Alþjóðaþingmannasambandið
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Það hefur oft viljað við bregða í umræðum hv. þm. um störf okkar hér í erlendu samstarfi að það væri lítils virði og mestan part fólgið í ferðalögum og væri eins konar frí frá þingstörfum. Sem betur fer er þetta sjónarmið nú að mínu viti mjög á undanhaldi. Ég held að okkur sé flestum ljóst að miklu skiptir að hagsmunir Íslands og afstaða Íslendinga komi fram í samskiptum við aðrar þjóðir ef við ætlum að teljast til ábyrgra þjóðþinga í veröldinni.
    Þess vegna er ekki að undra þó nokkuð hafi verið mismunandi hvernig þetta nefndarstarf hefur verið á stofn sett og hvernig það hefur verið rekið. Ég minnist þess að fyrstu árin sem ég sat hér á hinu háa Alþingi fóru litlar spurnir af því hvað Alþjóðaþingmannasambandið hafðist að og þeir fulltrúar sem fóru héðan til funda þar. Á þessu hefur orðið mikil breyting og nú hefur verið lögð á það áhersla að fá skýrslur um þetta starf árlega og ber að fagna því að svo hefur verið gert.
    En enn þá er forsetum þingsins nokkur vandi á höndum varðandi ýmsar nefndir. Þó ekki sé annað er nokkuð óljóst hversu stórar þær skuli vera og hvernig þær skuli samansettar. Hefur það, eins og margt hér á hinu háa Alþingi, þróast smátt og smátt án þess að nokkur meiri háttar stefnumörkun hafi farið fram eða umræður um hvernig þingið vilji vinna að þessum málum. Þess vegna hafa forsetar, eins og mönnum mun vera kunnugt, eða a.m.k. þingflokksformönnum, látið gera drög að almennum reglum um alþjóðanefndir á vegum Alþingis sem þingflokksformenn hafa nú fengið og væntanlega sýnt eða eiga eftir að sýna þingmönnum til umsagnar. Vil ég biðja hv. þm. að sinna þessu og gera það heldur fyrr en seinna svo að við náum að samþykkja milli þingflokkanna góðar og skynsamlegar reglur um ýmis þessara mála.
    Í þessum drögum að almennum reglum sem við höfum gert er í 1. gr. fjallað um eftirfarandi nefndir: Íslensku þingmannasendinefndina hjá Evrópuráðinu, stjórn Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, íslensku sendinefndina hjá Þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna, íslensku sendinefndina hjá Þingmannanefnd fríverslunarsamtaka Evrópu og, að svo miklu leyti sem við á, um stjórn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og Vestnorræna þingmannaráðið, en tvö hin síðastnefndu eru e.t.v. fastari í formi en hin önnur.
    Ég held að afar þýðingarmikið sé að unnið sé að þessum málum af alvöru og festu og vaxandi þörf er á því að þingheimur fái að fylgjast grannt með hvaða ákvarðanir eru teknar á þessum vettvangi víða um heim. Og þó að, eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, vissulega beri að halda utan um fjármuni þingsins og sjá um að þeir fari ekki í gagnslaus ferðalög, ber okkur jafnframt skylda til að sjá um að þinginu sé búin aðstaða til að geta stundað slík störf, fengið þá sérfræðilegu aðstoð sem menn þurfa við þau og annað slíkt. Von mín er sú að nú, með nýrri

skipulagsbreytingu hér á hinu háa Alþingi, megi sjá þess stað nú þegar að þeir sem veita forstöðu slíkum nefndum eigi ráð á meiri þjónustu hér innan hins háa Alþingis en verið hefur. Verður væntalega unnið áfram að því að sú þjónusta aukist.
    Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir skýrslu hans um starfsemi Norðurlandaráðs og hv. 17. þm. Reykv. fyrir hans skýrslu. Ég tel afar þýðingarmikið að þessu starfi sé sýnd sú virðing sem við á, því að eins og mönnum er löngu orðið ljóst er enginn eyland og við erum hluti af stórum heimi sem þarf að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir á næstu árum um mál sem geta varðað okkur lífi eða dauða. Hið háa Alþingi Íslendinga má því ekki láta sitt eftir liggja til þess að að þessum störfum sé unnið af fyllstu alvöru.
    Ég vildi aðeins segja þetta um leið og ég ítreka þær óskir mínar að menn vinni vel að því að hjálpa forsetum þingsins við að koma saman almennum reglum um störf alþjóðanefnda á vegum Alþingis.