Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Á fundi Alþingis 21. des. sl. lýsti hæstv. forsrh. því yfir að sendiherra Bandaríkjanna hefði farið út fyrir þau mörk sem hefð og venjur, svo og 41. gr. Vínarsáttmálans setja erlendum sendimönnum. Tilefni þessarar yfirlýsingar var viðtal sem hinn skeleggi og kunni blaðamaður Agnes Bragadóttir átti við sendiherra Bandaríkjanna og birtist í Morgunblaðinu.
    Nú er það svo að það er býsna stór og mikil yfirlýsing þegar forsrh. stendur upp á Alþingi Íslendinga og lýsir því yfir að sendiherra erlends ríkis hafi brotið gegn hefðum og 41. gr. Vínarsáttmálans og á þann veg hlutast til um innanríkismálefni landsins. Aðspurður í umræðu þennan dag sagði forsrh. að hann teldi ekki ástæðu til þess að afþakka afskipti sendiherra Bandaríkjanna af öðrum málum svo sem aðstoð sendiherra Bandaríkjanna um að við kæmumst í nánara samband við áliðjufyrirtæki í Bandaríkjunum. Það er að vísu líka umdeilt mál hér innan lands en hæstv. forsrh. sagði að slíkar umræður hefðu farið fram í einkasamtölum við ráðherra og það væri ekki hægt að gera athugasemdir við þó sendimenn hefðu þann hátt á. En hitt væri óafsakanlegt, þegar þau kæmu fram í blöðum.
    Þegar yfirlýsing af þessu tagi er gefin hlýtur að vakna sú spurning með hverjum hætti henni hafi verið fylgt eftir. Það er nánast óhugsandi að svo stór yfirlýsing sé gefin í garð sendimanna erlends ríkis nema henni sé fylgt eftir, ella er hún markleysa. Þess vegna hef ég spurt hæstv. utanrrh. að því hvort yfirlýsingunni hafi verið fylgt eftir með aðgerðum af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar eða hvort hún hafi litið á yfirlýsinguna sem markleysu.