Niðurskurður vegna riðuveiki
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Elín R. Líndal):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. greinargóð svör. Það er vissulega ánægjuefni ef árangur verður brátt sýnilegur í baráttunni við riðuveikina í ljósi þess hversu mikið hagsmunamál allra sauðfjárbænda í landinu þarna er á ferðinni.
    Í upplýsingum hæstv. ráðherra kom fram að nokkuð stór hluti þeirra bænda sem skorið hefur verið niður hjá hverfur frá búskap og sennilega í ýmsum tilfellum einnig frá búsetu. Þótt slíkt dragi úr kindakjötsframleiðslu er afar óheppilegt að það gerist með svo tilviljanakenndum hætti sem háttalag riðuveikinnar er og getur þá náttúrlega haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar upp á búsetu að gera.
    Ég tel stéttarvitund bænda vissulega mjög sterka. Þeir hafa á síðustu árum lagt sitt af mörkum við útrýmingu riðuveiki og er ekki ástæða til að ætla að riðu sé haldið leyndri. En bótasamningur sem mönnum finnst vera ógnun við afkomu sína eykur vissulega hættuna á að slíkt gæti gerst og þar með glatist það sem áunnist hefur í þessum riðuniðurskurði. Ég tel, og ætla að koma aftur að því, að það væri mikið sanngirnismál að bæturnar yrðu miðaðar við fullvirðisrétt viðkomandi og jöfnuðu þannig aðstöðumuninn.
    Mér skildist á svari ráðherra að þeir fengju yfirlýsingu um það núna að þeir yrðu ekki skertir meira en aðrir þegar þessu yrði lokið. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju það megi ekki vera afdráttarlaust inni í samningnum. Ef ég skildi það rétt er bara um yfirlýsingu að ræða. Það er mikill ótti hjá bændum þegar þeir skera niður að ekki verði tekið tillit til þessa.
    Að lokum fagna ég því að þessi nefnd verði skipuð og vonast til að sérstaklega verði lögð áhersla á riðuveikimálin.