Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., gerði það að meginefni sinnar ræðu eins og hann hefur gert í umfjöllun opinberlega að með þeim kjarasamningum sem gerðir voru í síðustu viku hafi völdin verið tekin af ríkisstjórninni. Það er skiljanlegt að hv. þm. Þorsteinn Pálsson sé í miklum vandræðum með málflutning Sjálfstfl. á þessum tímamótum. Staðreyndin er nefnilega sú að þessir kjarasamningar fela í sér traustsyfirlýsingu aðila vinnumarkaðarins á þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt.
    Það er kannski eðlilegt að ýmsir þingmenn Sjálfstfl. eigi erfitt með að átta sig á þessari staðreynd málsins vegna þess að ferill þeirra 1986 og 1987 þegar stefna Sjálfstfl. fékk að ráða voru þau víti sem báðir aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um í viðræðum við núv. ríkisstjórn að vara við. Aftur og aftur á fundum bæði samtaka launafólks og fulltrúa atvinnurekenda með ráðherrum í þessari ríkisstjórn féllu þessi orð frá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar og forustumönnum Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaga, umfram allt ber að varast að endurtaka mistökin frá 1986 og 1987.
    Það eru sporin frá 1986 og 1987 sem hræða. Ef það var einhver trygging sem þessir aðilar vinnumarkaðarins og forustumenn samtaka launafólks og atvinnuvega óskuðu eftir að fá frá núv. hæstv. ríkisstjórn var að hún tryggði að hún gerði ekki sömu mistök og hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði þegar hann var fjmrh. og þegar hann var forsrh. Efnahagsstefnan frá 1986 og 1987 voru vítin sem allir aðilar vinnumarkaðarins vöruðu við í þessum kjarasamningum. Sú trygging sem þeir töldu dýrmætast að fá frá þessari hæstv. ríkisstjórn var að hún lofaði að gera ekki sömu mistök og ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og þau mistök sem gerð voru í fjmrn. 1986 og 1987 í kjölfar kjarasamninganna þá, þegar hv. núv. þm. Þorsteinn Pálsson, þáv. fjmrh., jók ríkisútgjöldin, lækkaði skattana, lagði grundvöllinn að nýju þensluskeiði og eyðilagði kjarasamningana frá 1986.
    Þetta er mjög mikilvægt að komi hér fram vegna þess að þetta var meginboðskapurinn sem forustumenn launafólks og forustumenn atvinnulífsins fluttu núv. ríkisstjórn.
    Eins og fram kom í umræðum um stefnuræðu forsrh. fyrr á þessu þingi, í framsögu fyrir fjárlagafrv. fyrr í vetur og í umræðunum um vantraust sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson flutti ásamt Kvennalistanum og öðrum stjórnarandstæðingum þá hefur þessi ríkisstjórn unnið eftir ákveðinni áætlun. Sú áætlun skiptist í þrjá meginþætti.
    Í fyrsta lagi björgunaraðgerðir til að forða því efnahagslega hruni sem við blasti þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór frá.
    Í öðru lagi að skapa jafnvægi í öllum helstu þáttum efnahagslífsins svo að Íslendingar gætu á árinu 1991

gengið inn í fjölskyldu þeirra þjóða sem búa við stöðugleika í efnahagsmálum.
    Í þriðja lagi að hefja á hinu nýja jafnvægisskeiði þá brýnu vinnu að skipuleggja upp á nýtt framleiðslu í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Skipuleggja upp á nýtt verkaskiptingu í verslun, skipuleggja upp á nýtt margvíslega þætti í ríkisfjármálum. Eða með öðrum orðum bara að hrinda í framkvæmd þeim kerfisbreytingum sem hér hafa verið ræddar árum saman en ekki hefur unnist tími eða aðstæður til þess að hrinda í framkvæmd vegna þess að menn voru ýmist að glíma við verðbólgudrauginn eða forða atvinnuvegunum frá efnahagslegu hruni.
