Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil óska eftir því að hæstv. viðskrh. verði kallaður til fundarins. Ég þarf að bera fram fsp. til hans um þingmál. ( Forseti: Á hv. 1. þm. Suðurl. við að hann ætli að ræða þingsköp þar sem hæstv. viðskrh. þurfi að vera viðstaddur?) Já, það er rétt skilið. ( Forseti: Þá mun forseti gera tilraun til að kalla hæstv. viðskrh. hér í salinn.) Er ekki hægt að gera hlé á fundinum þar til hæstv. ráðherra kemur? ( Forseti: Ég held að gera megi ráð fyrir því að hæstv. ráðherra birtist fljótlega en ef hv. þm. vill setjast í sæti sitt á meðan, þá er það að meinalausu.) Það er vel þegið.
    Frú forseti. Fyrir jólaleyfi þingmanna báru nokkrir þingmenn, samkvæmt ákvæðum þingskapa, fram beiðni um að hæstv. viðskrh. gerði skýrslu um fyrirhuguð kaup Landsbankans á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubankanum. Í beiðni þessari var jafnframt farið fram á að gerð yrði nákvæm grein fyrir tilteknum atriðum og þar á meðal viðhorfum Ríkisendurskoðunar vegna þess að áður hafði fram komið að hæstv. viðskrh. taldi málið þess eðlis að nauðsynlegt væri að Ríkisendurskoðun athugaði það.
    Nú er liðinn allnokkur tími síðan skýrslubeiðni þessi var lögð fram hér á Alþingi. Að vísu er það svo að í þingsköpum eru ráðherrum ekki sett tímamörk varðandi það hvenær skýrslum samkvæmt slíkum beiðnum á að skila. Eigi að síður þykir mér einsýnt að sá tími er liðinn sem hæstv. ráðherra hefur þurft til að gera skýrslu af þessu tagi. Þær spurningar sem fram eru bornar eru þess eðlis að á þessum tíma á að hafa verið unnt að afla allra gagna og birta skýrsluna hér á hinu háa Alþingi nema ef vera skyldi að einhverjir aðilar málsins hafi tregðast við að gefa upplýsingar. En ég vona að sú sé ekki ástæða þess að skýrslan er ekki enn komin. Fsp. mín til hæstv. ráðherra er sú hvenær vænta megi að skýrslan verði lögð hér fram þannig að umræður geti farið fram um hana hér á þinginu.