Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þær umræður sem orðið hafa um þessa skýrslu. Ég vil hins vegar taka fram, vegna orða hv. síðasta ræðumanns, 2. þm. Austurl., um afstöðu mína varðandi fríverslun, með hvaða hætti og með hvaða skilyrðum, að sá umræðutími sem við höfum hér og sú skýrsla sem við erum að fjalla hér um gefur út af fyrir sig ekki tilefni til að fjölyrða um það. Hitt liggur ljóst fyrir að það sem hér er verið að fjalla um er hvernig unnið hefur verið að því að ná fram fríverslun með fisk hjá EFTA-ríkjunum. Hvað fara gerir svo í þessum málum varðandi Evrópubandalagið og samninga EFTA og Evrópubandalagsins, ég ætla ekki að hefja umræður um það hér í tengslum við þessa skýrslu. En þar hafa verið sett fram þau sjónarmið sem hér á Alþingi hefur verið greint frá. Hér hafa svo komið fram ákveðin sjónarmið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem fer að sjálfsögðu með þá samninga og svo aftur sjónarmið þeirra sem í stjórnarandstöðu eru og ég sé ekki ástæðu til þess að taka upp tíma hér og nú til að fjalla um það, enda erum við að ræða fyrst og fremst um skýrslu þessara þingmannasamtaka. Hins vegar þegar fram í sækir og samningaumleitanir og samningar þessir standa yfir og komið verður að lokum þeirra, þá verður þetta mál að sjálfsögðu hér til umfjöllunar með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem þá hefur fengist.
    Það er hins vegar ljóst að það hafa verið settir fram ákveðnir fyrirvarar varðandi þessi mál og ég trúi að það séu allir sem standa að þeim fyrirvörum með hvaða hætti fríverslun með fisk yrði hér í sambandi við þá samninga sem standa nú yfir.
    Hv. 2. þm. Austurl. hann vék svo að því hlutverki sem þessi þingmannanefnd kemur til með að hafa burt séð frá því hvernig þessum samningum lýkur. En það er einmitt vegna þess að mönnum er ekki ljóst, þar er ekki komin niðurstaða, að þannig er tekið til orða. Þannig er lagt til í skýrslunni að við rösum ekki um ráð fram um starfsreglur fyrir þessi samtök, einfaldlega vegna þess að það
er enn ekki ljóst hversu stór þau koma til með að verða né með hvaða hætti. Hitt getum við svo gert upp við okkur hér, þ.e. alþm., með hvaða hætti við veljum, hvað marga við veljum. Það sem hér er fyrst og fremst verið að tala um er hvers konar samstarfsreglur við komum til með að hafa. Það fer svo að sjálfsögðu eftir því hver verður niðurstaða þessara samninga með hvaða hætti samskiptin verða, hverjir verða þar til kvaddir og svo framvegis. Við getum og eigum auðvitað með einum eða öðrum hætti að setja okkur starfsreglur varðandi okkar eigin fulltrúa í þessu sambandi.
    Þá kem ég að því með hvaða hætti menn hafa verið tilnefndir til þessara starfa. Mér hefur skilist að það hafi verið formenn þingflokka sem hafi fjallað um þessi mál. Það hefur a.m.k. verið svo að þingflokki Sjálfstfl. hefur að undanförnu verið falið að tilnefna annan af þeim tveimur sem skipa þessa

þingmannanefnd og í fyrra var ég tilnefndur af hálfu Sjálfstfl. Af hálfu Alþfl. var tilnefndur, og hefur verið fulltrúi hans í nokkur ár, Kjartan Jóhannsson og mér tjáð að ekki væru uppi breytingar um það og af hálfu Alþfl. hafi Jón Sæmundur Sigurjónsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., verið tilnefndur.
    Þetta er fyrst og fremst verklagsregla þingflokksformanna. Hvernig það hefur verið gert get ég ekki dæmt um. Það eina sem mér hefur verið ljóst allan tímann er að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur tjáð sínum þingflokki að það bæri að tilnefna einn úr hópi sjálfstæðismanna. Áður var hv. 2. þm. Vesturl. í þessum þingmannahópi, þar áður hv. þm. Gunnar G. Schram. Á fylgiskjali III má sjá hvaða fulltrúar hafa þarna verið og með hvaða hætti. En það eru formenn þingflokka sem hafa, eftir því sem ég þekki til, komist að samkomulagi um það hverjir veldu þingfulltrúa á EFTA-þingmannafundina.
