Afgreiðsla erlends gjaldeyris
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hleypa mér að með þessa spurningu á undan öðrum sem á sér ástæður sem ég fæ ekki við ráðið og ég vona að hv. þm. fyrirgefi það.
    Ég hef gert hér að fyrirspurnarefni gjaldeyrisviðskipti með greiðslukortum. Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um greiðslukortastarfsemi gegnum árin hér í þinginu og sjaldnast fengið miklar undirtektir við þær áhyggjur mínar sem ég lýsti hér strax þegar greiðslukortastarfsemi hófst. Hinn 11. mars 1980 bar ég fram fsp. í þinginu um hvort leyfi þyrfti frá stjórnvöldum til að stofna til greiðslukortaviðskipta. Hafði þáv. hæstv. viðskrh. þá góð orð um að lagafrv. yrði fljótlega borið fram varðandi þessi viðskipti og þessa umfangsmiklu lánastarfsemi sem hófst án þess að í raun og veru nokkur hefði á því stjórn.
    Á árinu 1984 spurði ég enn hvað liði löggjöf um greiðslukortastarfsemi og fékk þau svör þá einnig að nú væri skammt í hana. Sú löggjöf er nú fyrst að sjá dagsins ljós en eins og kunnugt er var í nóvember lagt hér fram frv. til laga um greiðslukortastarfsemi og er það mál nú statt í hv. fjh.- og viðskn. Ed. án þess að það hafi enn verið afgreitt.
    Ég hafði ýmislegt við þessa umfangsmiklu viðskiptastarfsemi að athuga, svo sem að hún hlyti óhjákvæmilega að leiða til hærra vöruverðs og gjörbreyta öllum fjárhag manna sem svo sannarlega hefur sýnt sig. Ég hef hins vegar að þessu sinni gert að fsp. hvernig háttað sé stjórnun á eyðslu gjaldeyris, en eins og kunnugt er sýnast ekki vera miklar hömlur á því hve miklu menn geta eytt af erlendum gjaldeyri þjóðarinnar með því einu að fara til útlanda með greiðslukortið sitt.
    Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 514 að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. í fyrsta lagi um hvaða reglur gildi um leyfilegar upphæðir í erlendum gjaldeyri sem einstaklingar sækja um vegna utanlandsferða hér heima í bönkum, í öðru lagi hvort sambærilegar reglur gildi varðandi afgreiðslu erlends gjaldeyris með greiðslukortum, í þriðja lagi hve háa fjárhæð bankar og sparisjóðir afgreiddu í ferðagjaldeyri árin 1988 og 1989 og í fjórða lagi hve mikilli upphæð var eytt í erlendum gjaldeyri á sama tíma með greiðslukortum.