Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú farið mjög skýrt og skilmerkilega yfir öll þau atriði sem almenningi hafa þegar verið birt og kunngerð í fjölmiðlum og tengjast nýgerðum kjarasamningum. Hitt vekur nokkra furðu og veldur nokkrum vonbrigðum að í ræðu hæstv. forsrh. komu engin svör við þeim spurningum sem menn áttu von á að fá svarað hér af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Aðilar vinnumarkaðarins sem hafa gert tímamótasamninga hlutu að mega vænta þess að þegar hæstv. forsrh. loksins kveddi sér hljóðs til þess að gera grein fyrir þessum málum hér á hinu háa Alþingi kæmu einhver svör af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um þau atriði sem launafólkið í landinu og stjórnendur atvinnufyrirtækjanna hljóta að spyrja um. En það komu engin svör.
    Ég nefni í þessu sambandi að við gerð þessara kjarasamninga kom í ljós og staðfestist það sem talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna héldu fram við afgreiðslu fjárlaga, að verulegur dulinn halli er á samþykktum fjárlögum þessa árs. Og þar við bætist nokkur kostnaðarauki vegna kjarasamninga en þó mest vegna þess að hæstv. ríkisstjórn sjálf hafði ætlað að dylja útgjöld við samþykkt frv. Af hálfu hæstv. ríkisstjórnar komu engin svör við því hvernig mæta ætti þessum nýju aðstæðum. Það er enn til skoðunar og athugunar. Launafólkið í landinu hefur fallist á mjög hógværa kjarasamninga og ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til þess með beinum aðgerðum að lækka verðlag. En fyrir Alþingi liggja frumvörp hæstv. ríkisstjórnar um hækkun á sköttum sem ekki hafa verið afgreidd. Það á að leggja tekjuskatt á orkufyrirtæki og upplýst hefur verið að sá skattur getur hækkað raforkuverð til almennings um 30%. Og hæstv. ríkisstjórn ætlar að hækka bifreiðagjald um 83% auk verðlagshækkana. En það koma engin svör í ræðu hæstv. forsrh. um þessa fyrirhuguðu skattheimtu. Ríkisstjórnin stendur enn við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í þessu efni þrátt fyrir það að launafólkið í landinu og
stjórnendur atvinnufyrirtækjanna hafi gengið til þeirra tímamótasamninga sem hér eru til umræðu. Þó að launafólkið sé með samningum að taka á sig kaupmáttarrýrnun getur hæstv. forsrh. ekki lýst því yfir hér og nú að falla eigi frá tekjuskatti á orkufyrirtæki sem gæti hækkað raforkureikninga heimilanna um 30% og hann getur ekki lýst því yfir skýrt og skorinort að falla eigi frá ákvörðun um að hækka bifreiðagjaldið um 80--90%. Ég hygg að þetta hljóti að valda miklum vonbrigðum því að það voru þessar spurningar sem voru uppi hjá fólkinu í landinu og menn væntu að fá einhver svör við í þessari umræðu.