    Í viðræðum sem ríkisstjórnin átti við fulltrúa samningsaðila í nýgerðum kjarasamningum kom það hvað eftir annað fram að ástæðan fyrir því að þeir treystu sér til þess að gera þessa kjarasamninga og leggja þannig sitt af mörkum til þess að Íslendingar gætu á nýju ári búið við langþráð jafnvægi sem við höfum beðið eftir í áratugi væri sá árangur sem náðst hefði af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, árangur sem endurspeglast í því að við búum nú við raungengi sem atvinnuvegirnir geta unað við. --- Ég ætla ekki hér að rifja upp gagnrýnisorð forustumanna sjávarútvegsins og atvinnulífsins á það ástand sem hér ríkti á haustmánuðum 1988 þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson fór frá. --- Jafnvægisástand sem endurspeglast af því að á peningamarkaðnum hefur skapast algerlega nýtt ástand, sem endurspeglast í því að vextir hafa farið lækkandi, lausafjárstaða bankanna er góð og stórfelld innlend fjármögnun hefur átt sér stað á frjálsum markaði á halla ríkissjóðs. Það eitt endurspeglar jafnvægisástandið að ríkissjóði hefur tekist á frjálsum markaði, ekki með lögþvingunum, ekki með formlega þvinguðum samningum við sjóði eða bankakerfi heldur á frjálsum markaði hér innan lands að afla verulegs hluta lánsfjárþarfar sinnar hér innanlands vegna þess að jafnvægisástandið hafði skapast. Jafnvægisástand sem endurspeglast líka í því að vöruskiptahallinn er horfinn og vöruskiptajöfnuður okkar Íslendinga gagnvart útlöndum er orðinn jákvæður.
    Þannig mætti lengi telja þær forsendur sem skapast hafa í efnahagslífi Íslendinga á síðustu tólf til sextán mánuðum og gerðu aðilum vinnumarkaðarins
kleift að gera þessa kjarasamninga. En það er rétt að minna á að ríkisstjórnin sagði strax sl. haust að það væri ekki verkefni ríkisstjórnarinnar að gera kjarasamningana heldur að skapa þau almennu skilyrði að aðilar vinnumarkaðarins gætu í frjálsum samningum samið um kaup og lífskjör launafólks í landinu og afkomu atvinnuveganna. Það eru kannski stóru tíðindin, hinn mikli árangur sem hér hefur náðst, efnahagslegur og lýðræðislegur, að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem varð að binda verkalýðsfélögin með lögum, en skildi samt sem áður atvinnulífið eftir í rúst, stóð frammi fyrir því að hrökklast frá. Hér hefur tekist á fullkomlega lýðræðislegan hátt með frjálsum samningum aðila á vinnumarkaði að festa í sessi stöðugleika í efnahagsmálum og byggja á þeim

grundvelli sem ríkisstjórnin hefur lagt án þess að beita lögþvingun með einum eða öðrum hætti. Þetta er hinn stóri lýðræðislegi og efnahagslegi árangur. Það er eðlilegt að forustumenn Sjálfstfl., sem þurftu að beita lögþvingunum og dugði þó ekki, skildu atvinnulífið eftir í rúst og urðu að fara frá, eigi erfitt með að átta sig á því að þessi tímamót hafa hér náðst.
