Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. skýrði frá því úr þessum ræðustól hér áðan að hann hefði kvatt sendiherra Bandaríkjanna á sinn fund þann 17. jan., átt við hann viðræður og heyrði ég ekki betur á máli hans en hann hefði lýst þeim viðræðum sem jákvæðum. Ef spurt er um viðbrögð ríkisstjórnar í framhaldi af þessu máli, þá er því fljótsvarað. Þau eru engin af þeirri einföldu ástæðu að mál af þessu tagi eru á verksviði utanrrh. en ekki ríkisstjórnar.
    Málið kom lauslega til umræðu á ríkisstjórnarfundi 29. des. Á þeim fundi staðfesti ég að viðbrögð starfandi utanrrh. á umræddum tíma, 21. des., þegar hann lýsti því yfir hér í ræðustól að hann teldi ekki ástæðu til þess að líta á ummæli sendiherrans í blaðaviðtali sem afskipti af íslenskum utanríkismálum, túlkuðu rétt afstöðu utanrrn. Ég hefði að vandlega athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að hér væri ekki um að ræða brot á 41. gr. Vínarsáttmálans og ég mundi því ekki sem utanrrh. hafa nein afskipti af því máli. Rökin eru fyrst og fremst þau að í umræddu blaðaviðtali lýsti sendiherrann afstöðu sinna stjórnvalda í tveimur málum. Annað varðaði álmálið en þar hafa íslensk stjórnvöld með formlegum og eðlilegum hætti leitað eftir samstarfi við bandarískan aðila, þannig að hér er um að ræða samskiptamál ríkjanna. Hitt málið var umræða um breytt viðhorf í framtíðinni varðandi afvopnunarmál þar sem sendiherrann lýsti þeirri skoðun sinni að varaflugvöllur á Íslandi kynni að gegna mikilvægu hlutverki ef Íslandi yrði falið það verkefni að annast eftirlit með framkvæmd afvopnunarsamninga.
    Nú er því til að svara að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum m.a. frá bandarískum stjórnvöldum, en í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu, um að mega framkvæma forkönnun að því er varðar þennan varaflugvöll, reyndar án allra skuldbindinga um framkvæmdir. Þeirri spurningu
hefur enn ekki verið svarað með formlegum hætti af íslenskum stjórnvöldum. Hér er líka um að ræða samskiptamál þannig að niðurstaða okkar í utanrrn. var sú að hér væri ekki um að ræða íhlutun í íslensk innanríkismál heldur væri sendiherrann að tjá sig um mál sem væru á dagskrá sem samskiptamál ríkjanna. Þess vegna væru ekki rök fyrir því að hér væri um að ræða brot á Vínarsáttmála. Niðurstaða þessa máls er einfaldlega sú að af minni hálfu sem utanrrh. kom það fram þegar í umræðunum að ég teldi ekki efni til slíkra viðbragða. En forsrh. hefur þegar gert grein fyrir þeim viðræðum sem hann hefur átt við sendiherrann og af þeim ummælum var ljóst að þau samskipti eru með eðlilegum hætti sem betur fer.