Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé um það með hvaða hætti reynt sé að ná fram sparnaði og aðhaldi í rekstri ríkisstofnana og þar með auðvitað heilbrigðisstofnana. Einmitt sú viðleitni til sparnaðar sem reynt var að framfylgja á seinasta ári og er reynt að framfylgja enn hefur verið mikið til umræðu, og stjórnendur og starfsfólk sjúkrahúsanna hafa lagt sig mikið fram í því sambandi. Við höfum því miður ekki náð að fylgja fram þeim áætlunum eins og við hefðum viljað gera með hagræðingu eingöngu og aðhaldi í rekstrinum, heldur hefur einnig þurft að koma til þess að einstaka stofnunum hefur orðið að loka að hluta til, tímabundið þó, því betur. Þess vegna er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta á allar mögulegar leiðir í þessu sambandi.
    Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir þessari fsp. sem hér er til umræðu og í fyrri lið er talað um sérstaka skýrslu sem unnin var af hálfu Verkfræðistofunnar Vistu og hvernig fram hafi verið fylgt þeim hugmyndum sem þar voru settar á blað. Sem svar við því vil ég greina frá að það varð að samkomulagi sl. sumar milli ráðuneytisins, Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði, framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og Verkfræðistofunnar Vistu að verkfræðistofan gerði framkvæmdaáætlun um aðgerðir til orkusparnaðar á sjúkrahúsinu. Þau atriði sem þegar hafa komið til framkvæmda af ábendingum verkfræðistofunnar eru eftirfarandi:
    1. Lokað var fyrir snjóbræðslukerfi að þeirra tillögu.
    2. Hiti almennt í sjúkrahúsinu var lækkaður um tvær gráður, úr 23 gráðum í 21 gráðu, nema á legudeild.
    3. Dregið var úr lýsingu almennt í sjúkrahúsinu með því að fækka ljósaperum.
    4. Vinnu í eldhúsi og þvottahúsi var hagað þannig að ekki séu ræst straumfrek tæki á sama hálftíma vegna þess að raforka er keypt af Orkubúi Vestfjarða á afltaxta og því nauðsynlegt að halda afltoppi svo lágum sem unnt er.
    5. Þrír kælar eru í sjúkrahúsinu en ekki er nauðsynlegt að nota nema tvo meðan sjúklinga- og starfsmannafjöldi er sá sem nú er.
    6. Vatnshiti á heitu vatni hefur verið lækkaður um 7 gráður í u.þ.b. 50 nú.
    7. Því miður háttar svo til að útihurðir hússins, þessa nýja húss, eru mjög óþéttar og þarf reyndar að skipta um þær ef vel á að vera. Því fylgir mikill kostnaður en á meðan þetta ástand er þá er auðvitað reynt að gæta þess að útidyrnar séu þó þannig að þær standi ekki opnar eða þær séu eins þéttar og kostur er miðað við þennan ófullnægjandi búnað.
    8. Rætt hefur verið við allt starfsfólk um að forðast bæði óþarfa eyðslu rafmagns og vatns.
    9. Dregið hefur verið úr afköstum loftræstikerfa og loftræsting stoppuð að næturlagi nema í undantekningartilvikum. Loftskipti á skrifstofum,

þjónustugöngum og í ýmsum minni herbergjum hafa verið minnkuð.
    Verkfræðistofan gerði tillögur um hagkvæmari kaup á heitu vatni frá Orkubúi Vestfjarða og var sótt um það til Orkubúsins að fá að kaupa vatn með rennslismæli eins og áður var og á sambærilegum kjörum og giltu fram til 6. des. 1988. Orkubú Vestfjarða synjaði þessari beiðni Fjórðungssjúkrahússins en boðið var upp á annan taxta, enda mundi sjúkrahúsið þá setja upp millihitara og kosta dælingu. Breyting af þessu tagi mundi lækka orkukostnað verulega en kostnaður við breytinguna er áætlaður liðlega 2 millj. kr. og er reyndar líklegt að þessi breyting skilaði sér á einu og hálfu til tveimur árum. Því miður er þó ekki fjármagn til þessara hluta nú og vantar auðvitað verulega fjármuni enn til þess að ljúka við ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði.
    Annar liður fsp. hv. þm. er svohljóðandi: ,,Hefur heilbrigðisráðherra í hyggju að láta gera sams konar athuganir á orkunotkun annarra sjúkrahúsa í landinu?``
    Flutt var í Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði 10. mars 1989, þ.e. þann hlutann sem seinast var tekinn í notkun af húsinu, og fyrsta heila árið í notkun verður því þetta ár, árið 1990. Það verður kannað og reynt að fylgjast með því hvaða sparnaður hefur náðst fram með þeim breytingum sem Vista lagði til og þegar hafa verið gerðar og eftir það munum við reyna að meta og taka ákvörðun um hvort reynslan af þessum orkusparnaðaraðgerðum er sú að við teljum ástæðu til þess að láta gera úttekt svipaða þessari á öðrum stöðum. Ég tel að það sé rétt að gera það en vil þó vera viss um, eftir að hafa nokkurn samanburð við rekstur í fyrra og rekstur í ár, hverju þetta kann að hafa skilað. Auðvitað geta einstakar sparnaðarleiðir leitt til kostnaðar á öðrum sviðum. Það að loka fyrir snjóbræðslukerfi gæti kallað á það að auka þyrfti kostnað við snjómokstur svo að eitt lítið dæmi sé nefnt.
    Annað sem ég tel að sé mjög nauðsynlegt að hafa í huga varðandi orkukostnað allan er að að því sé hugað strax við hönnun og byggingu stofnana en ég óttast að því miður sé, stundum a.m.k., ekki nægjanlega vel hugað að slíkum hlutum.
    Þá er auðvitað ábyrgð stjórnenda og starfsfólks ávallt mikil, eða alla
jafnan, í þessu sambandi, og spurning er hvort þurfi eða sé ástæða til þess að kaupa dýra ráðgjöf til þess að segja stjórnendum, a.m.k. í sumum tilfellum, sjálfsagða hluti, eins og hv. fyrirspyrjandi reyndar taldi hér upp í sínu máli áðan, um fundi með starfsfólki, að brýna fyrir starfsfólki að gæta sín varðandi orkueyðslu og annað slíkt. Þetta eru náttúrlega hlutir sem á ekki að þurfa að kaupa ráðgjafa til að benda á.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá er það svo að orka er auðvitað mjög misjafnlega dýr á hinum einstöku svæðum og þess vegna er kannski ástæðan til að horfa til þess þáttar misjafnlega mikil. Auðvitað þarf að gera það alls staðar. Óþarfa orkunotkun er auðvitað alls

staðar ástæðulaus, hvort sem orkan er dýr eða ódýr. En í sumum tilfellum, eins og kannski kom fram í svari frá Orkubúi Vestfjarða og viðbrögðum, horfa menn auðvitað til þess að ef breytt er töxtum og dregið úr greiðslum einstakra stofnana þýðir það auðvitað að menn þurfa þá að auka kostnað einhvers staðar annars staðar. Þá færist kostnaðarbyrðin aðeins til milli neytenda. Það þýðir ekki lækkun hjá orkuveitunum.