    Ég vil í þessu sambandi rifja það upp að bæði í umræðu um stefnuræðu forsrh. 23. okt. og í umræðunni um vantraustið sem stjórnarandstaðan flutti á núv. ríkisstjórn 30. nóv., lýsti ég þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnin væri að beita og þeim tímamótum sem væru í nánd. Ég ætla aðeins, með leyfi hæstv. forseta, að rifja það upp hvað ég sagði hér í umræðunni um vantraustið 30. nóv. sl.: ,,Það mætti lengi telja fram þær umtalsverðu breytingar sem nú eru að skapa þau þáttaskil að í reynd stöndum við Íslendingar í dag í þeim sporum að í fyrsta skipti á þessum áratug getum við sagt með sanni að það hafi tekist að skapa hér raungengisstöðu sem gæti staðist á næsta ári með óbreyttu raungengi, stöðugleika í verðlagi, lítilli verðbólgu, 5--6% verðbólgu, jákvæðum viðskiptum við útlönd, lágum vöxtum í samræmi við það sem tíðkast í viðskiptalöndum okkar, jafnvægi í hagkerfinu í heild. Þann möguleika höfum við nú rösku ári eftir að við tókum við mesta efnahagslega stórslysi í hagstjórn Íslendinga í langan tíma.``
    Þessi umræða hér í dag að loknum kjarasamningum staðfestir þessi orð. Það er þetta sem hefur gerst. Í frjálsum samningum hafa tugþúsundir launafólks í landinu og fulltrúar atvinnulífsins ákveðið að taka höndum saman við stjórnvöld um að festa þetta jafnvægi í sessi. Mér finnst dálítið skemmtilegt þó ég ætli nú ekki að gera mikið mál úr því, að hv. þm. Þorsteinn Pálsson skuli einmitt hér og í fjölmiðlaummælum sínum nota hin sömu einkunnarorð og ég valdi fyrir stjórnarstefnuna á haustmánuðum þegar ég var að útskýra alla þessa þætti, einkunnarorðin ,,nýr grundvöllur``. Það er nefnilega alveg rétt hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni, þessi nýi grundvöllur hefur verið að myndast. Hann hefur verið að myndast í gengismálum, hann hefur verið að myndast á peningamarkaði, hann hefur verið að myndast í viðskiptum gagnvart útlöndum og hann hefur nú myndast í samskiptum launafólks og vinnuveitenda, í samskiptum bænda og launafólks og vinnuveitenda og í samskiptum þessara aðila við ríkisvaldið.
    Það er hins vegar alveg ljóst að núv. hæstv. ríkisstjórn ætlar sér ekki að gera sömu mistök og Þorsteinn Pálsson gerði þegar hann var fjmrh., þótt það sé athyglisvert að krafa Sjálfstfl. nú hér á Alþingi er í reynd að endurtaka þessi sömu mistök. Eða með öðrum orðum að auka ríkisútgjöldin og lækka skattana. Það kann að vera að hv. þm. Sjálfstfl. gangi erfiðlega að skilja það en það eru einmitt skattahækkanirnar sem ríkisstjórnin ákvað sem eiga veigamikinn þátt í því að þessi efnahagslegi stöðugleiki hefur náðst. Ef það er eitthvað sem mundi setja hagkerfið hér rækilega úr skorðum, þá væri það

að Sjálfstfl. yrði að ósk sinni að lækka skattana um 7 millj. án þess að draga úr ríkisútgjöldunum að sama skapi.
    Það er auðvitað athyglisvert að í umræðum um fjárlögin setti Sjálfstfl. ekki fram eina einustu tillögu um lækkun ríkisútgjalda, ekki eina einustu tillögu. Og í ræðu sinni hér áðan setti formaður Sjálfstfl. ekki heldur fram neina tillögu um lækkun ríkisútgjalda. Hann treysti sér ekki til þess. Hann skilyrti það þannig að ef og þegar og kannski Sjálfstfl. fengi aðgang að einhverri nefnd gæti verið að Sjálfstfl. kæmi með einhverjar tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda, en fyrr ekki. Með öðrum orðum, Sjálfstfl. hefur í dag engar tillögur um lækkun ríkisútgjalda. Þeir hafa að vísu stundum nefnt umhverfismálaráðuneytið og gert mikið úr því. Það eru nú ekki nema einn eða tveir tugir milljóna sem þar er um að ræða. Segir lítið í þessa sjö milljarða skattalækkun sem Sjálfstfl. ætlar að framkvæma.
    Það er þess vegna auðvitað alveg ljóst að varnaðarorð aðila vinnumarkaðarins, að ríkisstjórnin og Alþingi yrðu að forðast mistök Sjálfstfl. 1986--1987, hafa verið orð að sönnu. Því ummæli Sjálfstfl. bæði hér á Alþingi og utan þings um þessa kjarasamninga og stjórnarstefnuna gefa rækilega til kynna að það er full ástæða til þess að óttast það hvað muni ske ef þeim flokki verður aftur hleypt að því verki að framkvæma sína stefnu eins og hann hafði forræði á 1986 og 1987. ( FrS: Hverjir voru þá í ríkisstjórn?) Hv. þm. Friðrik Sophusson veit fullkomlega hverjir voru þá í ríkisstjórninni.
