskera það núna, t.d. í Þjóðleikhúsinu. Ef fjármagn hefði verið veitt til viðhalds þar jafnt og þétt á hverju ári væri ekki svo ástatt sem nú er. Ekki er hægt að kenna húsameistara um það viðhaldsleysi sem var á Bessastöðum. Þegar loksins hófust viðgerðir á skemmdum fyrir fjórum árum kom í ljós að þær voru miklu meiri en menn höfðu gert sér grein fyrir, þ.e. innri skemmdir í veggjum og bitum o.s.frv. og á það var bent. Það er upphafið að því starfi sem þar er hafið, sem svo sannarlega, eftir að það er hafið, hefur leitt í ljós að skemmdirnar eru alveg ótrúlega miklar og hefði þar einnig þurft að veita fjármagn til viðhalds jafnt og þétt.
    Ég vil aðeins geta þess hér að árið 1983 tókst mér að ná samkomulagi við þáv. fjmrh. um árlegt framlag til viðhalds á Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu. Það hefur ekki verið mikið og ekki vakið neina athygli en þar er að mínu mati búið að gera mjög gott verk í að laga það sem þar var að fara úrskeiðis. Viðhaldið er fyrir bragðið í allgóðu lagi þar.