Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mælti hér fyrir um að orkufyrirtækin væru tekin inn í tekjuskattslögin, líkt og önnur fyrirtæki, er að sjálfsögðu stjfrv. Það leikur enginn vafi á því að hér er um stjfrv. að ræða.
    Það er líka rangnefni að hér sé um sérstakan orkuskatt að ræða, heldur er þetta frv. sem felur í sér að orkufyrirtækin greiði tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki í landinu.
    Vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal setti hér fram spurningar sem hann taldi nauðsynlegt að væri svarað áður en umræðan gæti haldið áfram tel ég nauðsynlegt að greina frá því að það er ekki og hefur ekki verið neinn ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um að 250 millj. af því dæmi sem sett var upp fyrir fjárlög gildandi árs og í tengslum við skattabreytingar, sem m.a. tengdust breytingum á virðisaukaskattinum, væri aflað með skattlagningu orkufyrirtækja eða hliðstæðum orkuskatti. Það hefur komið fram hvað eftir annað að það er enginn ágreiningur um það af hálfu Alþfl. eða annarra stjórnarflokka að 250 millj. sé aflað með orkuskatti af einu eða öðru tagi. Þess vegna getur þessi umræða haldið áfram því það liggur alveg ljóst fyrir að það er enginn ágreiningur um það af hálfu stjórnarflokkanna.
    Það sem hefur hins vegar komið fram í málinu er að einstakir ráðherrar og einstakir þingmenn hafa haft ýmsar tæknilegar athugasemdir við þetta frv. fram að færa og einstök orkufyrirtæki hafa fullyrt að frv. mundi gefa miklu meira af sér í tekjum en því er ætlað að gera. Jafnvel Landsvirkjun ein hefur fullyrt að skv. frv. mundu koma um 1800 millj. eða svo frá Landsvirkjun inn í ríkissjóð. Það hefur aldrei verið ætlunin heldur eingöngu miðað við 250 millj. kr. Ég held þess vegna að það muni greiða mjög fyrir skilningi manna á málinu að hér fari fram umræða um málið og menn geti fjallað um það efnislega og skýrt sín sjónarmið.
    Ég vænti þess að hv. þm. Halldór Blöndal geti fallist á slíkt þannig að við getum haldið umræðunni áfram og fengið að hlýða m.a. á hans athugasemdir og sjónarmið varðandi frv. sem ekki hefur verið tækifæri til að hlýða á enn. Og að aðrir ráðherrar hafi svo tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum að.
    Ég vil hins vegar undirstrika það að hér er ekki um frv. fjmrh. sérstaklega að ræða eins og sagt hefur verið heldur er hér um stjfrv. að ræða þar sem einstakir ráðherrar eða einstakir þingmenn hafa tæknilegar athugasemdir við útfærslu frv. að gera. Sú yfirlýsing sem gefin var út í vantraustsumræðunum um að allir stjórnarflokkarnir stæðu að slíkri orkuskattlagningu var rétt og er rétt. Ekkert annað hefur komið fram af hálfu neins stjórnarflokks. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvernig eigi að afla þessara 250 millj., en það er enginn ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um að þeirra beri að afla.