Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 538 er skýrsla fulltrúa Íslands í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Það mál er þriðja dagskrármálið.
    Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað í dag um þau önnur mál sem hafa verið á dagskrá, fyrsta og annað málið, um þýðingu slíkra skýrslna í sambandi við alþjóðasamstarf alþingismanna. Ég legg áherslu á að þar sem hér er upphaf að slíku, að vísu hefur skýrsla um norrænt samstarf áður verið á dagskrá og til umræðu, en ég held að það fyrirkomulag sem hér er byrjað á sé skynsamlegra og sé til frambúðar.
    Af hálfu þeirra sem tekið hafa þátt í samstarfi þingmanna aðildarríkja EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu, hefur ekki verið gefin skýrsla áður. Samstarf þingmanna EFTA-ríkjanna var nokkuð óformlegt frá upphafi samtakanna og allt fram til ársins 1977 að gerð var samþykkt í EFTA-ráðinu um skipan nefndar þingmanna til þess starfs sem þar er ákveðið og er það að finna á fskj. I. Hér er um að ræða ákvörðun ráðsins frá 13. og 14. okt. 1977. Með þeirri ákvörðun er komið á formlegu samstarfi í millum þingmanna EFTA-ríkjanna.
    Eins og hv. þm. er kunnugt hafa orðið breytingar á þessum samtökum og þau eru ekki jafnfjölmenn í dag og þau þá voru en samstarf þingmanna þeirra sex ríkja sem nú eru í EFTA hefur haldið áfram og er nú eins og samtökin sjálf á nokkrum krossgötum, eins og gert er grein fyrir hér í þessari skýrslu.
    Á fylgiskjali III er vikið að því hverjir hafa verið þátttakendur af hálfu Alþingis á fundum þingmannanefndarinnar frá 1977. Hafa fulltrúar þar verið frá einum og upp í fimm að einum fundi undanskildum, þ.e. þriðja fundinum 1979 en þá mun enginn hafa mætt fyrir hönd Alþingis.
    Eins og segir í samþykktinni frá 1977 er heimilt að hver sendinefnd sé skipuð allt að fimm fulltrúum. Í upphafi var sú ákvörðun tekin að af hálfu Íslands tækju tveir þingmenn þátt í þessum þingmannasamtökum. Auk mín er það nú hv. 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson, sem tók við á sl. ári þegar Kjartan Jóhannsson fyrrv. alþm. var skipaður sendiherra Íslands hjá EFTA og fastafulltrúi.
    Samtökin halda árlegan fund eins og fram kemur á fylgiskjali III og var síðasti fundurinn haldinn í Helsinki á sl. ári. Af hálfu Íslands hafa tveir þingmenn gegnt forustu í þessum samtökum. Tómas Árnason var varaformaður nefndarinnar á árunum 1984--1985 meðan hann gegndi þingmennsku. Þegar fundur þingmannanefndarinnar var haldinn hér á Íslandi var Kjartan Jóhannsson kjörinn formaður og gegndi hann formennsku í nefndinni næsta ár á eftir. Venjan er sú að formennskan fylgir því landi þar sem ársfundur er haldinn og er formennskan því í eitt ár í senn.
    Gert er ráð fyrir næsta fundi í maímánuði í Austurríki og þá er gert ráð fyrir því að við formennsku taki sá sem nú gegnir varaformennsku,

austurrískur þingmaður og fyrrum utanríkisráðherra þar, Jankowitsch.
    Eins og sagt er í upphafi samþykktar ráðsins er þingmannanefnd frá aðildarríkjum EFTA komið á fót til að vera ráðinu til ráðgjafar um málefni sem heyra undir starfsemi samtakanna og til að miðla upplýsingum um slík málefni milli EFTA og þingmanna EFTA-ríkjanna sem og meðal þingmanna sjálfra. Þetta hefur verið hlutverk nefndarinnar en hins vegar er ljóst, með tilliti til þeirra samningaviðræðna og væntanlega samninga á milli EFTA og
Evrópubandalagsins, að nokkur breyting verður þá á í sambandi við störf þessarar þingmannanefndar. Hefur það mál verið til sérstakrar umfjöllunar og mun ég víkja að því síðar.