    Það kom skýrt fram sl. föstudag hvernig hæstv. ríkisstjórn raðar verkefnum sínum í forgangsröð. Þá var efnt til aukafundar hér á Alþingi, ekki til að ræða þessi mál heldur til þess að ræða stofnun ráðuneytis með nafni en án verkefna sem eykur útgjöld ríkissjóðs

um nokkra tugi milljóna. Og þá var því lýst yfir að umræða af þessu tagi gæti farið fram seinna. Hitt hlyti að hafa forgang, að stofna ráðuneyti með nafni en án verkefna. Og nú kom að því í dag að hæstv. forsrh. taldi eðlilegt að gera þjóðinni grein fyrir afstöðu hæstv. ríkisstjórnar og þá er það gert með þeim hætti að lesa upp úr gögnum sem þegar hafa verið birt en segja að ákvarðanirnar sem beðið er eftir af háfu hæstv. ríkisstjórnar komi einhvern tímann síðar. Afstaða af þessu tagi hlýtur að valda vonbrigðum, jafnvel þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem eiga nú sjaldnast von á góðu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, en hér hafa þeir atburðir gerst sem menn hefðu vænst að leiddu til þess að hæstv. ríkisstjórn tæki á sig meiri rögg en fram kom í ræðu hæstv. forsrh. Sannleikurinn er auðvitað sá að aðilar vinnumarkaðarins hafa komist að mjög markverðri niðurstöðu. Það er að vísu ekki í fyrsta sinn sem þessir aðilar sýna mikla ábyrgð og fórnfýsi við erfiðar aðstæður á undanförnum áratugum, en ég hygg að hér sé á ferðinni alvarlegri og markverðari tilraun en áður hefur verið gerð sem gefi meiri möguleika og meiri vonir en áður. Það má segja með nokkrum sanni að forustumenn launafólksins í landinu og stjórnendur atvinnufyrirtækjanna hafi með kjarasamningunum lagt hér nýjan efnahagsgrundvöll þrátt fyrir hæstv. ríkisstjórn. Þeir hafa með öðrum orðum tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og breytt þeim forsendum sem hæstv. ríkisstjórn lagði til grundvallar efnahagsstefnu sinni á þessu ári. Og það er guðsþakkarvert. Almenningur í landinu fagnar þeirri niðurstöðu. Fólkið í landinu sér að það voru til betri kostir, það var hægt að ná meiri og betri árangri. Og aðilar vinnumarkaðarins ætla ekki að láta þar við sitja. Þeir segja að markvisst verði starfað á þeirra vegum að efnahagsmálum allan tímann sem samningurinn gildir og að það starf verði tryggt með formbundnu samstarfi við stjórnvöld, beinu samstarfi við ýmsa af helstu embættismönnum ríkisins sem stjórna m.a. bönkum og við mótun nýrrar landbúnaðarstefnu. Með nokkrum sanni má segja að launanefndin verði þannig ný efnahagsríkisstjórn eða ný ríkisstjórn í efnahagsmálum. Og ég hygg að þessi markverða nefnd, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett á fót eða ætla að setja á fót í þessu skyni, njóti meira trausts en núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Þegar hæstv. fjmrh. kynnti fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar fór hann mörgum orðum um það að í því væri að finna hinn endanlega ramma ríkisstjórnarinnar um efnahagsmálin á því ári sem nú er nýbyrjað. Allir aðilar í þjóðfélaginu, launafólk og atvinnufyrirtæki yrðu að beygja sig undir þann ramma. Ríkisstjórnin hafði þar sett sér það markmið að verðbólgan yrði á milli ára 16%. Ýmsir töldu, með hliðsjón af fenginni reynslu og með hliðsjón af efnahagsstefnunni, að erfitt yrði að ná þessu markmiði. Ríkisstjórnin hafði líka einsett sér í þeim forsendum sem hæstv. fjmrh. lagði fyrir með þessum hætti að kaupmáttarskerðing launafólks í landinu yrði 5% á þessu ári eða u.þ.b. 5% meiri en nemur falli í landsframleiðslu. Og það

var einmitt þessi efnahagslegi rammi sem aðilar vinnumarkaðarins vildu brjóta. Það var þessi efnahagslegi rammi sem þeir töldu að væri hægt að sníða með öðrum hætti þannig að hagur atvinnufyrirtækjanna yrði betri og hagur launafólksins yrði betri. Og með kjarasamningunum sem þeir hafa nú gert hafa þeir einmitt náð þessu markmiði, búið til nýjan ramma sem er til muna hagstæðari atvinnufyrirtækjunum og launafólkinu í landinu.
    Óhætt er að fullyrða að verðbólga verður samkvæmt hinum nýju efnahagsforsendum aðila vinnumarkaðarins helmingi minni á þessu ári en verið hefði ef ríkisstjórnarstefnunni hefði verið fylgt óbreyttri. Það er mjög verulegur árangur og gefur atvinnufyrirtækjunum og atvinnulífinu í landinu auðvitað ný tækifæri. Það er segin saga að um leið og við náum slíkum árangri við að lækka verðbólgu auðveldar það atvinnufyrirtækjunum að takast á við ný verkefni, auka framleiðni og skapa hér meiri verðmæti þegar til lengri tíma er litið. Þegar við höfum náð árangri af þessu tagi, eins og nokkrum sinnum hefur gerst, hefur það jafnan haft þau áhrif þó að hitt hafi svo gerst að lækkun verðbólgu hefur því miður verið tímabundin, m.a. vegna mikilla sveiflna sem okkar hagkerfi þarf að búa við, bæði vegna mismunandi afla og sveiflna í markaðsverði á erlendum mörkuðum.
