Afgreiðsla erlends gjaldeyris
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Mér finnst gæta undarlegs tóns í málflutningi fyrirspyrjanda hér, tóns sem ég hélt nú satt að segja að væri löngu horfinn úr sölum Alþingis og heyrði til hugsunarhætti löngu liðins tíma, um að það skorti hér eitthvert eftirlit og þurfi miklu strangari reglur um yfirfærslu ferðamannagjaldeyris og notkun greiðslukorta í því sambandi. Það er alveg furðulegt að heyra slíkan málflutning, enda kom það fram í máli ráðherra að hann í það minnsta hefur engar áhyggjur af að það sé ekki nóg eftirlit með þessum hlutum. Það þarf ekkert sérstakt eftirlit með þessu. Gjaldeyrisnotkunin í þessu efni, eins og kom fram í máli ráðherra, hefur verið 9--10 milljarðar undanfarin ár, og þar af 3--4 eða rúmlega það, í gegnum greiðslukort af kannski lauslega áætlaðri 150 milljarða gjaldeyrisnotkun þjóðarbúsins í heild. Ég hef ekki þá tölu nákvæmlega, en mér dettur í hug að hún geti verið á því bili.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að það er ekki bara erfitt að hafa mikið eftirlit með gjaldeyrisnotkun Íslendinga á ferðalögum erlendis. Það er meira og minna alveg ástæðulaust. 2000 dollara yfirfærsla fyrir ferð gildir jafnt hvort sem ferð er einn dagur eða sex vikur þannig að hv. fyrirspyrjandi gáði nú ekki að því að jafnvel þó að menn gæti ýtrustu reglna geta menn fengið mjög háar fjárhæðir yfirfærðar ef þeir fara oft til útlanda í ferðalög. Ég tala nú ekki um ef það er í viðskiptaerindum eða því um líku. Ég lýsi þess vegna furðu minni yfir þessum málflutningi og þeim tóni sem hann einkennist af en fagna upplýsingum og afstöðu ráðherrans í málinu.