Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Í stuttu máli skal ég leitast við að svara þeim spurningum sem beint var til mín. Í fyrsta lagi var spurt að því hvaða stjórnarflokkar standa að þessu frv. Þeir gera það allir. Mér sýnist nauðsynlegt að hafa örfá orð um það hvernig samþykkt stjfrv. fer fram. Þau eru lögð fram af viðkomandi ráðherra í ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin samþykkir eru þau send til allra þingflokka til meðferðar og síðan er greint frá því í ríkisstjórn og bókað í ríkisstjórn ef þingflokkar hafa allir samþykkt að frv. verði lagt fram og þá er það lagt fram sem stjfrv. Nákvæmlega þannig var farið með þetta frv. og á engan annan máta.
    Það hefur stundum komið fyrir að málsvarar eins flokks hafa greint frá því að einstakir þingmenn hafi fyrirvara um einhver ákvæði. Allan þann tíma sem ég hef verið í ríkisstjórn hafa ætíð komið upp slík mál. Og ef ég man rétt í þessu máli var sérstaklega greint frá því af hálfu Alþfl. að menn teldu að skoða þyrfti ákvæði til bráðabirgða nánar og það væru sem sagt fyrirvarar í því sambandi. En frv. væri samþykkt sem stjfrv. og lagt fram sem stjfrv.
    Ég þarf ekki að rekja aðdraganda þessa frv. Eftir að ákveðið var að draga úr skatttekjum ríkissjóðs í gegnum virðisaukaskattinn urðu miklar umræður um skattlagningu í staðinn og ég greindi m.a. frá því hér á Alþingi í ræðu og þar varð líka samkomulag í grundvallaratriðum um að fara þessa leið, að leggja skatt á orku með þessu móti.
    Spurt er að því hvaða flokkar eigi upphafið að því að skattleggja orkufyrirtæki. Ég á því miður ekki svar við því. Mig minnir að ég hafi lengi heyrt hér á þinginu að samræma þurfi skattheimtu á atvinnurekstur í landinu, fyrirtæki í landinu. Sjálfstæðismenn hafa auðvitað talað æðioft um samvinnufélög og hlutafélög í þessu sambandi og hv. sjálfstæðismenn hafa
vitanlega sýnt að þeir eru ekki hlynntir ríkisrekstri o.s.frv. En að einhver einn flokkur eigi upphafshugmyndina að því að skattleggja sérstaklega orkufyrirtækin, ef Framsfl. á hana, þá getur það vel verið, ég er ekkert að neita því en ég segi eins og er að ég get ekki svarað þeirri spurningu hver á þá hugmynd.
    Ég vil hins vegar segja það að ég tel persónulega afar mikilvægt að samræma skattheimtu á atvinnurekstur í landinu. Ég tel ekki óeðlilegt að fyrirtæki sem bera arð greiði í sameiginlegan sjóð. Bankarnir greiða tekjuskatt. Nú eru a.m.k. enn þá tveir ríkisbankar og þeir greiða tekjuskatt. Þessu var mjög andmælt af ýmsum aðilum hér á hinu háa Alþingi þegar það var tekið upp á sínum tíma. En ég hef ekki orðið var við andmæli við því síðan. Ég tel ekki óeðlilegt að þau orkufyrirtæki sem bera arð greiði af því skatta.
    Hv. þm. spurði hvort það væru aðrar hugmyndir í ríkisstjórninni um skattlagningu á orkufyrirtæki, eða þjónustufyrirtæki réttara sagt. Svo er ekki. Allar þær hugmyndir sem eru í ríkisstjórninni um skattlagningu hafa verið nákvæmlega tíundaðar, þær hafa verið

taldar fram og m.a. afhentar aðilum vinnumarkaðarins í nýgerðum samningum og ég mun greina frá þeim hér á eftir í sameinuðu Alþingi. Þannig að ekki eru aðrar hugmyndir þar.
    Af því að hér hefur verið rætt um uppgjörsmál og skattlagningu Landsvirkjunar viðurkenni ég að mér þótti það sem ég náði í og las eftir þá virtu endurskoðendur og ágætu sem hér hefur verið vísað til, um skatta á Landsvirkjun, hið furðulegasta plagg. Ég viðurkenni að ég er ekki sérstaklega bókhaldsfróður maður, en ég varð það eiginlega enn síður eftir að ég hafði lesið það rit. Þar segir beinlínis að samkvæmt reikningsvenjum Landsvirkjunar geti skattur þar orðið allt að 2 milljarðar. Þetta er nú satt að segja nokkurt alvörumál. En mér skilst að samkvæmt öðrum reikningsvenjum gæti hann orðið núll. Þetta er alvörumál og hlýtur að koma til athugunar hvort reikningsvenjur eigi ekki að vera þær sömu fyrir öll fyrirtæki í landinu. Í þessu riti, sem ég er nú ekki með hér fyrir framan mig en ég held að ég muni það úr því, leggjast þeir gegn því að reikningsvenjum Landsvirkjunar verði breytt. Ég er algerlega sammála hv. þm. Vitanlega á nefndin, þegar hún fær þetta til meðferðar, að láta rannsaka þetta mjög vandlega og vitanlega á Ríkisendurskoðun að skoða þetta mál. Það nær ekki nokkurri átt að eitt fyrirtæki, sem er opinbert fyrirtæki, hafi aðrar reikningsvenjur en önnur fyrirtæki í landinu. Kannski eru reikningsvenjur Landsvirkjunar miklu betri en annarra fyrirtækja, ég vil ekkert segja um það. Þetta verður náttúrlega rannsakað og ég treysti því að hv. þm. beiti sér fyrir því.
    Og ég spyr líka: Er ekki eðlilegt að Landsvirkjun komi undir Ríkisendurskoðun? Þetta er opinbert fyrirtæki og er það ekki ágætishugmynd, einmitt til að samræma þessa hluti, að fella Landsvirkjun undir Ríkisendurskoðun? Á Landsvirkjun að vera eins og eitthvert ríki í ríkinu? En ég ætla ekki að fara að hætta mér út í umræður um það hér, en ég vona að ég hafi svarað þessum spurningum fyrst og fremst. Þetta er stjfrv., samþykkt þannig af öllum flokkunum. ( HBl: Frumvarpstextinn sjálfur var samþykktur af öllum en ekki bráðabirgðaákvæðið.) Fyrirvari var við það að bráðabirgðaákvæðin
þyrftu að athugast nánar á þingi og í nefndinni. ( HBl: En um frumvarpstextann sjálfan voru menn sammála?) Það var ekki nefnt eitt einasta atriði sem ég man eftir með frumvarpstextann.