Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þá skoðun sem forseti lýsti hér áðan að umræðan stefndi nokkuð í efnisumræður. Þær vil ég forðast því hér eru þingsköp rædd.
    Ég hlýt þó að leiðrétta mál mitt í fyrri ræðu. Ég vil ekki láta það standa óleiðrétt að fyrrv. iðnrh., hv. 1. þm. Reykv., hafi lagt fram frv. sem ekki reyndist síðar samstaða um. Ég hefði líklega átt að taka annað dæmi um frv. sem hv. 1. þm. Suðurl., þá forsrh., flutti um erlenda fjárfestingu í íslenskum atvinnuvegum sem kom fram á þinginu en reyndist síðar ekki hafa fylgi innan stjórnarflokkanna sem dygði því til framgöngu. Þetta vil ég hafa sagt.
    Ég vil líka nefna það vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. e. að lýsing hans á skoðanamyndun minni í málinu er hugarburður hans og hefur ekkert með veruleikann að gera. Fyrirvarar þeir sem ég hef lýst við þetta mál komu fram þegar það var kynnt í ríkisstjórn, þegar það var afgreitt í þingflokki Alþfl. Þetta mun koma fram við meðferð málsins. Þannig er það og því fá engin orð, þótt þeim sé hér hrófað upp af hv. 2. þm. Norðurl. e., breytt.