Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson (frh.) :
    Herra forseti. Ég átti ekki mjög mikið eftir af ræðu minni þegar fundi var frestað hér kl. hálffjögur. Ég hafði látið þess getið að þó að þetta frv. væri smátt í sniðum og sumir kölluðu hégómamál, væri það þó býsna alvarlegt og það af ýmsum orsökum. Í fyrsta lagi vegna vinnubragða við undirbúning málsins og hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að knýja það í gegn hér á hinu háa Alþingi í algerri andstöðu við stjórnarandstöðuna og í andstöðu við mikinn þorra þeirra aðila sem leitað hefur verið til en þeir eru nær 40. Enn fremur er vitað að þetta frv. er í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar.
    Í öðru lagi hafði ég látið þess getið að frv. stríðir gegn eðlilegu skipulagi í þessum málaflokki samkvæmt því sem reynslan hefur orðið erlendis þar sem umhverfisráðuneyti voru stofnuð upp úr 1970 og er í andstöðu við þau sjónarmið sem fram koma af hálfu alþjóðlegra nefnda og þeirra þjóða sem reynslu hafa í þessum efnum.
    Í þriðja lagi hafði ég vakið athygli á þeim kostnaði sem þessu mundi fylgja. Þar er kannski ástæða til að staldra aðeins betur við vegna þess að við Íslendingar stöndum þannig í ríkisfjármálum að viðvarandi halli er á ríkissjóði. Fjárlög fyrir þetta ár voru afgreidd með 3,7 milljarða halla, dulinn halli í fjárlögum var verulegur eða eigi minni, eins og forsendur voru þá, en um 3 milljarðar kr., þannig að raunverulegur halli á fjárlagadæminu eins og það var afgreitt var um 6--7 milljarðar kr. Og svo stendur á nú í kjölfar kjarasamninga að hæstv. ríkisstjórn hefur gefið yfirlýsingar þess efnis að hún muni leitast við að mæta auknum útgjöldum ríkisins vegna kjarasamninganna með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs. Og þá rímar þetta helsti illa saman, að vera í senn að stofna til nýs ráðuneytis, í rauninni upp á punt, ráðuneytis með engin verkefni, ráðuneytis sem eigi að síður fær vafalaust verkefni og ætlast er til að fái viðamikil verkefni í sínar hendur sem þýðir að þar verður mannafli, útgjöld og kostnaður sem enginn gerir sér grein fyrir í dag en ljóst er að verður gríðarlega mikill. Þetta er dæmi um tvískinnungshátt þessarar hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins sem hvarvetna kemur fram þar sem hún í öðru orðinu talar um nauðsyn þess að spara og draga saman útgjöld en hvarvetna kemur í ljós að hún eykur á eyðslu, sóun, mannahald og kostnað í hvívetna og ekki síst í eigin ráðuneytum.
    Í fjórða lagi hafði ég vakið á því athygli að þetta frv. er óþarft og til óþurftar og í óþökk þeirra sem þetta ráðuneyti á að þjóna. Ég held þess vegna að þrátt fyrir að í orði kveðnu sé þetta lítið mál, jafnvel hégómamál, þ.e. stofnun ráðuneytis án verkefna, þá sanni þau fjögur atriði sem ég gerði að umtalsefni í fyrri hluta ræðu minnar að málið er að hinu leytinu býsna alvarlegt. Eftir stofnun á umhverfisráðuneyti munu koma verkefni. Það mun verða bákn miðað við reynslu annars staðar, það mun verða gífurlegur kostnaður og þar ofan í kaupið er hér um ranga

skipun stjórnsýslu að ræða. Ég vil því endurtaka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég hef fylgst með þessum málatilbúnaði og þeim þunga sem hæstv. ríkisstjórn leggur á þetta mál, að koma því í gegnum Alþingi, með vaxandi undrun. Og ég undrast það ef hv. þm. stjórnarliðsins almennt vilja fylgja foringjum sínum, hæstv. ríkisstjórn, í þessu máli, ég undrast það.
    Ég hefði getað látið mér detta í hug að hæstv. ríkisstjórn hefði tekið trúanlega einhverja minni hópa, áróðurshópa, sem hafa viljað vinna þessu máli brautargengi án þess að átta sig á hvernig málið er vaxið í raun og veru. En það er nú víst ekki svo. Í raun og veru mun þetta vera af enn ómerkilegri toga. Það mun sem sé liggja að baki að verið er að greiða gjald fyrir þátttöku svokallaðs Borgfl. í þessari ríkisstjórn. Og til að greiða þetta gjald eru stjórnarráðslögin notuð og þau meðhöndluð með þeim hætti sem engin dæmi eru til um áður og þarf ekki frekar að lýsa því. Það hefur verið gert hér fyrr í dag og af mér einnig fyrr.
    Vel má vera að þetta sé metnaðarmál hæstv. hagstofuráðherra og því verður ekki á móti mælt að staða hæstv. hagstofuráðherra er næsta aumkunarverð. Það er sjálfsagt að votta honum samúð héðan úr þessum ræðustól. En það afsakar ekki að ráðast að stjórnarráðslögunum með breytingu sem knúin er í gegn með væntanlega litlum meiri hluta hér á hv. Alþingi og gegn þorra þeirra umsagna sem gefnar hafa verið um málið og þær eru nær 40. Ég tel að hægt væri að mæta sjálfsagt eðlilegum metnaði þessa hæstv. ráðherra og eðlilegri starfslöngun hans á annan hátt innan þessarar ríkisstjórnar en með því að brjóta upp stjórnarráðslögin með þessum hætti. Hér hefur verið lýst áður á hvern hátt þurfi að standa að því að vinna að breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands og það er ekki með þessum hætti.
    Ég held að það sé að sjálfsögðu hægt að skilja að það er ekki sérstaklega áhrifamikil eða merkileg staða sem hæstv. hagstofuráðherra gegnir og eins og ég sagði, staða hans er kannski aumkunarverð, að hafa tekið að sér að verða ráðherra Hagstofu Íslands, þ.e. ráðuneytis án verkefna. Og ef það skyldi nú bætast við að hann fengi annað ráðuneyti án verkefna, þá væri staða hans hálfu
aumkunarverðari og tvöföld sú samúð sem hann ætti skilið úr þessum ræðustól og frá hv. þm. hér á Alþingi. Ég hef fylgst með því að hæstv. hagstofuráðherra hefur haft tóm til þess að sýna á ýmsan hátt hvernig hann kýs að meðhöndla fjármuni ríkisins og skattborgaranna í þessu ráðuneyti, Hagstofu Íslands, sem hann hefur tekið að sér að stjórna án verkefna. Ég fæ ekki betur séð en hann hafi ráðið sér þar tvo aðstoðarmenn, tvo pólitíska vildarmenn til að fást við ráðuneyti án verkefna. Ég hef aldrei vitað til þess að sá ráðherra sem fer með málefni Hagstofu Íslands hafi þurft í einu eða neinu að skipta sér af málum í þeirri stofnun. Og ég veit að Hagstofa Íslands hefur svo góðu starfsliði á að skipa að það ætti ekki að þurfa pólitíska aðstoðarráðherra ásamt ráðherranum til að fást við stjórn þeirra mála. Þó í

