Afgreiðsla erlends gjaldeyris
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 13. þm. Reykv. gerir hér fsp. um afgreiðslu á erlendum gjaldeyri í fjórum liðum.
    Í fyrsta lagi er spurt hvaða reglur gildi um leyfilegar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri sem einstaklingar sækja um vegna utanlandsferða.
    Svarið er að samkvæmt gildandi reglum er leyfilegur gjaldeyrir til ferðalaga erlendis allt að jafnvirði 2000 bandaríkjadala í hverri ferð en börn innan 12 ára aldurs fá hálfa þá fjárhæð.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort sambærilegar reglur séu í gildi varðandi afgreiðslu erlends gjaldeyris með greiðslukortum.
    Því er til að svara að noti ferðamaður greiðslukort erlendis má heildarnotkun gjaldeyris ekki fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem er í gildi á hverjum tíma fyrir hverja ferð. Þetta er hin almenna regla. Þeir sem vegna starfa sinna erlendis, viðskiptaerinda eða fundahalda og annarra slíkra erinda hafa þörf fyrir hærri fjárhæð geta hins vegar fengið úttektarheimild samkvæmt reglum sem samstarfsnefnd um gjaldeyrismál setur. Það liggur í hlutarins eðli að þegar greitt er með greiðslukorti er ekki auðvelt að tengja saman ferð og greiðslu þannig að forsendur til þess að líta eftir þessum reglum breytast nokkuð með notkun greiðslukortanna. Ég tel þar nú reyndar ekki mikla hættu á ferðum.
    Ég vil taka það fram til frekari skýringar að ferða- og dvalarkostnaður, eins og ég sagði áðan, í útlöndum er nú leyfður allt að 2000 bandaríkjadölum í hverri ferð en í viðskiptaferðum hefur til hægðarauka verið sett tvöfalt hærri fjárhæð.
    Um námskostnað gilda þær reglur að yfirfærsla á námsmannagjaldeyri er háð því skilyrði að nám erlendis standi í meira en sex mánuði á ári. Fjárhæðin er ákveðin eftir því í hvaða landi námsmaðurinn dvelur, m.a. með hliðsjón af framfærslukostnaðaráætlunum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Samstarfsnefnd um
gjaldeyrismál tilkynnir bönkum og sparisjóðum í samráði við Lánasjóðinn hvaða fjárhæðir gildi fyrir hvert land. Þurfi námsmaður að sjá fyrir heimili erlendis hækkar þessi heimild um 50% vegna maka og um 20% fyrir hvert barn sem er á framfæri hans. Þá er heimilt að yfirfæra skólagjöld og dýrari námsgögn sérstaklega.
    Í sérstökum reglum samstarfsnefndar um gjaldeyrismál er einnig getið um hámarksyfirfærslur í gjaldeyrisgreiðslum vegna ýmissa annarra atriða, svo sem vegna höfundarlauna, leigugreiðslna, flutningskostnaðar og fleira af því tagi.
    Ég ætla ekki að tíunda þetta frekar hér en segi beinlínis að greiðslukortin hafa að nokkru leyti breytt forsendum reglna af þessu tagi. Það er t.d. alveg víst að margir námsmenn hafa útvegað sér greiðslukort sem eins konar tryggingu fyrir því að geta greitt ef eitthvað kemur óvænt upp á í þeirra búrekstri. Þetta tel ég eðlilegt og alls ekki neitt sem menn þurfa að hafa áhyggjur af. Ég kem að því síðar þegar ég svara

þriðju og fjórðu spurningunni, en þar er spurt hversu háa fjárhæð bankar og sparisjóðir hafi afgreitt í ferðagjaldeyri árið 1988 og 1989.
    Samkvæmt upplýsingum gjaldeyriseftirlitsins afgreiddu bankar og sparisjóðir ferðagjaldeyri fyrir samtals 9,1 milljarð króna árið 1988 og árið 1989 fyrir 10,6 milljarða. Greiðslukortagreiðslur voru árið 1988 af þessari fjárhæð 3,4 milljarðar en árið 1989 4,7 milljarðar. Hækkunin milli ára á heildargreiðslum er um 16,5% í íslenskum krónum, á sama tíma og hækkun á verði erlends gjaldeyris hefur að jafnaði verið tæplega 26%. Hér er því um 7,5% raunverulega minnkun í gjaldeyrisnotkun að ræða. Hlutur greiðslukortanna hefur hins vegar aukist úr 37,4% af heildarfjárhæðinni 1988 í 44,3% árið 1989. Og hef ég þá um leið svarað fjórðu spurningunni.
    Ég tel að vaxandi hlutur greiðslukorta sé í raun og veru spegilmynd af því sem hefur verið að gerast hérlendis, að greiðslukortin eru orðin miklu algengari miðill en var. Ég sé ekki ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af því í erlendum viðskiptum en ég vildi þakka hv. fyrirspyrjanda, 13. þm. Reykv., sérstaklega fyrir það að hafa stutt að því að það frv. sem nú liggur fyrir hv. Ed. um greiðslukortastarfsemi fái skjóta en vandaða meðferð í þinginu.