Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna orða hv. síðasta ræðumanns vill forseti taka fram: Forseti hefur í störfum þingdeildarinnar í vetur greitt fyrir því eftir mætti að frv. stjórnarandstæðinga kæmu hér til umræðu og yrðu afgreidd. Forseti er þeirrar skoðunar að óvenjulega mörg þingmannafrumvörp hafi verið afgreidd úr þessari deild það sem af er vetri.
    Forseti vill einnig taka fram vegna annarra ummæla sem hér hafa fallið að hann hefur í öllu farið eftir starfsskrá þingsins í vetur. Þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa undantekningarlaust verið gerðar í samvinnu við stjórnarandstöðuna. Segja má að þessi fundur í dag sé nokkur undantekning sem sanni þá kannski regluna.
    Forseti vill einnig taka fram að hv. þingdeildarmenn hafa ekki verið þjakaðir af fundasetu það sem af er þessu ári. Fundir í þessari hv. deild hafa frá því að þing kom saman 22. janúar og til dagsins í dag staðið samtals í 8 klst. og 50 mín.