Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil, eins og aðrir hér á undan mér, lýsa ánægju minni með það að við skulum taka sérstakan tíma í að ræða skýrslur um samskipti við alþjóðasamtök hér í þinginu. Það er mjög nauðsynlegt að við fáum upplýsingar um það hvað er á ferðinni í samskiptum þingmanna við þingmenn annarra þjóða og vil ég sérstaklega lýsa ánægju minni með að fá skýrslu þingmannanefndar Fríverslunarsamtakanna, EFTA, vegna þess að ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem við fáum eitthvað frá henni að heyra. Ég hef ákaflega lítið vitað um það hingað til hvað þingmannanefndin hefur gert. Því ber að fagna því sérstaklega að við fáum tækifæri til að ræða það á þessum vettvangi.
    Það eru nokkur atriði sem mig langar til að gera að umtalsefni í þessari skýrslu. Mig langar að spyrja hv. 1. þm. Reykn., sem hér gerði grein fyrir þessari skýrslu, um atriði sem þarkemur fram. Á vettvangi þingmannanefndarinnar hefur verið fjallað um almenn sjónarmið er varða málefni EFTA og EB, eins og kemur fram á bls. 2, ríkisstyrki, reynslu af fríverslun í Evrópu, tengsl EFTA og EB og hugsanlega samvinnu og frekari þróun samskipta. Mig langaði að vita, þegar þeir tala þarna um reynslu af fríverslun í Evrópu, hvort það hafi eitthvað verið talað um fríverslun með fisk. Fram kemur að talað hefur verið um möguleika á aukinni fríverslun. Það skiptir okkur verulega máli, að fá að vita hvað þarna er á ferðinni, þar sem þetta er eitt af þeim málum sem sett hafa verið á oddinn af Íslands hálfu. Þó að við heyrum að vísu núna og höfum reyndar heyrt lengi að af hálfu Evrópubandalagsins komi fríverslun með fisk ekki til greina langar mig til að vita meira um þessa fundi á vegum sendinefndarinnar eða þá fundi þar sem fjallað var um fríverslun með fisk. Þetta vildi ég fá varpað meira ljósi á, ef hægt er, hvort sem það yrði hér á þessum vettvangi eða síðar.
    Það sem vekur sérstaklega athygli er þó það að talað er um aukið hlutverk þingmannanefndar EFTA sem kemur fram í 4. lið þessarar skýrslu. Það er talað um að í mars sl. hafi verið stofnaður vinnuhópur sem hefur það hlutverk að endurskoða hlutverk nefndarinnar. Þar voru lagðar fram hugmyndir um aukið hlutverk og eftir því sem mér vel tekið í þær hugmyndir sem fram komu.
    Mér finnst nauðsynlegt að það komi betur fram hverjar þessar hugmyndir eru og hvert þetta aukna hlutverk á að vera. Ég sé að það er talað um aukið samráð o.s.frv. en ég vildi gjarnan fá betur útfært hvernig þetta á að vera og hvaða hugmyndir þarna eru á ferðinni, ekki síst með tilliti til þess að það er talað um það hér síðar að það sé enn þá nauðsynlegra að þessi samvinna sé aukin og hlutverk þingmannanefndarinnar aukið eftir að samningar hugsanlega hefjist milli Evrópubandalagsins og EFTA um sameiginlegt efnahagssvæði. Þess vegna langaði mig til að vita hvers konar hugmynd þarna er á ferðinni. Við erum nú búin að hlýða hér á skýrslu

þingmanna sem eru í Norðurlandaráði. Þeir fjalla, að því er mér skilst, mikið um þessi mál líka, þannig að ég er að hugsa þá um skörun og hvernig þetta allt saman á sér stað vegna þess að ég óttast að þarna verði málunum drepið allt of mikið á dreif og allt of lítil samvinna verði þarna á milli. Ég hef kannski ekki síst áhyggjur af því vegna þess að nú sýnist mér að það hafi verið heilmikið gert á þessu sviði en ég sem er bæði í utanrmn. og Evrópustefnunefnd þingsins hef mjög lítið vitað hvað rætt hefur verið á þessum vettvangi, og þá er ég að tala um þingmannasamtök EFTA. Og ég verð að viðurkenna það að það var ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum að ég vissi hvaða þingmenn voru í þingmannanefnd Fríverslunarsamtakanna fyrir Íslands hönd. Það er mjög slæmt að samskiptin skuli ekki vera meiri en það milli þeirra stofnana innan þingsins sem fjalla um þessi mál. Þess vegna finnst mér að það verði að varpa miklu skýrara ljósi á hvað þarna er á ferðinni, hvaða hugmyndir eru á ferðinni um þetta aukna hlutverk, og tel raunar alveg nauðsynlegt að þarna sé haft samráð og samvinna innan þingsins um skipan þessara mála í framtíðinni.
    Ég vildi síðan að lokum, virðulegi forseti, varpa þessu fram til þeirra sem skrifa undir þetta plagg og þá kannski þess sem hér talaði, 1. þm. Reykn.: Hvernig voru þessir fulltrúar skipaðir í þessa þingmannanefnd? Ég áttaði mig ekki á því. Ég heyrði það ekki eða mér fannst það ekki hafa komið fram hér. Ég er alveg sammála því að það þarf að setja ákveðnar reglur um skipan í ráð og nefndir og forsetar þingsins hafa sett fram hugmyndir sem eru til umræðu núna og ég vonast til þess að við getum afgreitt það mjög fljótlega hvernig þessu verður háttað þannig að það þurfi ekki að bíða fram á næsta þing eftir því, hvernig við viljum hafa það hér af okkar hálfu. En það breytir ekki því að mér finnst nauðsynlegt að það komi hér fram hvernig þessum málum hefur verið háttað að því er varðar skipan í þessa þingmannanefnd þar sem ég hef ekki haft hugmynd um það og aldrei verið beðin um, hvorki samráð né tilnefningar eða neitt í sambandi við tengsl við þessa þingmannanefnd EFTA. Þess vegna langar mig til að spyrja sérstaklega að því núna. Þó ég sé svo sannarlega sammála því að það þurfi að setja ákveðnar reglur um það hvernig þetta verði í framtíðinni breytir það ekki því að mig langar til að fá upplýsingar um þetta atriði hér
og nú.