Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir hans innlegg í þessa þingskapaumræðu. Það kemur mér nú ekki á óvart, sem hef átt jafnmikil samskipti við hann og raun ber vitni, að hann er með allra gleggstu mönnum stjórnarliðsins, ef ekki sá alglöggvasti, enda fyrstur vanalega að kveikja á perunni. Ekki verður sagt um allt liðið að það sé svo góð gangsetning hjá því.
    Ég tek undir það sem hv. þm. sagði. Það er rétt að afgreiða mál eftir því sem þau berast til nefndar. Ég tek kannski ekki alveg undir það að það eigi að afgreiða þau í þeim tilgangi að fella þau. Þar varð honum pínulítið á í messunni. Ég tel að mörg frv. sem þingmenn flytja séu ekki síður mikils virði fyrir þjóðina en mörg frumvörp sem koma frá ríkisstjórn og ekkert endilega þessari. Hér er því tekið undir það, hæstv. forseti, að það eigi að afgreiða mál eftir því sem þau berast til nefnda.
    Það sem veldur hér fyrst og fremst ágreiningi, og fer sá ágreiningur vaxandi en ekki minnkandi eftir því sem líður á umræðuna, er að legið er á öðru máli, skyldu máli. Vitaskuld á þetta að fylgjast að. Ef það er ætlun meiri hluta Alþingis að stofna nýtt ráðuneyti þegar þjóðinni er sagt að spara og það sé ekki möguleiki á því að hækka kaup umfram það sem kjarasamningar gera ráð fyrir og ríkið nær ekki endum saman í sínum rekstri ætti það að vera kappsmál ríkisstjórnarinnar að fækka ráðuneytum en ekki fjölga. Þess vegna er ágreiningur verulegur í þessu máli, að hér á að fjölga um eitt ráðuneyti en liggja á hinu. Það er þetta sem veldur ágreiningi.
    Og svo er hitt. Hvaða lýðræði er það að þegar á að endurskoða lög um Stjórnarráð sem eiga að standa, sem ekki eiga að vera pólitísk eða flokksleg barátta, þá séu fulltrúar allra þingflokka ekki hafðir með í ráðum? Þetta er tröðkun á lýðræði að haga sér þannig. Og það er ámælisvert fyrir ríkisstjórnina og hæstv. forsrh. að haga vinnubrögðum með þeim hætti. Þetta er það, hæstv. forseti, sem veldur ágreiningi. Það er ekki að sjálfstæðismenn séu eitthvað gramir við hagstofuráðherrann, eins og hann lét hafa eftir sér í sjónvarpinu, að þetta séu gamlar erjur. Ég ber ekki nokkra reiði í brjósti til hæstv. hagstofuráðherra og engan kala. Og ég hef ekki orðið var við neinn einasta sjálfstæðismann sem sér eftir honum úr Sjálfstfl. Þeir hafa þá farið vel með það.