Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Ástæðan til þess að ég blanda mér í þessa þingskapaumræðu er sú að mér finnst skörin vera farin að færast nokkuð upp í bekkinn þegar farið er að tala um ofbeldi í nefndarstörfum og að jaðri við ofbeldi, segir hv. 2. þm. Reykn., það mikla prúðmenni. Það er ekkert nýtt hér að nefndir klofni í málum. Þetta er ekki fyrsta deilumálið sem tekið er út úr nefnd í hv. Alþingi með atkvæðum stjórnarliða. Þetta mál kom fyrir þingið löngu fyrir jól, var sent til skriflegrar umsagnar með umsagnarfresti til 10. janúar. Málið var unnið upp úr þeim umsögnum, farið yfir þær á fundi nefndarinnar. Síðan var málið rætt á tveimur fundum eftir það. Ég mótmæli því að þetta séu óþingleg vinnubrögð, enda er meginmálið eftir, það er verkefni þessa umhverfisráðuneytis. Ég vona svo sannarlega að hv. allsherjarnefndarmenn telji ekki eftir sér að sitja nokkuð stífa fundi á næstunni og ræða þau mál, því ég hef hugsað mér það, þannig að sem fyrst fáist úr því skorið hvaða verkefni væntanlegt ráðuneyti fær. Ég hef reyndar enga ástæðu til að efast um að nefndarmenn muni vera viljugir til þess, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Það verður haldið áfram að vinna að þessum málum á mánudaginn kemur á fundi allshn. Nd. og ég hef hugsað mér að halda stíft áfram næstu dagana í því verkefni.