Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga þó afturhaldsöflin hér á virðulegu Alþingi komi upp og andmæli því að ráðherrar og aðrir forustumenn fari á meðal þjóðarinnar til þess að reyna að upplýsa um það sem er að gerast hér. Þessi öfl hafa hingað til þrifist á þögninni og í skúmaskotunum hér, pólitískum skúmaskotum á þinginu, og þeim er að sjálfsögðu illa við að málin séu dregin fram í dagsljósið á þennan hátt. En við því er ekkert að gera. Þessa kynningu þarf að auka miklu meira en hefur verið gert. Það þarf að upplýsa, sérstaklega núna, um allt sem lýtur að EFTA-EBE viðræðum. Það er stórmál. Og það er gott að ráðamenn skuli vera reiðubúnir til að fara á meðal fólksins, sitja þar og bíða eftir spurningum. Síðan er það undir fólkinu sjálfu komið um hvað það spyr. Vilji menn ekki segja allt sem í brjóstum þeirra býr, eins og hér er gefið í skyn, þá er það að sjálfsögðu undir þeim komið sem sækja fundina að spyrja þá. Fólkið hefur tækifæri til að spyrja þá. Það er númer eitt. Kynningu af þessu tagi verður að auka og sérstaklega verður að leggja áherslu á það að kynna þjóðinni hvað er að gerast í EFTA-EB viðræðunum.