Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Ég lýsti því yfir við þessa umræðu að ég var sammála öllum efnisatriðum í yfirlýsingu eða fréttatilkynningu utanrrn. Nú hefur það hins vegar komið í ljós og ég ræð það af yfirlýsingu hæstv. forsrh. að Alþb. hafi fallið frá mótmælum sínum við þá stefnu sem fram kemur í nefndri yfirlýsingu og hv. 2. þm. Austurl. hafði svo stór orð um en hæstv. menntmrh. taldi sérstaka ástæðu til þess að krefjast ríkisstjórnarfundar hér á hinu háa Alþingi vegna málsins.
    Ég fagna því ef rétt er að Alþb. hafi sætt sig við að þetta skuli vera afstaða ríkisstjórnarinnar og tel að það sé nokkurt framfaramerki og iðrunarmerki af hálfu þess flokks í afstöðu hans til utanríkismála.