    Viðræður hafa hins vegar verið milli þingmannanefndar EFTA og stofnana Evrópubandalagsins. Var það ekki hvað síst fyrir frumkvæði Kjartans Jóhannssonar að fastar viðræður komust á milli utanríkisviðskiptanefndar Evrópubandalagsins og EFTA-þingmanna. Hefur slíkur fundur verið haldinn árlega til að skiptast á skoðunum í sambandi við viðskipti og samskipti þessara tveggja bandalaga. Á bls. 2 í skýrslunni kemur þetta fram og þar er gerð grein fyrir síðasta fundi sem haldinn var 30. nóv. sl. og hvaða mál þar voru á dagskrá, þ.e. í hinum hefðbundnu viðræðum EFTA-þingmanna og Evrópubandalagsþingmanna. Auk þess er þar gerð grein fyrir stöðu mála varðandi samningaviðræður EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Einmitt á þeim fundi mætti forseti þings Evrópubandalagsins og hefur það ekki gerst áður á þeim fundum. Það er með hvaða hætti, eins og ég sagði áðan, þessum málum verður skipað, þ.e. samstarfinu við þingmenn Evrópubandalagsins, sem hefur verið til umfjöllunar og ég vík að því á eftir.
    Annar hópur, vinnuhópur, hefur starfað á vegum þingmannanefndar EFTA og hefur sérstaklega fjallað um málefni er varða viðskiptafrelsi með fisk. Þessi nefnd var sett á stofn að frumkvæði þingmanna Íslendinga og skyldi fyrst og fremst fjalla um viðskipti með fisk og unnin matvæli. En að sjálfsögðu lögðu fulltrúar Alþingis mikla áherslu á að einmitt á sl. ári yrði samþykkt fríverslun með fisk og Stokkhólmssamþykktinni um EFTA þar af leiðandi breytt. Þetta gerðist og á fundi ráðherra EFTA-ríkjanna í Osló, leiðtogafundinum, og
síðan fundinum í Kristiansand á sl. ári, tókst að ná fram ákvörðun í þessum efnum sem tvímælalaust er mjög þýðingarmikil varðandi þær umræður sem fóru fram á sl. ári og halda áfram á þessu ári.
    Þessi vinnuhópur fjallar að sjálfsögðu, eins og hér kom fram, um unnin matvæli og þar af leiðandi er áhugi á fleiru en fiski í þeim efnum. Hefur því viðfangsefnið oft verið af öðrum toga spunnið en í sambandi við fiskafurðir. Gert er ráð fyrir því að þessi vinnuhópur haldi fund hér í Reykjavík 17. og 18. apríl einmitt til að undirstrika og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem við flytjum í þeim viðræðum sem fram fara og farið hafa fram varðandi þýðingu

fríverslunar með fisk.
    Ég vék að því áðan varðandi framtíðarstarfsemi þingmanna á vegum EFTA, en á fundinum í Helsingfors var skipaður sérstakur vinnuhópur til að sinna þeim verkefnum. Hann hefur gert sér grein fyrir í fyrsta lagi með hvaða hætti við komum til með að eiga betri og nánari samskipti, þ.e. fulltrúar ríkisstjórna EFTA-ríkjanna og fulltrúar þingmannasamtakanna, svo og hinu hvernig þingmannasamtök EFTA og þingmannasamtök Evrópubandalagsins koma til með að skipuleggja sín samskipti á næstu árum. Að sjálfsögðu hefur það áhrif þar með hvaða hætti og hvernig þeim samningum lýkur sem nú standa yfir milli EFTA og Evrópubandalagsins.
    Þessi vinnuhópur gerði sér grein fyrir með hvaða hætti hann teldi skynsamlegast að haga samstarfi sínu við ráðherra, við EFTA-ráðið og við ráðherra EFTA-ríkjanna, með sérstöku bréfi sem samið var til EFTA-ráðsins og afhent formanni þess, sem var á sl. hálfa ári Kjartan Jóhannsson sendiherra. Þar voru lagðar fram hugmyndir og niðurstaðan af þeim viðræðum og af því bréfi hefur þegar fengist með sérstakri samþykkt sem EFTA-ráðið gerði að höfðu samráði við ráðherra EFTA-ríkjanna. Einn þáttur þess er að talið var eðlilegt og nauðsynlegt að haldnir yrðu sameiginlegir fundir ráðherra og þingmanna og fyrsti sameiginlegi fundurinn verður haldinn í Genf í byrjun apríl. Þá undirstrikaði ráðið hversu þýðingarmikið það væri að leitað væri álits þingmannanefndarinnar um mikilvæg málefni. Þegar ekki væri fyrir hendi væntanlega sameiginlegur fundur ráðherra og þingmanna hefði formaður þingmannanefndarinnar tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri með því að koma til fundar við ráðherrana.