litlu sé hefur þarna verið sýnd tilhneiging í þá átt sem ekki er alveg í samræmi við yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar um sparnað í ríkisrekstri, það er öðru nær. Hæstv. ráðherra hefur sýnt alþjóð það gleiðbrosandi á sjónvarpsskjánum hvernig hann hafi komist að sérstökum kostakjörum við bifreiðakaup og sýnt skíðabúnaðinn á toppgrindinni sem þarf að nota við eftirlit á gróðurfari hálendisins að sumarlagi, eftir orðum ráðherrans sjálfs. Ég hefði gjarnan viljað að tekið væri til athugunar hvernig er varið með þau bifreiðakaup vegna þess að því er lýst yfir af hæstv. hagstofuráðherra að þessi bifreið sé keypt fyrir umhverfisráðuneytið og greidd af fé umhverfisráðuneytis í fjárlögum.
    Nú er það svo að á fjárlögum þessa árs eru 22,9 millj. eða tæpar 23 millj. ætlaðar til umhverfisráðuneytis. En ég lít svo til að það sé a.m.k. vafasamt, ef ekki með öllu víst, að óheimilt sé að greiða út af þessum fjárlagalið fyrr en umhverfisráðuneyti hafi verið stofnað með lögum. Og ég ber fram þá ósk til hv. allshn. Nd. að hún fái úr því skorið á milli 2. og 3. umr. hvort hér sé óleyfilega og ólöglega með fé ríkisins farið af hæstv. ráðherra. Ég vænti þess að hér séu einhverjir nefndarmenn úr þeirri nefnd. Ég sé hér hv. þm. Guðna Ágústsson og ég beini því til þessa hv. þm., 5. þm. Suðurl., að þetta verði tekið til athugunar af hv. allshn. á milli 2. og 3. umr. þannig að það liggi skýrt fyrir: Er þessi meðferð á fjármunum ríkisins heimil eða ekki? Ég lít svo til að hún sé ekki heimil fyrr en umhverfisráðuneyti hefur verið stofnað með lögum.
    Á fjáraukalögum fyrir árið 1989 voru samþykktar fjárveitingar til undirbúnings að umhverfisráðuneyti. Samþykkt var af Alþingi á síðasta ári heimild til að verja því fé til undirbúnings að þessu ráðuneyti, sem mun hafa verið að einhverju marki gert. En hér er ekki um það að tala á árinu 1990, í fjárlögum þessa árs. Nú er ekki gert ráð fyrir neinum undirbúningi heldur er gert ráð fyrir fé til þessa ráðuneytis sem ekki er heimilt að greiða út úr ríkissjóði fyrr en ráðuneytið hefur verið stofnað. Ég tel að ósk mín hljóti að hafa komist til skila og vænti þess að við henni verði orðið, að þetta verði kannað á milli umræðna.
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mál mitt þó að sannarlega væri ástæða til að flytja hér ítarlega ræðu. Ég talaði nokkuð lauslega um þetta mál við 1. umr. og margt er órætt enn þó að aðalatriði málsins hafi komið fram. Og aðalatriði málsins eru öll gegn þessu máli. Ég skora því hér með á hæstv. ráðherra sem hér er viðstaddur, sem er nú ekki nema einn, og hv. þm. stjórnarliðsins að draga þetta mál til baka en ella að þetta frv. verði fellt eins og minni hl. allshn. leggur til. Við þurfum að koma þessum málum fyrir með heppilegri hætti í samræmi við það sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Einmitt þær tillögur hafa fengið jákvæðar undirtektir í fjölmörgum þeirra umsagna sem eru gersamlega neikvæðar um það frv. sem hér er á dagskrá og fylgifrv. þess.
    Ég vænti þess að við þurfum ekki að horfa upp á

það að þessi hæstv. ráðherra, sem okkur er auðvitað öllum vel við persónulega, þurfi að hljóta þá tvöföldu niðurlægingu að fara með tvö ráðuneyti án verkefna.