Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu er greinilega eitt afkvæmi þeirra hrossakaupa sem fóru fram sl. sumar þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra án ráðuneytis verði nú umhverfisráðherra án verkefna, og ég verð að segja það að manni blöskrar hvað menn bera litla virðingu fyrir þinginu og þingræðinu að gera þessi hrossakaup svona opinská, en öllu skal nú fórna til þess að þessi ríkisstjórn haldi velli. Það er gamla góða framsóknarmaddaman, afturhaldið í íslenskum stjórnmálum, sem verslar ýmist til hægri eða vinstri eftir því hvernig vindurinn blæs og nú hentar að versla með ráðuneyti og ráðherrastóla. Skiptir þar kostnaður engu máli og virðing fyrir þingræði og vandvirkni.
    Þetta mál kom hér til umræðu fyrr í vetur og þá lofaði hæstv. forsrh. mér því hér úr stól að búið yrði til skipurit fyrir stjórnkerfið, taldi það ekki vera neitt mál þar sem tveir verkfræðingar væru í þessari ríkisstjórn. Ég tek nú undir það að verkfræðingastéttinni er ekki sómi að því ef menn geta ekki látið svo lítið að búa til skipurit yfir stjórnkerfið og þá hvaða málaflokka þetta umhverfisráðuneyti eigi að fara með. Þessi málaflokkur er allt of mikilvægur, umhverfismálin, til þess að hægt sé að gera hann að einhverju hrossakaupamáli sem eigi bara að troða hér í gegnum þingið og nota stjórnarmeirihlutann eins og tuskubrúður, eins og fyrri daginn, þegar verið er að troða hér hækkuðum sköttum inn í þingið, bara til þess að hægt sé að smokra titlinum ,,umhverfisráðherra`` í staðinn fyrir ráðherra án ráðuneytis. Maðurinn er jafnhæstvirtur ráðherra Hagstofu, getur sinnt einhverjum verkefnum fyrir hæstv. ríkisstjórn, nákvæmlega sömu verkefnum í báðum tilvikum, þannig að þetta snýst um einn titil. Og hroðvirknin í fyrirrúmi.
    Ég tel að það sæmi ekki fulltrúum þjóðarinnar hér á löggjafarsamkomunni að samþykkja svona ófagleg vinnubrögð, og ég verð að segja það að mér finnst
þessi málaflokkur vera allt of mikilvægur, t.d. hvað hann tengist sjávarútvegi sem við lifum nú öll á, til þess að nota hann í hrossakaup. Ég ítreka því þá spurningu mína til hæstv. forsrh. hvar þetta skipurit sé sem hann lofaði að yrði gert og óska eftir því að það verði lagt fram við þessa umræðu þannig að menn geti nú rætt þetta málefnalega, og ég mótmæli harðlega svona hrossakaupum.