    Það telst líka vera markvert í þessum kjarasamningum að launamenn skuli skrifa undir samninga sem fela í sér kaupmáttarrýrnun um nálægt 1%. Ég hygg að það sýni mjög einstaka afstöðu og einstaka ábyrgð af hálfu forustumanna launþega að ganga til kjarasamninga sem sýna slíka niðurstöðu. En það er auðvitað ekki allt sem sýnist. Hér er verið að vinna mikinn varnarsigur því að í efnahagsforsendum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að kaupmáttarrýrnunin yrði 5%, fimmfalt meiri en nemur falli landsframleiðslunnar. Forustumenn launþega hafa þess vegna náð hér mjög miklum varnarsigri og lina áhrif kreppunnar sem ríkt hefur með þessum samningum. Auðvitað er það svo áhyggjuefni, þegar við lítum til baka, að við skulum nú standa í sömu sporum og fyrir 10 árum, að kaupmátturinn skuli nú vera hinn sami og fyrir 10 árum. Að vísu hefur þetta gerst með allmiklum breytingum og í miklum sveiflum. Síðasti áratugur byrjaði með verulegu kaupmáttarfalli. Síðan jókst kaupmáttur mjög verulega en hrapaði svo á nýjan leik og nú 10 árum síðar stöndum við í sömu sporum. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni og leiða hugann að því hvernig við þurfi að bregðast. Við verðum að stýra okkar efnahagsmálum á þann veg á næstu árum að líklegt sé að atvinnulífið skili meiri arði, fjárfesting í íslenskum atvinnufyrirtækjum skili meiri arði en verið hefur, til þess að við getum vænst þess að bæta lífskjörin á síðasta áratug þessarar aldar. Það er ekki umræðuefni hér í dag en kallar auðvitað á margs konar ákvarðanir um stjórn efnahagsmála og aðlögun að nýjum aðstæðum.
    Það er líka mjög athyglisvert við þessa kjarasamninga og markar nokkur þáttaskil í

efnahagsstjórn í landinu að aðilar vinnumarkaðarins hafa í raun og veru í tengslum við gerð þessara samninga fallist á markaðsákvörðun vaxta. Þetta atriði hefur verið umdeilt í íslenskri efnahagsstjórn frá því að hin viðamikla löggjöf um viðskiptabanka og Seðlabanka var sett hér á hinu háa Alþingi á árunum 1985 og 1986 undir stjórnarforustu núv. hæstv. forsrh. En það hafa einkum verið hann sjálfur og fylgismenn hans í Framsfl. og alþýðubandalagsmenn sem hafa verið andvígir þessari skipan og haldið uppi miklum andróðri gegn þessari skipan mála. Slík andstaða hefur líka verið fyrir hendi innan verkalýðshreyfingarinnar, og í tengslum við kjarasamninga hafa heyrst óskir úr þeim herbúðum um að breyta þessari skipan, um að taka á verðbréfamarkaðnum sem sumir kalla gráa markaðinn, að krefjast þess að stýra vöxtum með handafli. Engar slíkar óskir koma fram að þessu sinni. Engar ræður eru nú fluttar af hálfu formanns Framsfl., hæstv. forsrh., um brennandi Róm vegna markaðsákvarðana á vöxtum. Engar kröfur eru nú gerðar um handaflsstýringu á vöxtum. Ég hygg að þetta marki um margt tímamót því að það skiptir máli að samstaða sé um þær leikreglur sem gilda eiga og hafa áhrif á efnahagsstarfsemina í landinu.