    Hv. 12. þm. Reykv. spurði um þetta ásamt hv. 2. þm. Austurl. og ég hef svarað eins og ég þekki til. Hv. 12. þm. Reykv. spurði svo um hlutverk væntanlegrar þingmannanefndar eða þær hugmyndir sem væru til umfjöllunar nú. Það er fyrst og fremst, eins og ég sagði, annars vegar verið að koma sér niður á með hvaða hætti samstarf ætti að vera á milli EFTA-þingmanna, EFTA-ráðsins og ráðherranna, og það er gerð grein fyrir því hér. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að komið er að lokum þessa fundar vegna þingflokksfunda. Ég vildi því spyrja hv. þm. hvort hann vilji fresta ræðu sinni eða hvort henni er u.þ.b. að ljúka.) Ég á mjög stutt eftir og ég teldi rétt að við reyndum að ljúka þessari umræðu. ( Forseti: Ef hv. þm. á stutt eftir af sinni ræðu held ég að við freistum þess að ljúka umræðunni.) Ég skal vera eins stuttorður og ég frekast get. Ég vakti athygli á því að annars vegar væri um að ræða samstarf við EFTA-ráðið og EFTA-ráðherrana. Það kemur hér skýrt fram og það hafa þegar verið settar ákveðnar reglur í þeim efnum eins og hæstv. utanrrh. staðfesti í sinni ræðu hér áðan og einmitt á fundi þar sem hann gegndi formennsku og eftir að EFTA-ráðið hafði undir forustu Kjartans Jóhannssonar sendiherra tekið afstöðu til málsins. Hin hliðin er svo samskiptin við þingmenn Evrópubandalagsins. Þar hafa ekki neinar fastmótaðar hugmyndir verið lagðar fram og áður en til ákvarðanatöku í þeim efnum kæmi
yrði það að sjálfsögðu kynnt þingmönnum hér og gerð grein fyrir því hvers konar samstarf um væri að ræða.
    Þá benti hv. 2. þm. Austurl. réttilega á það að hér erum við að ræða um EFTA-samstarf. Fjögur af EFTA-ríkjunum eru ríki Norðurlanda þannig að að hluta til kemur niðurstaða þessara umræðna, þ.e. niðurstaða þessa samstarfs, e.t.v. til með að hafa áhrif á Norðurlandasamstarfið með einum eða öðrum hætti. Og það liggur að sjálfsögðu ekki ljóst fyrir hvernig að því yrði staðið. Spurningin er svo þessi sem hv. þm. varpaði fram sem hugmynd eða sem möguleika inn í framtíðina þegar hann ræddi um skakka turninn í Pisa: Ef þetta gerðist með þessum hætti og niðurstaðan yrði

þá sú að einhver EFTA-ríki sæktu um inngöngu í Evrópubandalagið, hvað þá? Allt eru þetta spurningar sem ekki hefur enn verið svarað og einmitt þess vegna er um að gera fyrir okkur að fara hægt í sakirnar með það með hvaða hætti við skipuleggjum okkar samstarf á þessum vettvangi, þ.e. Fríverslunarbandalagsins, og þá þau samskipti sem eru við Norðurlandaráð í þeim efnum.
    Þá spurði hv. 12. þm. Reykv. um þær viðræður sem getið er á bls. 2 í upphafi 3. kafla og fram fóru á árunum 1981--1986. Sjálfur sat ég ekki í þessari nefnd þá. Þetta voru fyrst og fremst almennar umræður, eins og hér er getið um, á milli þessara þingmanna, þ.e. frá Evrópubandalaginu og frá EFTA. M.a. var haldinn sameiginlegur fundur EFTA-ráðherranna og Evrópubandalagsráðherranna 1984 í Lúxemborg og Lúxemborgaryfirlýsingin gerð. Hún var þess eðlis að hindrunum í viðskiptum á milli landa yrði hrundið og þær afmáðar. Umræðurnar fjölluðu um það að vissu leyti. Á næstu grösum var innganga Portúgals og Spánar. Spánn og Portúgal voru að ganga í Evrópubandalagið. Hvaða þýðingu höfðu þær breytingar í sambandi við fríverslun með fisk og annað eftir því sem að sjálfsögðu snerti okkur Íslendinga? Það sem til er í sambandi við þetta er sjálfsagt að útvega og koma til viðkomandi, en ég held að ég geti ekki hér og nú gert frekari grein fyrir þeim umræðum sem þar fóru fram.
    Ég sé svo ekki ástæðu til frekari málalenginga, ekki nema þá eitthvað kæmi hér upp sem ég vildi svara.