Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Spurningin um það hvort um sé að ræða brot á tilteknu ákvæði Vínarsáttmálans um réttindi og skyldur sendimanna er spurning sem utanrrn. og utanrrh. sem slíkur hlýtur að fjalla um. Ég hef einungis skýrt frá minni niðurstöðu í því efni. Hitt er svo annað mál að forsrh. taldi og skýrði frá því hér úr þessum ræðustól að þessi ummæli væru óheppileg vegna þess að þar hefði sendiherrann vikið að viðkvæmu deilumáli sem mjög væru skiptar skoðanir um milli íslenskra stjórnmálaflokka og jafnvel innan ríkisstjórnar. Það tel ég kjarna málsins að því er varðar afstöðu forsrh. og ég efa ekki að það er sá þáttur málsins sem hann ræddi við bandaríska sendiherrann og kom aðfinnslum sínum þannig á framfæri, en skv. frásögn hans af þeim samtölum hefur þetta mál ekki orðið til þess að spilla samskiptum við umræddan sendiherra eða samskiptum við Bandaríkin á nokkurn hátt þannig að þeim ábendingum hefur verið vel tekið og málið að því leyti útkljáð.