Alþjóðaþingmannasambandið
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þeirra framlag til þessarar umræðu og fyrir hlýleg orð í garð okkar sem höfum starfað í þessari deild á vegum Alþingis á kjörtímabilinu. Jafnframt vil ég þakka forseta Sþ. fyrir þær upplýsingar sem fram komu í ræðu hennar um þessi mál almennt og taka undir ummæli hennar um nauðsyn þess að fyrir liggi í öllum tilvikum ákveðnar og skýrar starfsreglur þannig að ekkert fari á milli mála í þessu efni óháð einstökum þingmönnum, þingflokkum eða þeim breytingum sem verða kunna hér á Alþingi við kosningar o.s.frv.
    Hv. 2. þm. Austurl. beindi til mín ákveðinni fsp. sem ég vil leitast við að svara um leið og ég þakka honum fyrir hans orð. Það liggur fyrir að Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö regluleg þing á ári hverju, auk ýmiss konar sérstakra ráðstefna eins og ég gat um.
    Það er umfangsmikið fyrirtæki að halda þing sem þetta þar sem mæta kannski u.þ.b. eitt þúsund manns. Ákveðnar kröfur eru gerðar um allan aðbúnað og tilhögun og fleira í þeim dúr og ákveðin kostnaðarskipting milli aðalskrifstofunnar í Genf og þess þjóðþings sem tekur að sér að bjóða til þinghaldsins.
    Þessi þing eru jafnaðarlega ákveðin með mjög góðum fyrirvara. Núna liggur fyrir, ekki aðeins að næsta þing verður í apríl 1990 heldur einnig að þingið í apríl á næsta ári verður í Brasilíu og þingið haustið 1992 verður í Madrid á Spáni. Hins vegar er ekki ljóst hvar haustþingið í ár verður vegna þess að sá aðili sem hafði gefið sig fram til að halda það neyddist til að hætta við. Hugsanlegt er að haustþingið í ár verði haldið í höfuðstöðvunum í Genf.
    Þeir sem taka að sér þinghald sem þetta gera það yfirleitt með nokkurra ára fyrirvara, bæði með tilliti til alls undirbúnings og þess kostnaðar sem því
fylgir. Það er rétt sem hér kemur fram að grennslast hefur verið eftir því hvort Alþingi treysti sér til þess að halda eitt þing af þessu tagi. Við höfum sagt að við teldum það æskilegt og vildum stuðla að því án þess að geta gert neinar skuldbindingar um það á þessu stigi. Þannig að ég tek undir það sem fram kemur í máli hv. 2. þm. Austurl. að mjög æskilegt væri að boða til slíks þings einhvern tíma á næstu árum. Ég held hins vegar að það þurfi mjög nákvæman og rækilegan undirbúning. Við höfum lagt drög að því að kanna lítillega hvað slíkt gæti kostað en ljóst er að af slíku getur ekki orðið fyrr en einhvern tíma á næsta kjörtímabili.
    Ég vil taka undir þessa skoðun sem fram kom hjá 2. þm. Austurl. en jafnframt upplýsa að málið er ekki lengra komið en þetta, að það hefur komið til tals, en ekkert ákveðið liggur fyrir enn þá. Það er reyndar álitamál hvort nógu hentugt húsnæði er til staðar hér í borginni en ég hygg að ákveðin reynsla muni af því fást nú á þingi Norðurlandaráðs síðar í þessum mánuði hvort Háskólabíó með viðbyggingum henti

undir þinghald af þessum toga. Það er líkast til stærsta vandamálið varðandi framkvæmd slíks þinghalds. Ég hygg á hinn bóginn að nægilegt hótelrými sé til staðar í borginni. En eins og ég segi, þetta mál er á algjöru frumstigi en ég fagna því að hv. þm. skuli hafa tekið eftir þessu atriði og skuli vera þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að þessu í framtíðinni. Við munum halda áfram að vinna að þessu máli en gera það hægt og bítandi eftir aðstæðum.