Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans og vona að það takist að ná fram öllum þeim þáttum sem hér voru nefndir sem eru liðir í því að ná niður þessum kostnaði. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðurnar þegar upp er staðið að loknum heils árs rekstri með þeim aðgerðum sem gripið verður til eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. Auðvitað er þetta dæmi einmitt dregið út vegna þess að fyrir liggur skýrsla. Þetta snertir auðvitað mjög margt annað og ekki einungis heilbrigðisstofnanir. Ég vil taka undir orð hv. 2. þm. Austurl. um það að auðvitað eru ekki rök í þessu máli að offramleiðsla sé á raforku í landinu. Við komum enn og aftur að því sem heilbrrh. reyndar minntist á sjálfur, þ.e. frumábyrgðinni, frumábyrgð við hönnun, t.d. þeirra sem hanna og byggja hús, og einnig frumábyrgð þeirra sem standa fyrir virkjunarframkvæmdum. Það er mikilvægt að hugsað sé og litið til framtíðarinnar með tilliti til orkuþarfar og nýtingar en ekki að verið sé að virkja einungis til þess að eiga umframorku. Það er ekki neinn tilgangur í því.
    Hv. 2. þm. Vestf. minntist á hver væri stefna Kvennalistans gagnvart aðgengi sjúklinga eða þeirra sem þyrftu á endurhæfingu að halda í slíkum sjúkrahúsum. Hvorki við né aðrir þingflokkar höfum flutt um það sérstakar tillögur eða gefið út stefnuyfirlýsingar um það hér á þingi eða annars staðar, en hins vegar veit hv. 2. þm. Vestf. það jafn vel og ég að í því fannfergi sem núna er á Vestfjörðum dugir svona snjóbræðsla skammt. Allir eru auðvitað sammála um að mjög mikilvægt sé að aðgengi sjúklinga og annarra sem þurfa að komast inn í stofnanir sem sjúkrahús og reyndar hvaða aðrar stofnanir sem er sé sem öruggast. Eftir stendur auðvitað spurningin um það hvort það séu rök í málinu að ríkisstofnanir kaupi raforku á hvaða verði sem er, einungis vegna þess að þær eru að versla við aðra ríkisstofnun. Það held ég að við getum ekki litið á sem rök í þessu máli. Það hlýtur því að vera mikilvægast að gerðar séu áætlanir strax í upphafi, hvort sem er um hönnun eða byggingu húsa, svo og virkjunarframkvæmdir.