    Það er vissulega svo að vextir hafa verið mjög háir á undanförnum árum, of háir miðað við getu atvinnuveganna og hærri en menn geta sætt sig við til lengri tíma. En eigi að síður er það svo að með þessari skipan hefur verið stuðlað að auknu jafnvægi í efnahagslífinu og í fjármálum þjóðarinnar. Í skýrslu sem Seðlabanki Íslands gaf út í lok nóvember á sl. ári segir m.a. svo,
með leyfi forseta:
    ,,Enginn vafi er á því að rekja má betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár til þeirra háu raunvaxta sem voru í gildi, einkum á árinu 1988. Með betra jafnvægi fór þegar á síðari hluta þess árs að koma fram tilhneiging til lækkunar á markaðsvöxtum og hefur hún haldið áfram á þessu ári.``
    Það hefur verið vitnað talsvert til þessarar skýrslu einmitt um þá staðreynd að raunvextir lækkuðu þó nokkuð á sl. ári, en eins og fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum í skýrslunni má fyrst og fremst rekja þann árangur til þeirrar stefnubreytingar sem varð við vaxtaákvarðanir með setningu nýju bankalöggjafarinnar. Vextir eru í eðli sínu þannig að þeir hljóta að hækka við þensluástand í hagkerfinu en lækka þegar kreppir að og einmitt þetta hefur gerst, bæði meðan þenslan var sem mest og eins eftir að kreppan varð. Hitt er svo annað mál að í þessari skýrslu kemur einnig fram, sem talsmenn hæstv. ríkisstjórnar hafa minna rætt um, að raunvextir sjávarútvegsins miðað við innlent verðlag hækkuðu á síðasta ári úr 10,8% 1988 í 13,3% eða um nánast fjórðung. Þetta stafar m.a. af breytingum á gengi krónunnar vegna þess að lán sjávarútvegsins eru að svo miklum hluta erlend en sýnir líka að breyting á gengi krónunnar á síðari hluta ársins 1989 réði úrslitum um að staða sjávarútvegsins batnaði. Mitt mat er að það hafi verið gripið til þessara eðlilegu

breytinga á gengi krónunnar heilu ári of seint, en um það var stjórnmálaágreiningur. Hitt ber hins vegar að viðurkenna að hæstv. ríkisstjórn sá að sér, gerði sér grein fyrir að þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfðum sett fram í þessu efni voru rétt og það yrði ekki unnt að bæta stöðu sjávarútvegsins eftir þau ytri áföll sem hann varð fyrir vegna þess að markaðsverð hafði fallið og gengi bandaríkjadals hafði fallið nema breyta gengi krónunnar. Hæstv. ríkisstjórn sá þessa staðreynd og viðurkenndi hana heilu ári of seint. En sannarlega, þegar hún var framkvæmd, hafði hún áhrif til þess að bæta afkomu fyrirtækjanna eins og fram hefur komið og við reyndar höfðum bent á löngu áður.
    Ég þykist vita að það hafi valdið mörgum vonbrigðum að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki á þessari stundu geta gert aðilum kjarasamningsins nánari grein fyrir viðbrögðum af sinni hálfu. Það hefur allmikið verið rætt um kostnað ríkissjóðs af þessum kjarasamningi. Vissulega er það svo að kjarasamningarnir auka nokkuð við útgjöld ríkissjóðs, en að mjög stórum hluta er þar um að ræða atriði sem þegar voru komin fram við afgreiðslu fjárlaga en hæstv. ríkisstjórn kaus þá að dylja. Það lá fyrir samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar í fjvn. að kostnaður við niðurgreiðslur yrði mun meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstjórn hafði gefið. Sá kostnaðarauki sem hér er talað um er því ekki allur og ekki nema að hluta vegna kjarasamninganna. Og öllum má vera ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefði breytt frítekjumarkinu. Ég hygg að engum hafi komið til hugar að það ætlaði hún sér alls ekki að gera, enda hefði það augljóslega komið sérstaklega til umræðu hér á hinu háa Alþingi við afgreiðslu fjárlaga ef svo hefði verið. Vera má að sú hækkun sem nú er ákveðin sé heldur meiri en orðið hefði niðurstaðan án slíkra kjarasamninga sem nú hafa verið gerðir, en að stórum hluta hlaut sú hækkun að eiga sér stað og teljast til vanáætlunar fjárlaga. Eigi að síður hljóta menn, þegar kjarasamningar hafa með þessum hætti afhjúpað dulin útgjöld ríkissjóðs og bætt við útgjöld ríkissjóðs, að fjalla um hvernig við verður brugðist.
