Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að tilkynna að skýrsla samstarfsráðherra um Norðurlandasamstarfið á vegum ráðherranefndarinnar hefur því miður dregist í nokkra daga, en fyrir því eru mjög gildar ástæður. Í síðustu viku var fundur samstarfsráðherra í Kaupmannahöfn og staðgenglafundur. Skrifstofustjóri skrifstofu samstarfsráðherra Norðurlanda í Reykjavík, Jón Júlíusson, þurfti þá að sitja þennan fund, en um það var að ræða að velja á milli hvort hann færi til þessa fundar eða sleppti fundinum til þess að ljúka skýrslunni þannig að hún yrði tilbúin hér í dag. Ég tók þá ákvörðun að það væri nauðsynlegt að Jón færi utan til þess að sitja þennan fund, einfaldlega vegna hagsmuna Íslendinga sem þar voru í húfi, en svo háttaði málum að á fundi samstarfsráðherra í Kaupmannahöfn í síðustu viku stóð til að afgreiða og ráðstafa stöðu forstjóra Norræna verkefnaútflutningssjóðsins en Íslendingar eiga þar og áttu umsækjanda sem var meðal þriggja þeirra sem komu til greina. Finnar sóttu mjög fast að hljóta þessa stöðu og það var alveg ljóst að hefði staðgengill minn, þ.e. skrifstofustjóri skrifstofu samstarfsráðherra hér, ekki setið fundinn, var það alveg vitað mál að finnski umsækjandinn hefði orðið fyrir valinu og þar með verið ráðinn næsti forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins.
    Við höfum unnið að því um tveggja mánaða skeið að reyna að afla fylgis við að íslenski umsækjandinn, Þorsteinn Ólafsson, efnahagsráðunautur forsrh., yrði fyrir valinu en það var mjög á brattann að sækja og var alveg ljóst að það mætti engu muna hvort það tækist eða ekki. Með því að Jón Júlíusson, skrifstofustjóri skrifstofu samstarfsráðherra, sótti þennan fund tókst að snúa taflinu til betri vegar þannig að á fundi samstarfsráðherranna á þriðjudaginn í síðustu viku náðist samstaða, eftir mjög erfiðar og strangar málalengingar, um það að íslenski umsækjandinn, Þorsteinn Ólafsson, var ráðinn forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins. Ég leyfi mér að fagna þeirri ráðstöfun
því að þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur hlýtur jafnstórt embætti í Norðurlandasamvinnunni utan Íslands. Það er því ástæða til þess að fagna því að þetta tókst. En það kostaði sem sagt það að því miður varð að tefja frágang á skýrslu samstarfsráðherra um nokkra daga, en ég get lofað hv. 2. þm. Reykn. því að hún mun verða tilbúin nú í þessari viku þannig að ég geri ráð fyrir að hægt verði að dreifa henni hér á þingi í vikulokin.
    Ég ætla því ekki að hafa mjög mörg orð um þessi mál að svo stöddu heldur geyma mér að fjalla um þau þar til sú skýrsla sem ég gat um liggur fyrir. Ég vil þó taka undir með hv. 2. þm. Reykn., og ég er honum þar alveg sammála, að norrænt samstarf stendur nú mjög á krossgötum því að það hlýtur að vera verkefni okkar og reyndar áhyggjuefni um leið hvernig við eigum að treysta norræna samstarfið og sjá til þess að það lifi áfram í þeirri stóru Evrópuheild

sem nú blasir við. Við þurfum öll að vinna að því að okkur takist að viðhalda því öfluga samstarfi sem Norðurlöndin hafa átt með sér á sviði menningarmála og ýmissa annarra mála þannig að við týnumst ekki inni í hinni stóru Evrópuheild sem blasir við.
    Síðan langar mig að geta þess að lokum að samstaða náðist um það á fundi samstarfsráðherranna í Kaupmannahöfn í síðustu viku, sem er mjög ánægjulegt, að unnið skyldi að því að halda nýtt nordisk forum, þ.e. kvennaráðstefnu í líkingu við þá sem var haldin í Osló 1988, og jafnframt var tekin um það ákvörðun að vinna að því að halda æskulýðsráðstefnu, væntanlega í Svíþjóð, einhvern tímann innan tveggja til þriggja ára. Ég tel þess vegna að hér hafi náðst góður árangur því að ég veit það að meðal annars jafnréttisráðherra, sem er hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir sem jafnframt er jafnréttisráðherra í ríkisstjórninni, hafði lagt á það mikla áherslu að hægt væri að halda aðra kvennaráðstefnu, eins og þá sem var haldin í Osló fyrir tæpum tveimur árum. Ég er því ánægður yfir því að það skyldi nást samstaða um það að efna til annarrar slíkrar ráðstefnu innan líklega fjögurra ára.