Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er á misskilningi byggt ef hv. fyrirspyrjandi telur mig víkjast undan ábyrgð á því að erindum sé svarað sem berast til varnarmálaskrifstofu eða utanrrn. Það kom skýrt fram í mínu svari hér áðan að ef þar hefur orðið misbrestur á mun ég kanna það og gera ráðstafanir til þess að bæta úr því. Meira get ég ekki um það sagt vegna þess að um það er mér ekki nákvæmlega kunnugt.
    Að því er varðar efnisatriðin sjálf er engu við að bæta þær upplýsingar sem fram komu strax á sl. hausti þegar þessi mál voru til umræðu. Ég tel mig hafa fyrir því traustar heimildir, m.a. frá þeirri verkfræðistofu sem ég vitnaði í áðan, að hér sé vel og tryggilega um hnútana búið. Það kom rækilega fram í svari mínu og er ekki nokkur ástæða til að vefengja að Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hafi sinnt skyldum sínum varðandi eftirlit með framkvæmdinni. Það er ekki mitt að svara því hvers vegna hæstv. samgrh. leitar til Siglingamálastofnunar um sérstaka könnun. Það er hans að svara því en það er þó eðlilegt af þeirri einföldu ástæðu að sú stofnun heyrir undir hann.
    Áhyggjum af því að hér sé slaklega um hnútana búið að því er varðar öryggis- og mengunarmál tel ég að ég hafi svarað og það eru efnisleg rök fyrir því að þarna sé raunverulega, að því er varðar mannvirkið og gerð þess, þannig að málum staðið að öryggið eigi að vera meira en krafist er af íslenskum stöðlum og reglum.