Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að hæstv. iðnrh. segir að þær upplýsingar sem gefnar hafi verið frá rafveitunum og Landsvirkjun um hvaða áhrif frv. sem nú liggur fyrir Ed. hefur séu rangar, þær séu fjarri öllu lagi. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því, hæstv. forseti, að ríkisskattstjóri reikni út þau áhrif sem frv. hefur eins og það er nú, óbreytt. Þá mun það verða upplýst hver hefur rangt fyrir sér, þeir löggiltu endurskoðendur sem hafa lagt fram rökstuddar greinargerðir til stjórnar Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja eða hvort það er rétt sem hæstv. iðnrh. segir nú að það sé fjarri öllu lagi sem þessir löggiltu endurskoðendur hafa látið frá sér fara. Það sýnir einungis skarpskyggni hæstv. iðnrh. ef svo er að hann hefur rétt fyrir sér en hinir löggiltu endurskoðendur rangt.
    Ég vil í öðru lagi vekja athygli á því að ég hafði óskað eftir því við forseta Ed. að þetta frv. kæmi til umræðu í Ed. í dag og mun að sjálfsögðu gera athugasemdir við hann á eftir úr því að í ljós er komið að hæstv. iðnrh. var fús til umræðunnar. Þá var auðvitað alveg sjálfsagt að kalla saman fund í Ed. í dag en ég mun að sjálfsögðu spyrja hæstv. forseta Ed. hvernig á því megi standa að hann hafi þá ekki orðið við beiðni stjórnarandstöðunnar.
    Ég vil í þriðja lagi vekja athygli á því að hæstv. iðnrh. talaði um að nauðsynlegt væri að taka til athugunar opinber afskipti af verðlagningu á orku. Ég er ekki með orðrétt það sem hæstv. ráðherra sagði en þessi var merking orða hans. Ég held að óhjákvæmilegt sé af þessu tilefni að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir aðgerðum sem eigi að koma í veg fyrir frjálsa verðákvörðun orkufyrirtækja, hvort hann hafi í undirbúningi eða hafi ákveðið að taka af skarið um það að það verði á valdi iðnrn. eða ríkisstjórnar á hverjum tíma hvort orkufyrirtæki megi hækka sína gjaldskrá. Ég óska eftir að hæstv. iðnrh. svari þessu. Orð hans voru sögð með þeim hætti að hann gaf í skyn að verðákvörðun á orku yrði tekin úr höndum orkufyrirtækjanna. Ber að skilja orð hæstv. iðnrh. svo?