En það er nú ekki stórmannlegt hjá honum að reyna að skjóta sér á bak við Framsfl. eða Alþfl. í þeim efnum. ( FrS: Voru þeir í ríkisstjórn?) 1986 og 1987, að sjálfsögðu voru þeir í ríkisstjórn, fyrst Framsfl. og svo Alþfl. (Gripið fram í.) Fyrsta skipti? Ég hef oft minnst á það. Það verður hins vegar að segjast þeim flokkum til hróss að þeir lærðu af sínum mistökum. En ræða Þorsteins Pálssonar hér áðan sýnir rækilega að hann hefur ekkert lært af sínum mistökum. Ég vildi nú beina því til hv. þm. að hann ræddi við forustumenn Vinnuveitendasambandsins og forustumenn samtaka launafólks til þess að hann gæti af eigin raun kynnst varnaðarorðum þeirra nú og hvernig þeir dæma efnahagsstjórnina í fjármálaráðherratíð og forsætisráðherratíð Þorsteins Pálssonar. (Gripið fram í.) Já, forsvarsmenn Vinnuveitendasambandsins og forsvarsmenn samtaka launafólks. ( GHG: Eru þeir orðnir svona trúverðugir allt í einu?) Ja, það er nú þannig, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að í röðum vinnuveitenda eru ýmsir ágætismenn sem hafa lært mikið af reynslunni og sem útskýrðu það rækilega fyrir okkur ráðherrunum hvað þeir hefðu lært af hinni röngu efnahagsstjórn 1986 og 1987. Hvað þeir hefðu lært af því hvernig fyrst í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar og síðan í forsætisráðherratíð hans, kjarasamningarnir 1986 voru eyðilagðir. Ég efast ekkert um að þessir sömu háttvirtu menn eru alveg fúsir að flytja þann fyrirlestur fyrir þingflokki Sjálfstfl.

    Staðreyndin er nefnilega sú að eftir að hafa tekið við efnahagskerfi Íslendinga í rúst á haustmánuðum 1988 blasir nú við sá árangur að á þessu nýbyrjaða ári stendur íslenska þjóðin í þeim sporum að tekist hefur með samstilltu átaki ríkisstjórnar og fjölmennustu samtaka fólksins í landinu að flytja Íslendinga inn í samfélag siðaðra þjóða í efnahagsmálum þar sem jafnvægi og stöðugleiki og framfarir til að bæta lífskjörin setja svip sinn á efnahagsstarfsemina alla.
    Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera sitt til þess að stuðla að því að þessi árangur verði í höfn á samningstímabilinu. Bæði með því að draga úr ríkisútgjöldum og vinna þannig að niðurskurði ríkisútgjalda á næstu vikum og mánuðum og hins vegar með því að tryggja sem mest innlenda fjármögnun á halla ríkissjóðs, til þess að koma í veg fyrir erlendar lántökur sem gætu aukið þensluna og sett efnahagslífið úr skorðum.
    Ég vil, vegna orða hv. þm. Þorsteins Pálssonar, ítreka það sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan að fulltrúum launafólks og vinnuveitenda voru afhentar forsendur fjárlaganna og áform um útgjaldahækkanir ríkisfyrirtækja og þeir gerðu kjarasamninginn á grundvelli þessara gagna. Gagna sem gefin voru út m.a. 28. jan. og eru hér á tveimur fylgiskjölum, fskj. I og fskj. II og sjálfsagt að afhenda Sjálfstfl. og öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum þessi gögn. Í þessum gögnum kemur m.a. fram að hækkun bifreiðagjaldsins um 83% 1. mars á að skila 650 millj. og hefur 0,3% áhrif á vísitölu og það er líka rakið hver á að vera hækkun Ríkisútvarpsins 1. júlí og 1. okt., hver á að vera hækkun Áburðarverksmiðjunnar 1. maí, hver á að vera hækkun Pósts og síma 1. febr., 1. maí og 1. ágúst, hver á að vera hækkun Sementsverksmiðjunnar 1. febr. og 1. maí, hver á að vera hækkun bensíngjaldsins 1. apríl og 1. ágúst, hver á að vera hækkun þungaskattsins 1. júlí, hver á að vera hækkun bifreiðagjaldsins 1. mars og 1. júlí, hver á að vera hækkun áfengis og tóbaks og enn fremur tekjuskattur á orkufyrirtæki.