    Ég vék svo að því að hér væri unnið að hugmyndum varðandi samstarf þingmanna EFTA og þingmanna Evrópubandalagsins í tengslum við samninga um evrópska efnahagssvæðið. Vinnuhópurinn telur að slík stofnun sé nauðsynleg ef samningar takast við EB um efnahagssvæðið. Fyrirkomulag slíkrar stofnunar hefur verið rætt en ekki liggja fyrir neinar endanlegar hugmyndir í þeim efnum. Það var einmitt ráðherrafundur EFTA-ráðsins 11. og 12. des. sem undirstrikaði sérstaklega mikilvægi stöðu þingmanna í viðræðum um evrópska efnahagssvæðið og nauðsyn þeirrar viðleitni þingmannanefndarinnar að koma sjónarmiðum EFTA á framfæri við Evrópuþingið. Framkvæmdastjóri Evrópubandalagsins hefur einnig vikið að því í samningaviðræðunum að að slíkum starfsvettvangi EFTA-þingmanna og Evrópubandalagsins þyrfti að hyggja.
    Ég hef vikið að helstu atriðunum sem fram koma í þessari skýrslu. Eins og ég sagði í upphafi tel ég mjög af hinu góða þær umræður sem hér fara fram. Þegar annað mál var hér til umræðu, þ.e. skýrsla Alþjóðaþingmannasambandsins, var vikið að þeirri þáltill. sem fyrir Alþingi liggur um skipan þeirra mála í framtíðinni. Það er eðlilegt að svo sé um öll samskipti þingmanna á alþjóðavettvangi og í sambandi

við þingmannasamtök EFTA sýnist eðlilegt að slíkar reglur verði settar. Hins vegar er það mat okkar sem tökum þátt í starfsemi þingmannahópsins að æskilegt væri að fyrir næsta þing væru undirbúnar slíkar starfsreglur því þá væri væntanlega komið í ljós, eftir þær viðræður og starf sem núna er unnið, með hvaða hætti skynsamlegast væri að haga framtíðarskipan í þeim efnum. Þetta er í samræmi við það sem kom fram á fundi nefndarinnar þegar fulltrúar Norðmanna ræddu um tillögur um breytingar á skipan og fyrirkomulagi þessara mála og var álit nefndarmanna að skynsamlegast væri að taka slíkar athuganir til umfjöllunar og ákvörðunar þegar komið væri fram á næsta ár. Á fylgiskjali II höfum við fyrir okkur skipulag þessarar starfsemi eins og skipurit hefur verið upp teiknað og sjáum hvar og hvernig þingmannanefndinni er ætlað að koma þar að málum.
    Það er alveg ljóst að í vaxandi mæli verður starf alþingismanna fólgið í alþjóðlegu samstarfi, ekki hvað síst á sviði efnahags- og viðskiptamála, þ.e. á vettvangi EFTA og Evrópubandalagsins. Og það er ekki aðeins mikilvægt að stjórnvöld, þ.e. framkvæmdarvaldið, verði þar í nánu samstarfi, heldur þurfa að sjálfsögðu þjóðkjörnir fulltrúar að vera það líka. Út frá því sjónarmiði höfum við sem skipum þessa nefnd nú reynt að vinna varðandi þau atriði sem hafa verið á dagskrá að þessu sinni.
    Þá vil ég geta þess að lokum að að sjálfsögðu hefur sú mikla breyting sem átt hefur sér stað í Austur-Evrópu, þróun mála þar, verið á dagskrá og einmitt með tilliti til þess hafa menn viljað víkja til hliðar breytingum sem gera þyrfti þegar fram í sækti. Ég bendi á að um nokkurt skeið hefur verið samstarf
á milli EFTA og Júgóslavíu sem átti sér aðdraganda og hefur verið um nokkurn tíma. En nú þegar þessi mikla breyting á sér stað hefur verið sóst eftir frekara samstarfi og fyrir því gerð grein á fundum þingmanna EFTA og að sjálfsögðu tekið jákvætt undir það. Þegar fram í sækir munu þingmenn EFTA-ríkjanna koma til með að eiga viðræður við þingmenn, þjóðkjörna fulltrúa Austur-Evrópuríkja.
    Ég tel ekki ástæðu, virðulegur forseti, til að hafa hér um fleiri orð. Ég er tilbúinn að svara spurningum ef til mín verður beint, eftir því sem ég veit og þekki til.