Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að lengja enn þessa þingskapaumræðu. Hún snýst um tvennt. Í fyrsta lagi hvort eðlilegt hefði verið að halda fund í hv. Ed. til þess að ræða frv. um skattskyldu orkufyrirtækja. Ég vil taka það alveg skýrt fram að ég hef ekki stutt það að slíkur fundur yrði haldinn, en ég mun hins vegar alls ekki skorast undan því að mæta á slíkum fundi kjósi hæstv. forseti Ed. að kveðja til slíks fundar. Það er í hans valdi að gera það.
    Í öðru lagi hefur umræðan snúist um hvenær frv. er stjfrv. og hvenær það er það ekki. Það má vel vera að dæmin sem ég hef tekið séu ekki alveg þau einu réttu. Þó stendur það nú eftir að frv. sem hér var síðast rætt, frv. hv. 1. þm. Suðurl., þáv. forsrh., um fjárfestingu erlendra manna í atvinnurekstri hér á landi, var hér lagt fram sem stjfrv. þótt ekki væri um það samstaða. Í þingsögunni mætti áreiðanlega finna ákaflega mörg stjfrv. þar sem einstakir aðilar að stjórninni hafa lýst meira eða minna sterkum fyrirvörum við frv. en þó fallist á eða samþykkt að það yrði flutt sem stjfrv. Frv. um skattskyldu orkufyrirtækja er eitt þessara frv. Ég gæti ímyndað mér að t.d. ýmis frv. um fiskveiðistjórn á liðinni tíð mundu falla í þennan flokk.
    Það einfalda í málinu er þetta að Alþfl. og ég sem iðnrh. í þessari ríkisstjórn gerðum á fyrstu stigum málsins grein fyrir veigamiklum fyrirvörum okkar við málið eins og það var lagt upp af hálfu fjmrh. þótt við féllumst á að það yrði lagt fram með þeim hætti sem raun ber vitni.