Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst vildi ég ítreka það sem fram kom hér í þingskapaumræðunni fyrr að ég hef lýst mig reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðum um þetta tiltekna þingmál í hv. Ed. í dag eða reyndar fyrr í dag eða í þessari viku. Því miður var ég staddur erlendis vegna löngu tekinnar ákvörðunar um opinbera heimsókn þegar 1. umr. fór fram í hv. Ed. um málið sem hér er til umræðu sem þingskapamál.
    Í öðru lagi vildi ég svara beinni spurningu hv. 2. þm. Norðurl. e. um það hvað ég hafi átt við þegar ég talaði um það að nauðsynlegt væri að kanna sem vendilegast afskipti hins opinbera af verðmyndun á orku. Svarið við spurningu hans er nei. Ég átti ekki við það að ríkið ætti að taka í sínar hendur þessar ákvarðanir. Það sem ég átti við var að fram færi greining á því hver áhrif skattlagning, niðurgreiðslur, tollar og önnur gjöld sem það opinbera stendur fyrir hafi á verðhlutföll og verðmyndun orkunnar í landinu. Þetta er nauðsynlegt verk og er reyndar að því unnið á vegum iðnrn., og ég hyggst kynna þinginu niðurstöður þeirrar athugunar þegar hún liggur fyrir.
    Í þriðja lagi vildi ég víkja að því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. um afturköllun frv. Þetta er frv. fjmrh. Það er ekki á mínu valdi að afturkalla það. Ég vildi hins vegar benda hv. 1. þm. Reykv. á það í allri vinsemd að það er alls ekki fordæmalaust að fram hafi komið stjórnarfrumvörp í þinginu sem ekki er fullkomin eining um. Ég minni hann sjálfan sem fyrrv. iðnrh. á frumvörp af því tagi sem hann sjálfur flutti og ekki náðu fram að ganga vegna þess að stjórnarflokkar sem að þeirri stjórn stóðu náðu ekki saman um málið. Þetta nefni ég nú svona í mikilli vinsemd. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Dæmið er að sjálfsögðu frv. um Sementsverksmiðju ríkisins. ( FrS: Var frv. lagt fram á þingi?) En þannig er málið að þetta getur komið fyrir á bestu bæjum. ( FrS: Þetta er misskilningur. Það var aldrei lagt fram.)