    Það er líka ástæða til þess að inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvaða áform hún hefur uppi varðandi búvöruverð með því að í ákvörðun hennar er kveðið á um að ráðstafanir af hennar hálfu til niðurgreiðslna eigi að gilda til 1. des. á þessu ári en kjarasamningurinn á að gilda að öðru leyti til 1. sept. árið 1991. Hvað hugsar hæstv. ríkisstjórn sér um framhald þessa atriðis? Það væri æskilegt að fá skýr svör við því hér og nú. Og ég vil líka ítreka það sem ég sagði í upphafi, að það getur ekki staðist þegar launafólk semur í frjálsum samningum um kaupmáttarrýrnun að hæstv. ríkisstjórn ætli að koma í framkvæmd skattahækkunum eins og bifreiðagjaldi upp á 80--90%. Það er útilokað að bjóða almenningi í landinu slíka framkomu af hálfu stjórnvalda. Og það væri nauðsynlegt að þau skilaboð gætu komið frá Alþingi á þessum degi að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að

falla frá eða breyta í verulegum atriðum áformum sínum í þessu efni. Það er nánast útilokað að þessari umræðu ljúki í dag án þess að þjóðin fái skýr skilaboð frá hinu háa Alþingi um þetta efni og auðvitað veltur mest á afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í því efni. Ég hygg að hæstv. ráðherrar, svo að ég tali ekki um hv. þm. stjórnarliðsins, hljóti að gera sér grein fyrir því að 80--90% hækkun á bifreiðagjöldum getur ekki staðist eftir kjarasamninga af því tagi sem nú hafa verið gerðir. Og það er ekki eftir neinu að bíða með að tilkynna að stjórnarliðið sé reiðubúið að viðurkenna þá staðreynd. Það var á þetta bent fyrir jól. Þá daufheyrðust menn við öllum slíkum ábendingum, en ég trúi því ekki að það ætli menn að gera nú. Og það sama á auðvitað við um orkuskattinn. Það hefur komið fram í umræðum hér í síðustu viku á hinu háa
Alþingi að ekki einasta hæstv. iðnrh. heldur gjörvallur þingflokkur Alþfl. gerði fyrirvara um afstöðu til þess frv. um sérstakan tekjuskatt á orkufyrirtæki sem hæstv. fjmrh. hefur verið að knýja á um að yrði samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Eðlilegt hefði verið að greint hefði verið frá þessari afstöðu Alþfl. þegar frv. var lagt fram og þegar fjárlög voru afgreidd. Það var hins vegar ekki gert heldur kusu menn að halda þeirri afstöðu leyndri þangað til nú fyrir nokkrum dögum. Hún sýnir eigi að síður að menn gera sér grein fyrir því þar á bæ að það er ekki hægt að ana áfram í þessu efni án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að afleiðingum skattheimtunnar og þm. Alþfl. og hæstv. iðnrh. eiga þakkir skildar fyrir þá afstöðu sem þeir hafa kynnt í þessu máli og vonandi hjálpar hún til að sú niðurstaða verði að fallið verði frá þessari skattheimtu sem ýmsir telja að geti leitt til þess að raforkuverð til almennings hækki um allt að 30%.
    Frú forseti. Það eru fyrst og fremst svör við þessum spurningum sem menn áttu von á frá hæstv. forsrh. og ég vil enn vona að þau fáist í þessari umræðu hér í dag þannig að þessum fundi Alþingis ljúki ekki án þess að þjóðin fái þau skilaboð. Auðvitað er ríkissjóður í miklum vanda, það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og hæstv. fjmrh. stendur frammi fyrir mjög erfiðu verkefni. Að vísu mátti hann sjá stærstan hluta þess fyrir en að öðru leyti er um að ræða nýjan vanda. Ég vil fyrir mitt leyti segja að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til þess, ef hæstv. ríkisstjórn óskar eftir því að leita eftir breiðri samstöðu hér í þinginu, að fjalla um þann vanda og hvernig mæta megi auknum útgjöldum ríkissjóðs. Ef hæstv. ríkisstjórn vill fela sérstakri nefnd þingflokka eða hv. fjvn. slíkt verkefni í þeim tilgangi að leita eftir breiðri samstöðu þá mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum að taka þátt í því erfiða úrlausnarefni. En auðvitað er það undir hæstv. ríkisstjórn komið hversu breiða samstöðu hún kýs að hafa um þau efni.