    Virðulegi forseti. Það verður að leggja á það áherslu hér að í samningunum voru ekki gerðar neinar athugasemdir við þessar hækkanir nema sú ósk að ríkisstjórnin mundi breyta einhverjum af þessum tölum, sem eru margar og margbreytilegar, þannig að það jafngildi 0,3% í framfærsluvísitölu frá og með febrúarmánuði. Allar aðrar hækkanir eru forsendur kjarasamninganna og það sýnir þess vegna best hvað hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur lítið kynnt sér málið eða vill temja sér ómerkilegan málflutning að telja að það sé krafa aðila vinnumarkaðarins í þessum kjarasamningum að hækkun bifreiðagjaldsins sé tekin til baka. Það er engin slík krafa. Það getur verið einn af fjölmörgum möguleikum sem til álita koma, en það getur líka komið til álita breyting á bensíngjaldi, það getur líka komið til álita breyting á gjaldskrám ríkisfyrirtækja eða einhverjir aðrir skattar eða gjöld sem lögð eru á. Það eina sem sett var fram var að

það jafngildi 0,3%. Það er þess vegna misskilningur sem fram kom hjá hv. þm. og öðrum að samið hafi verið um það að engar hækkanir yrðu hjá Ríkisútvarpinu, Pósti og síma eða þeim fyrirtækjum sem ég nefndi né heldur að engar hækkanir yrðu á bensíngjaldi, bifreiðagjaldi eða öðrum þessum þáttum og það er auðvitað mjög mikilvægt að þeir sem fjalla um kjarasamningana hér geri sér skýra grein fyrir um hvað er verið að ræða.
    Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu standa við það fyrirheit sitt að einhverjum af þessum ákvörðunum verði breytt á þann veg að það jafngildi 0,3% í framfærsluvísitölu. Það verður ákveðið núna á næstu 1--2 vikum hvernig það verður gert og þegar það liggur fyrir munu allar hinar ákvarðanirnar standa og um það er fullt samkomulag, bæði við samtök launafólks og samtök
atvinnurekenda.
    Það er líka misskilningur, virðulegi forseti, að sú ákvörðun að leggja til að orkufyrirtækin greiði tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki jafngildi 30--40% hækkun á orkugjaldi. Það hefur ekkert slíkt staðið til. Það hefur ekkert slíkt frv. verið lagt fram og í Ed. fara nú fram umræður um þetta frv., sem er stjfrv., eins og önnur stjfrv. þótt einstakir ráðherrar eða þm. hafi gert athugasemd við tæknilega útfærslu þess máls.
    Virðulegi forseti. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram, eins og fram kom hjá forsrh., tillögur um það hvernig mætti taka á breytingum í útgjöldum ríkissjóðs í kjölfar á þessum kjarasamningum. Það var ákveðið að þær tillögur verði skoðaðar af ráðuneytunum næstu daga og ég mun eiga viðræður við fulltrúa stjórnarflokkanna í fjvn. og síðan munu þingflokkarnir fjalla um þetta mál þannig að á næstunni mun koma fram hér á Alþingi frv. um þetta efni.
    Aðalatriði þessa máls er hins vegar þetta: Þessari ríkisstjórn hefur í góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins tekist að leggja hér grundvöll að nýju jafnvægisástandi í íslensku efnahagslífi. Að þessu leyti hefur sú verkáætlun sem ríkisstjórnin lagði á sl. ári gengið upp. Það er mjög mikilvægt að Alþingi allt taki síðan þátt í því á þessu ári og því næsta að tryggja það að þessi árangur verði festur í sessi þannig að árið 1990 verði ekki eina árið þar sem Íslendingar búi við jafnvægisástand í efnahagsmálum heldur verði þetta upphafið að afgerandi þáttaskilum í stjórn íslenskra efnahagsmála.