Stjórnarráð Íslands
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Kolbrún Jónsdóttir:
    Hæstv. forseti. Umræða um umhverfismál og hið nýja ráðuneyti er meðal hinna þýðingarmestu málaflokka í okkar samfélagi. Þetta er í sjálfu sér pólitískt mál þar sem hér er verið að vinna að tilteknum aðgerðum í þessum málum og tryggja framhaldslíf þessarar ríkisstjórnar. Þetta er þáttur í pólitískum aðgerðum og stórauknum útgjöldum ríkissjóðs vegna uppsetningar og reksturs sjálfstæðs ráðuneytis sem betur ætti heima í öðrum ráðuneytum.
    Lífdagar þessarar ríkisstjórnar, ef hún lifir út kjörtímabilið, eru rúmt ár. Gagnrýnin á ríkisstjórnina fyllir öll blöð og dynur í allra eyrum og öllum er tíðrætt um alls konar óþarfa eyðslusemi, bruðl og óráðsíu. Hvernig á almenningur að skilja að stundum er verið að tala um að fækka ráðuneytum og sameina þau, að sjálfsögðu þegar stjórnvöldum hentar? Þegar stjórnvöld þurfa að styrkja stöðu sína eru búin til ný ráðuneyti. Ekki gagnrýni ég þá gagnrýni. Það er mjög útbreidd skoðun um þetta nýja ráðuneyti að þar sé mikill efniságreiningur innan stjórnarflokkanna, enda verða margar umtalsverðar breytingar á stjórnarkerfi okkar við komu þess þar sem flytja þarf fjölmarga málaflokka frá öðrum ráðuneytum undir þetta nýja ráðuneyti. Flestir eru sammála um að ná þurfi betri stjórn á þessum málaflokki. Það hefur margoft verið sagt að mengun virði engin landamæri. Loftmengun er alþjóðlegt vandamál sem enginn má loka augunum fyrir hvað varðar áhrif loftmengunar á líf manna.
    Þegar veður er stillt í höfuðborginni má sjá gulbrúna þoku yfir Reykjavík. Sótmenguð ský eru farin að svífa yfir. Mælingar sem gerðar hafa verið á vegum mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins hafa leitt í ljós að loftmengun yfir höfuðborginni hefur farið vaxandi á undanförnum árum og virðist haldast í hendur við fjölda bifreiða á síðustu árum. Ólafur Pétursson efnaverkfræðingur og forstöðumaður mengunarvarna hefur gengið frá tillögu að nýrri reglugerð sem nær til allrar mengunar ytra umhverfis. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að í framtíðinni verði bifreiðar búnar sérstökum hreinsunartækjum til þess að draga úr mengun af völdum útblásturs, eins og bíll hæstv. ráðherra Júlíusar Sólnes er einmitt útbúinn. Það ákvæði er í samræmi við nýju norrænu umhverfismálaáætlunina sem Íslendingar hafa undirritað. Hvað varðar loftmengun í Reykjavík beinist eftirlitið annars vegar að stórum verksmiðjum sem eru starfsleyfisskyldar og mengunarvarnir gera starfsleyfistillögur fyrir slík fyrirtæki. Í þeim koma fram kröfur um mengunarvarnabúnað og viðmiðunarmörk þess magns af úrgangsefnum sem viðkomandi verksmiðjur mega sleppa út í umhverfið.
    Undir þessi ákvæði falla Sementsverksmiðjan, Áburðarverksmiðjan, Steinullarverksmiðjan, fiskimjölsverksmiðjur og fiskeldisfyrirtæki. Á hinn bóginn fylgjast mengunarvarnir með smærri mengunaruppsprettum sem valda lítilli loftmengun hver um sig, en safnast þegar saman kemur. Loftmengun hér á landi mældist minni á sumrin en á

veturna. Það stafar af veðurfarsþáttum og áhrifum gróðurs en gróður dregur talsvert úr styrk mengunarefna í loftinu. Á veturna setur kaldur loftmassi sig oft niður við landið og safnar í sig mengunarefnum sem koma fram í mælingum. Þetta kalda loft blandast ekki heitara og léttara lofti sem er fyrir ofan eins og á sér stað á sumrin þegar landið hitnar. Úrkoma hreinsar mengunarefnin úr loftinu. Ef vindasamt er dreifist mengunin. Mælingar mengunarvarna benda til að tiltölulega lítil loftmengun sé í landinu í heild utan höfuðborgarsvæðisins. Margir kvarta til Hollustuverndar
undan óþægindum vegna mengunar. Menn eru misnæmir fyrir loftmengun. Fullfrískt fólk þolir talsvert mikla loftmengun og ætti tæpast að verða fyrir heilsufarslegum áhrifum vegna þeirrar mengunar sem hér er. Þeir sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir mengun eru lítil börn og fólk sem hefur hjartasjúkdóma, asma eða aðra lungnasjúkdóma. Hætt er við að líðan þessa fólks versni þegar mengun eykst, jafnvel þó hún sé innan viðmiðunarmarka, enda kvarta margir undan vanlíðan við slíkar aðstæður.
    Árið 1985 hófust fyrstu samfelldu loftmengunarmælingarnar sem gerðar hafa verið í Reykjavík á vegum Hollustuverndar ríkisins. Ekki hefur reynst unnt að fá fjárveitingu til víðtækari mælinga og því eingöngu um rykmælingar að ræða sem eigi að síður gefa mikilvæga vitneskju. Þessi vandi krefst úrlausnar og aðgerða allra þjóða, einnig Íslendinga.
    Umhverfismál eiga sér langa sögu. Viðleitni til að skipa þeim í ákveðinn farveg hefur í raun staðið allan þennan áratug en ekki hefur náðst samstaða um það með hvaða hætti og hvernig þessum málum skyldi fyrir komið. Það er vafalaust svo að skipan þessara mála var á sumum sviðum orðin allgóð. En alltaf má gera betur en verið hefur bæði á landi og sjó varðandi mengun, t.d. á hafsvæðum þar sem við eigum meira í húfi en nokkur önnur þjóð. Á alþjóðavettvangi er afar mikilvægt að ímynd Íslands sé hreint og óspillt land, m.a. vegna útflutnings á matvælum o.fl. Einnig vegna vaxandi fjölda ferðamanna til landsins. Hlutverk stjórnarandstöðu er jafnframt ábyrgðarhlutverk sem krefst þess að hún sé vakandi og á verði, veiti ríkisstjórninni aðhald.
    Ríkisstjórnin sagðist ætla að fækka ráðuneytum til að gera stjórnkerfið
einfaldara. Niðurstaðan er sú að nú á að stofna nýtt ráðuneyti fyrir Borgfl. sem var keyptur til fylgis við ríkisstjórnina. Frjálslyndi hægriflokkurinn er hræddur um að þetta ráðuneyti eigi eftir að verða okkur þungt í skauti eins og reynsla annarra þjóða sýnir. Innan fárra ára verði hér komið hið mesta bákn og sennilega eitt af dýrustu ráðuneytum þjóðarinnar.